Úrval æviágripa listamanna í Listasafni Vestmannaeyja
 

Júlíana Sveinsdóttir 1889-1966

Júlíana Sveinsdóttir fæddist að Sveinsstöðum í   Vestmannaeyjum 31. júlí árið 1889. Foreldrar hennar voru þau Guðrún Runólfsdóttir og Sveinn Jónsson trésmíðameistari og var Júlíana næstelst af fimm systkinum. Sextán ára gömul flutti Júlíana til Reykjavíkur þar sem hún stundaði nám í tvo vetur.
 
Í Kvennaskólanum í Reykavík komu í ljós hæfileikar Júlíönu í teikningu og varð það til þess að hún fékk tilsögn hjá listmálaranum Þórarni B. Þorlákssyni. Hann var menntaður í Danmörku og hélt sína fyrstu málverkasýningu í Reykjavík árið 1900 en það var fyrsta einkasýning listmálara hér á landi.
   
Fyrir þann tíma hafði fáum Íslendingum dottið í hug að leggja myndlist fyrir sig að ævistarfi en um aldamótin 1900 var andrúmsloftið að breytast og hin vaxandi borgarastétt landsins farin að gera sér grein fyrir mikilvægi myndlistar fyrir menningu og sjálfsímynd þjóðarinnar.
Í upphafi síðustu aldar var ekki sjálfgefið að ungar stúlkur héldu til náms í Kaupmannahöfn en Júlíana bjó yfir ótvíræðum hæfileikum og átti föður sem hafði áhuga og getu til að styrkja hana til náms Júlíanna fór utan til náms árið 1909 og fékk hún inngöngu í Akademíið úr einkaskóla Agnesar Jensen haustið 1912 . Og þar stundaði hún síðan nám fram til 1917, aðallega hjá P. Rostrup-Böyesen ( 1882 – 1952 ), sem hefur verið talinn meðal bestu listkennara Dana á þessari öld. Hún stundaði nám á sama tíma og þau Kjarval, Kristín Jósdótti og
Guðmundur Thorsteinsson.

Ári síðar sýndi hún í fyrsta skipti opinberlega í Kaupmannahöfn en uppfrá því var hún virkur þátttakandi í sýningarlífi Danmerkur og tók yfirleitt þátt í einni eða tveimur samsýningum listamanna árlega það sem eftir var ævinnar.

Þátttakendur á þessum sýningum voru valdir af dómnefnd og því fólst ákveðin viðurkenning í því að fá verk sín samþykkt til sýningar. Auk þess að taka þátt í samsýningum danskra listamanna sýndi Júlíana á Íslandi með Listvinafélaginu og Félagi íslenskra listamanna.
Einnig var hún valin á fjölda samsýninga á íslenskri og norrænni list erlendis. Í lifanda lífi tók Júlíana þátt í rúmlega hundrað samsýningum og hélt 11 sérsýningar á Íslandi og í Danmörku. Auk þessa var hún virk í samtökum listamanna og vílaði ábyrgðarstörf ekki fyrir sér. Sat hún meðal annars sem fulltrúi listamanna í stjórn Hins konunglega danska listaháskóla sem hefur m.a. það hlutverk með höndum að vera opinberum aðilum ráðgefandi varðandi myndlist og arkitektúr og veita viðurkenningar á sama vettvangi.

Seta Júlíönu í hinum ýmsu stjórnum og ráðum ber vott um það traust og virðingu sem félagar hennar í listamannastétt báru til hennar. Það eru þó fyrst og fremst verk Júlíönu sem halda nafni hennar á lofti og fyrir þau hlaut hún fjölda verðlauna og viðurkenninga. Ber þar hæst heiðursverðlaun Eckersbergs sem hún hlaut árið 1947 en það er ein æðsta opinbera viðurkenningin sem veitt er fyrir myndlist í Danmörku.

Verkið sem Júlíana hlaut hin eftirsóttu Eckersbergsverðlaun fyrir er nú í eigu Listasafns Íslands (LÍ 778) og ber heitið Frá Vestmannaeyjum (Elliðaey).

Júlíana málaði þessa mynd í Vestmannaeyjum árið 1946 en það sumar kom hún til Íslands eftir langa fjarveru vegna stríðsins og urðu endurfundirnir við ættjörðina mjög kærir. Sjálf segir hún oftar en einu sinni í blaðaviðtölum að það hafi verið þetta sumar sem hún sá Vestmannaeyjar í fyrsta skipti eins og þær eru í raun og veru.
Að jafnaði má segja að Júlíana hafi komið annað hvert sumar til Íslands til að mála og dvaldi hún þá yfirleitt í Vestmannaeyjum hjá fjölskyldu sinni en hún ferðaðist einnig um landið og málaði, einkum á Suður- og Vesturlandi.
 
Í Vestmannaeyjum voru það fyrst og fremst klettarnir, svart fjörugrjótið og hafið með sínum ótal litbrigðum sem veitti Júlíönu innblástur. Að eigin sögn voru það þó ekki klettar og fjöll, sem hún leitaðist við að sýna í málverkum sínum, heldur á að speglast í þeim “þessi barningur hafsins, eilífa hreyfing, lífið sjálft...“.i Í kviku hafsins fann hún því samhljóm með eigin lífsbaráttu og striti annarra.
 
Júlíana var mjög háð sjónhrifum og varði jafnan löngum tíma í að finna sér myndefni og rétta birtu. Valdi hún oft þungbúið veðurfar eða rökkurbirtu sem gerir það að verkum að mörg verka hennar eru sveipuð ákveðinni dulúð. Litanotkun hennar er einnig mjög heillandi en hún nýtti sér allan litaskalann og má segja að fáir hafa nýtt sér litbrigði íslenskrar náttúru af jafn miklu næmi og hún.
Júlíana lagði alla tíð mikla áherslu á litina enda sagði hún hið persónulega svipmót verka sinna liggja í þeim.
 
Júlíana hóf að vefa fyrir hálfgerða tilviljun þegar hún sem ungur listamaður leitaði leiða til að drýgja tekjurnar. Fann hún vefstól uppi á lofti hjá kunningjakonu sinni, fékk hann lánaðan og fór að prófa sig áfram án nokkurrar fyrri reynslu af vefnaði.
 
 Í fyrstu var það aðeins álnavara sem hún óf, t.d. fataefni og áklæði en einnig værðarvoðir og sjöl. Smám saman lagði hún einnig fyrir sig myndvefnað sem varð til þess að hún settist aftur á skólabekk Listaháskólans til að ná betri tökum á þessum nýja miðli.
Til að byrja með óf Júlíana úr margs konar bandi en brátt varð íslenska ullin einráð í vefstólnum og vakti hún sérstaka athygli í Danmörku vegna mýktar og nútímalegs yfirbragðs. Á fjórða og fimmta áratugnum var Júlíana meðal brautryðjenda á sviði vefnaðar í Danmörku og vakti hún athygli bæði fyrir nýtískuleg fataefni og listrænan myndvefnað.
Júlíana þótti hafa næma tilfinningu fyrir litum, formum og efni og hlaut hún fjölda verðlauna fyrir vefnað sinn. Júlíana var því löngu búin að skapa sér nafn sem listvefari á Norðurlöndunum þegar hún vann til gullverðlauna á hinum IX. ítalska þríæringi sem haldinn var í Mílanó árið 1951. Var þetta ein mesta viðurkenning sem Júlíana hlaut sem listvefari og fyrstu verðlaun sem Íslendingi hlotnaðist fyrir listhönnun á alþjóðlegri sýningu.
 
Reyndar sýndi Júlíana ekki sem Íslendingur heldur Dani á sýningunni. Þessi þríæringur í Mílanó er oft talinn marka upphafið að velgengni og aðdáun á norrænni hönnun og handbragði en Skandínavar, einkum Finnar, sópuðu til sín verðlaunum á sýningunni.

 
Jóhannes S. Kjarval 1885-1972.
Jóhannes Sveinsson Kjarval fæddist 15. oktober 1885 í Borgarfirði. Þegar hann fluttist til Reykjavíkur til náms eftir aldamótin kynntist hann myndlist og stundaði m.a. nám hjá Ásgrími Jónssyni. Dvaldist við nám í myndlist í Danmörku, bjó þar um tíma en fluttist síðar til Íslands. Kjarval lést árið 1972. Myndirnar eftir Kjarval í eigu Listasafns Vestmannaeyja voru keyptar af Vestmannaeyjabæ vegna 50 ára afmæli Byggðasafns Vestmannaeyja árið 1969 af Sigfúsi M. Johnsen fyrrverandi bæjarfógeta og Jarþrúði Þ. Johnsen. Safn Listasafns Vestmannaeyja er með stærri einkasöfnum af verkum Kjarvals á landinu.

Engilbert Gíslason 1877-1971
Engilbert Gíslason fæddist í Vestmannaeyjum 12. október 1877. Listrænir hæfileikar hans komu snemma í ljós. Árið 1899 sigldi hann til Kaupmannahafnar til að læra málaraiðn og var hann fyrsti Íslendingurinn sem gerði þá iðn að ævistarfi. Á Kaupmannahafnarárunum kynntist hann Ásgrími Jónssyni listmálara og Einari Jónssyni myndhöggvara, en þeir voru þar við nám og störf. Að loknu námi árið 1903 fluttist Engilbert heim á ný og dvaldi í Reykjavík, þar sem hann vann við málaraiðn. Til Vestmannaeyja fluttist hann aftur árið 1910 og vann þar við iðn sína, auk þess sem hann sinnti áhugamáli sínu, málaralist. Málverk og teikningar hans af náttúru Vestmannaeyja, atvinnuháttum, mannlífi svo og sögulegar myndir hans vöktu verðskuldaða athygli. Ferill hans sem listamanns náði yfir 70 ár, en hann lést 7. desember 1971.
 
 
 
Ragnar Engilbertsson 1924-2016
Ragnar Engilbertsson fæddist 15. maí 1924, en hann er sonur Engilberts Gíslasonar (1877-1971) listmálara í Vestmannaeyjum. Hann lærði málaraiðn hjá föður sínum, en árið 1943 heldur hann til náms í Handíða- og myndlistaskólanum og er þar við nám til ársins 1945. Árin 1948-51 stundar hann nám við Kunstakademíuna í Kaupmannahöfn. Ragnar þykir sérstaklega snjall í meðferð vatnslita.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Kristinn Ástgeirsson 1894-1981 
Kristinn Ástgeirsson frá Miðhúsum fæddist árið 1894. Fram eftir ævinni vann hann við sjómennsku og almenn verkamannastörf og hóf ekki að mála fyrr en eftir miðjan aldur. Kristinn var ólærður í myndlist en málaði sér til ánægju og leitaði að myndefni í umhverfinu og daglegu lífi í Vestmannaeyjum. Myndirnar eftir Kristinn Ástgeirsson frá Miðhúsum í eigu Listasafns Vestmannaeyja teljast til merkilegra heimilda um atvinnuhætti og verklag fólks á upphafi 20. aldar. Kristinn hélt einungis eina einkasýningu á æfinni en hann sýndi á Hallveigarstöðum í Reykjavík sumarið 1973 þá að verða 79 ára gamall. Hann lést árið 1981.