Gosskjöl 1973.
Gosskjölin eru hin ýmsu skjöl sem hafa verið afhent Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja í gegnum árin. Afhendingaraðilar eru Viðlagasjóður, en Arnar Sigurmundsson afhenti fyrir hönd sjóðsins á árunum 1980-81. Þá afhenti Páll Zóphoníasson skjöl frá Almannavarnanefnd Vestmannaeyjabæjar árið 1982.
Þau skjöl sem hafa verið skönnuð og eru hér aðgengileg eru skjöl Almannavarnanefndar Vestmannaeyja.
Skjölin urðu til á daglegum fundum er nefndin hélt á tímum eldgossins frá janúar til júlí 1973. Almannavarnanefnd Vestmannaeyja var skipuð þeim Magnúsi H. Magnússyni bæjarstjóra, Páli Zóphoníassyni bæjartæknifræðingi, Einari Val Bjarnasyni lækni, Kristni Sigurðssyni slökkviliðsstjóra, Elíasi Baldvinssyni og fulltrúa fógeta þeim Jóni Haukssyni og Jóni Ragnari Þorsteinssyni, en þeir tveir síðasttöldu skiptust á að vera í Vestmannaeyjum á tímum eldgossins.
Fundir Almannavarnanefndar voru haldnir daglega kl. 14 á bæjarskrifstofum Vestmannaeyjabæjar að Kirkjuvegi 23 (Útvegsbankahúsinu). Þegar loka þurfti miðbænum vegna útstreymis gass voru fundirnir fluttir upp í Gagnfræðaskóla.
Á þessum daglegu fundum nefndarinnar voru skýrslur hinna ýmsu deilda er störfuðu í Vestmannaeyjum á tímum eldgossins lagðar fram, auk þess sem þeir skráðu niður í fundargerð hvað gert hafði verið síðastliðinn sólarhring.
Skjöl Almannavarnanefndar sem eru hér aðgengileg á síðu Héraðsskjalasafnsins eru auk fundargerða, skýrslur deilda, skýrslur jarðfræðinga, fréttatilkynningar ásamt ljósritum af mælingum Landhelgisgæslu Íslands sem fylgdu skýrslum jarðfræðinga.
Skjölin eru flokkuð í tímaröð frá 23.janúar 1973 til 1. september 1973.
Skönnunin var styrkt af Þjóðskjalasafni Íslands árið 2022.
Janúar
Febrúar
Mars
Apríl
Maí
Júní
Júlí
Ágúst
September
Október