Goslokahátíðin 2019
Gakktí Bæinn - Arkitektúr og byggingarsagan fyrir gos
Áhrif byggingarlistar á mannlegt umhverfi og áhrif Heimaeyjargossins
Með áhugaverðari sýningum afmælishelgina var „Gakktí Bæinn“, sögusýning Kristins Pálssonar, arkítekts á grafískum verkum um arkitektúr og byggingarsögu Vestmannaeyja í Þekkingarsetrinu. Kristinn hefur lagt mikla vinnu og metnað í verkin og upplýsingar sem fylgdu með. Mikil aðsókn var að sýningunni sem var áhugaverð, ekki síst fyrir Vestmannaeyinga sem þekkja húsin, sem sumum hafði verið breytt og einhver aldrei byggð. Efni sem gaman væri að sjá á bók.
Á Gakktí Bæinn var ljósinu beint að uppbyggingu og arkitektúr í Vestmannaeyjum fyrir Heimaeyjargosið 1973. Tilefnið var 100 ára kaupstaðarafmæli sveitarfélagsins og var brugðið upp einföldum húsateikningum í grafískum stíl með upplýsingum um húsin.
Kristinn á mikið lof skilið fyrir skemmtilega uppsetningu og vönduð vinnubrögð. Aðsókn var mikil og þurfti tvær tilraunir til að geta notið sýningarinnar sem sýndi húsin eins og þau voru fyrir gos. Sum hafa tekið breytingum, önnur eru horfin og sum voru aldrei byggð. Kristinn hefur lagt mikla vinnu í sýninguna og vonandi eigum við eftir að sjá hana á prenti í framtíðinni.
Gengið um götur og hverfi
„Sýningin var uppsett með þeim hætti að gestir gátu gengið um götur og hverfi þar sem fjallað er um arkitekta, byggingarstíla og götumyndir í Vestmannaeyjum,“ sagði Kristinn um sýninguna. „Mikill fjöldi veggspjalda var til sýnis af byggðum og óbyggðum verkum misþekktra hönnuða ásamt einföldu og fræðandi lesefni. Sýningin var jafnframt hugsuð sem umræðuvettvangur þar sem gestir gátu rætt áhrif byggingarlistar á mannlegt umhverfi og hvaða áhrif Heimaeyjargosið hefur haft á ásýnd sveitarfélagsins. Auk þess að sýna hve ábyrgðarmikið hlutverk það er að hanna umhverfið í kringum okkur.“
Sýningin er hugarfóstur Kristins sem hefur stundað nám á Íslandi og erlendis. Hann þekkja margir sem fyrrverandi skopteiknara Morgunblaðsins og fyrrum starfsmann Vestmannaeyjabæjar, þar sem hann var meðal annars í undirbúningi Goslokahátíðar síðastliðin ár.
„Verkefnið var styrkt af Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga og Vestmannaeyjabæ. Hljóta starfsmenn sveitarfélagsins og tengdir aðilar sem hafa aðstoðað þakkir. Sérstakar þakkir fær Pétur H. Ármannsson, arkitekt, hjá Minjastofnun Íslands,“ sagði Kristinn.