Vestmannaeyjar 100 ára – Dagskráin heldur áfram

 

Dagskrá vegna 100 ára afmælis Vestmannaeyja heldur áfram, Ný lokið er sýning á verkum Jóa Listó í Einarsstofu þar sem nú hanga uppi málverk í eigu Vestmannaeyjabæjar sem málaðar eru af körlum. Svo tekur við hver viðburðurinn af öðrum. Næst er það Kvikmyndahátíð í byrjun maí en hápunkturinn er fimmta júlí. Þá mun afmælisnefnd í samstarfi við Goslokanefnd efna til mikillar veislu í tali og tónum. Verða í boði glæsileg skemmtiatriði  fyrir fólk á öllum aldri.

 

Byrjað með glæsibrag

Eins og undanfarin ár verða viðburðir í Safnahúsi og verða þeir kynntir jafnóðum. Þegar hefur verið haldin sýning á verkum Kjarvals í eigu Vestmannaeyjabæjar. Stórskemmtileg sýning á myndum eftir nemendur Grunnskólans sem skoðuðu lífið í Eyjum með sínum augum. Þá tók við sýning á verkum eftir Eyjakonur sem var fjölbreytt og skemmtileg sýning.

 

Af öðrum viðburðum má nefna hátíðarfund bæjarstjórnar 14. febrúar, bæjarstjórnarfund unga fólksins 15. febrúar og málstofu um stöðu Vestmannaeyja í nútíð og framtíð 17. febrúar. Allt mjög vel heppnaðir viðburðir.

 

Forvitnileg kvikmyndahátíð

Ákveðið er að halda kvikmyndahátíð og verður hún tvískipt. Fyrri hlutinn verður  dagana áttunda, níunda, tíunda, ellefta og tólfta maí og seinni á Safnahelgi í byrjun nóvember. Í hvort skipti verða sýndar valdar myndir fimm daga í röð í Bíóinu í Kviku. Hátíðin er haldin í góðu samstarfi við Svavar Vignisson, sem rekur Bíóið. Mikið er til af myndum, bæðí leiknum og heimildarmyndum sem tengjast Vestmannaeyjum. Ná þær allt aftur til þriðja áratugar síðustu aldar. Það verður vandi að velja og hafna en hægt er að lofa spennandi dagskrá þar sem margt kemur á óvart.

Fullbúin dagskrá verður kynnt á næstu dögum.

 

Aðalhátíðin í byrjun júlí

Aðalahátíðarhöldin verða svo fyrstu dagana í júlí og tengjast goslokahátíðinni. Annan og þriðja júlí verður dreift mjög myndarlegu afmælisblaði sem Sara Sjöfn Grettisdóttir, ritstjóri Eyjafrétta ritstýrir. Þar verður farið yfir sögu Vestmannaeyja, stöðuna í dag og það sem framundan er. Sara Sjöfn lofar fjölbreyttu og skemmtilegu blaði og ljóst er að af nógu er að taka í 100 ára sögu Vestmannaeyja, bæði í myndum og texta. Blaðinu verður dreift í öll hús í Vestmannaeyjum.

 

Aðalhátíðin er svo föstudaginn fimmta júlí og er unnin í samstarfi við Goslokanefnd. Þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Sjálf 100 ára hátíðin fer fram á Skansinum sem heill heimur útaf fyrir sig.

 

Dagskráin er enn í mótun en á Skansinum verða flutt stutt ávörp og tónlist auk annarra atriða sem enn er verið að móta. Síðdegis verður móttaka bæjarstjórnar í Eldheimum þar sem forseti Íslands og forsætisráðherra verða á meðal gesta.

 

Stórtónleikar

Um kvöldið, verða stórir tónleikar í Íþróttamiðstöðinni þar sem fjöldi landsþekktra listmanna koma fram með öflugri innkomu tónlistarfólks úr Eyjum. Tónleikarnir eru í boði bæjarstjórnar og er búist við mikilli aðsókn. Því er ákveðið að halda tvenna tónleika, kl. 18.00 og 21.00.

 

Um kvöldið og nóttina verður Skvísusundið miðpunktur mikillar tónlistarhátíðar þar sem allir geta tekið sungið með sínu lagi.

 

Safnahelgin fær veglegan sess

Lokatónn 100 ára afmælisársins verður svo á Safnahelgi í byrjun nóvember. Safnahelgi hefur fest sig í sessi sem ein allsherjar menningarveisla. Dagskrá er enn í mótun en þessa helgi verður seinni hluti kvikmyndahátíðar auk annarrar dagskrár.

 

Fleira í pípunum

Þetta er ekki tæmandi dagskrá afmælisársins og verða viðburðir kynntir með góðum fyrirvara. Af þessu má sjá að framundan er glæsileg afmælisdagskrá og er von á fjölda gesta.

 

Í afmælisnefnd eru Arnar Sigurmundsson, Hrefna Jónsdóttir, Stefán Óskarsson og með þeim eru Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri hjá bænum og Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss og Ómar Garðarsson.