Eyjahjartað slær enn – Og aldrei verið kröftugra
Fullt út úr dyrum og færri komust að en vildu
Fátt hefur gert betur að efla tengsl okkar sem hér búum og brottfluttra Eyjamanna en Eyjahjartað. Þar er spilað á allan tilfinningaskalann og oft mikið hlegið. Og nú er haldið áfram og verður hist í Einarsstofu á laugardaginn.
Þau sem standa að Eyjahjartanu og hafa gert frá upphafi eru Kári Bjarnason, Einar Gylfi Jónsson, Atli Ásmundsson og Þuríður Bernódusdóttir. Þau sem komu fram voru Edda Andrésdóttir, Helgi Bernódusson, Inga Jóna Hilmisdóttir og Sigurjón Guðmundsson. Þau höfðu frá mörgu að segja og var eins og svo oft áður, mikið hlegið og stundum var stutt í tregann.
Margt fólk var í bænum í tilefni gosloka og afmælis Vestmannaeyjakaupstaðar og því var ljóst að aðsókn yrði góð. Fæstir áttu þó von á þeim fjölda sem mætti. Þrátt fyrir að setið var í hverjum stól í Einarsstofu og staðið í öllum hornum urðu margir frá að hverfa. En þeir sem gátu fylgst með skemmtu sér konunglega.
Allt hófst þetta með Götunni minni, þar sem fólk úr gamla austurbænum kom saman á Goslokahátíð og rifjaði upp lífið við götuna sína sem horfin er undir hraun. Seinna varð þetta Eyjahjartað þar sem, rifjar fólk upp æskuárin í Eyjum, hvert frá sínu sjónarhorni.
„Edda, sem var mörg sumur hjá sínu fólki á Kirkjubæjum kallaði frásögn sína, Ævintýrabústaðurinn og vísar þar trúlega til ljóðlínu Ása í Bæ úr Þjóðhátíðarlaginu 1964 „Þar sem fyrrum“: „Þá er jörðin ung og heit og undra fögur/Ævintýrabústaðurinn minn“. Hún þekkir vel til í Vestmannaeyjum enda var hún hér mörg sumur hjá ættingjum sínum á Kirkjubæ.. 2013 sendi hún frá sér frábæra endurminningabók „Til Eyja“ um tengingu sína við Eyjarnar þannig að hún hefur frá mörgu að segja,“ sagði Einar Gylfi sem mætti ásamt hinum í Eyjahjartanefndinni.
Helgi Bernódusson, kenndur við Borgarhól kallaði sitt erindi Konurnar í kringum mig. „Hann talaði um Gróu, þá merku konu sem bjó á móti honum á Kirkjuveginum og Gunnu í Dagsbrún sem bjó sömuleiðis steinsnar frá Borgarhól. Hann hefur áður í erindi gert henni Neríði, mömmu Ameríku Geira góð skil. Allt eru þetta merkar konur sem eiga sér mikla sögu, þótt lágt hafi farið.“
Sigurjón var virkur í Leikfélaginu sem ungur maður og talaði um minningar úr leikhúsinu. „Það var skemmtilegt því auk þess að leika hjá Leikfélaginu var hann nábúi Unnar Guðjónsdóttur sem á síðustu öld var ein skærasta stjarnan á leikhúshimni Eyjanna. Þar var Sigurjón heimagangur og hafði frá mörgu að segja. Þess má geta að Sigurjón er þekktur fyrir að vera hafsjór af sögum enda stálminnugur.“
Oft ég velti vöngum vorkvöldin hlý kallaði Inga Jóna Hilmisdóttir frásögn sína. „Þetta er tilvitnun í ljóð föður hennar, Hilmis Högnasonar. Giska á að það verði leiðarstefið hjá henni. Í minningunni var eilíft vor og sumar. Það er það sem situr gjarnan eftir hjá okkur. Hún hefur örugglega frá mörgu að segja enda kemur hún úr stórum systkinahópi og auk þess ættuð úr Vatnsdal þar sem fjölmenn stórfjölskylda hennar bjó,“ sagði Gylfi sem tók til máls í lokin og lét gamminn geysa eins og honum er einum lagið. Uppskar mikinn hlátur enda fundvís á það spaugilega í mannlífinu og kann flestum betur að segja frá.
Ljósmyndir: Óskar Pétur Friðriksson
Kári Bjarnason
Öflugur hópur hefur haldið þessu gangandi
Jæja komið þið sæl, ég held það sé eins gott að byrja því að mér sýnist að það sé nú orðið meira en fullt hérna. Ég vil nú byrja á því að þakka ykkur hjartanlega fyrir að koma, svona mörg ykkar, á Eyjahjartað því að þetta er í níunda sinn sem við erum saman komin undir því nafni og það er náttúrulega allt sprungið eins og þið sjáið og eiginlega samt finnst mér, samt hefði ég viljað að það væri fleira fólk hérna. Af hverju? Vegna þess að ég hefði viljað að bæjarfulltrúarnir okkar hefðu komið, hefðu komið og séð að fyrir fimmtíu árum var tekin ákvörðun að byggja þetta hús hér þar sem við nú stöndum en í ár er 100 ára afmæli Vestmannaeyjabæjar og þá þurfum við bara meira rými, við þurfum rými til þess að geta tekið myndarlega og hlýlega á móti, eigum við að segja 200 til 250 manns. Þið eruð lifandi sönnun þess að þessi nauðsyn er og við bara skulum vona það að áður en árið er liðið þá verði þetta að veruleika.
En við höfum dagskrá hér að ganga til, það eru fjórir fyrirlesarar og síðan vonast ég til þess að fá ykkur upp og jafnvel, já vonandi öll og það verður þá annað yfirkall á því og það verður bara ánægulegt, ég var hérna í gær á tónleikum eins og mörg ykkar og það var alveg troðið þar en ég vil samt nota þetta tækifæri og þakka þremur einstaklingum sérstaklega sem eru hér. Það eru þau sem hafa haldið utan um Eyjahjartað frá upphafi. Það eru þau Atli Ásmundsson, Atli greifi, sem er hugmyndasmiðurinn, það er Einar Gylfi Jónsson sem er fyrirliðinn og andlitið okkar útávið og það er svo Þuríður Bernódusdóttir sem stjórnar okkur.
Þetta erum við hérna, þessi fjögur, sem að stöndum saman að þessu og það er auðvitað ánægulegt fyrir mig að vera í núverandi starfi mínu, þegar 90% af vinunum mínum unnið með einhverjum öðrum, það væri óskandi að það væri oftar svona.
Við höfum þann háttinn á að ég kynni bara núna eða segi frá í eitt skipti fyrir öll hverjir tala, þeir munu þurfa lítillar nafnkynningar hér í þessum bæ, þessir einstaklingar sem koma hér fram. Og síðan þegar að sá síðasti er búinn ætla ég að segja örfá orð og síðan ætlar Einar Gylfi að slaufa þessu og ég ætla, eða áður en ég gef Einari Gylfa hérna hljóðnemann ætla ég að segja ykkur frá því hvað er hérna fyrir ofan okkur eða á annarri hæð hérna rétt fyrir ofan.
En það er þá fyrst Helgi Bernódusson, síðan Inga Jóna Hilmisdóttir, næst Sigurjón Guðmundsson og að lokum Edda Andrésdóttir, síðan segi ég örfá orð að lokum aftur og Einar Gylfi Jónsson klárar þetta. En gjörið svo vel, Helgi Bernódusson, gjörðu svo vel.
Helgi Bernódusson í Borgarhól
Frá nokkrum konum í kringum mig
„Kæru Eyjamenn, gleðilega hátíð, til hamingju með daginn! Þegar maður lítur til baka á ævi sína út frá gamla Eyjahjartanu, þá er það svo að þar fer meira fyrir konum en körlum. Ég kynntist miklu fremur konunum í kringum mig í uppvexti mínum en körlum þeirra. Karlarnir voru svo fjarlægir að börn komust ekki í kynni við þá; það var lengra á milli eða þykkari skel á þeim, með ágætum undantekningum þó, ekki síst bakararnir. Best kynntist ég auðvitað móður minni, en hún er ekki til umræðu hér, né heldur mínar mörgu systur,“ sagði Helgi Bernódusson, í Borgarhól og fráfarandi skrifstofustjóri Alþingis í sinni upprifjun.
Heimilið miðstöð í miðbænum
„Heimili okkar, Borgarhóll, var mikil miðstöð í miðbænum, þótt lítið væri, ómegð og fátækt. Þar var eins og kvenfélagsfundur á hverjum morgni, gríðarleg kaffidrykkja og fréttaburður. Tryggasti gestur var mágkona mömmu, föðursystir mín, Alla á Felli sem bæði sagði fréttir og nam fréttir af gestum. Við kölluðum hana stundum frú Reuter eftir þekktustu fréttastofu heimsins um þær mundir.
Hún var geysilega fréttafróð, ekki hvað síst eftir helgar eða landlegur því að Húnbogi, bróðir hennar frá Sandprýði, var dyravörður í Höllinni og hafði auðvitað frá mörgu merkilegu að segja úr nætur- og skemmtanalífi í hinni blautu og villtu verstöð, þar sem alls konar samdrættir urðu, og svo sundurlyndi líka.
Alla var sérstæð kona og mikið tryggðatröll ævina á enda, og okkur kær. Eftir hádegi komst meiri friður á heima þegar búið var að seðja marga munna og við krakkarnir farnir aftur í skólann. Þá komu yfir til mömmu nánustu nágrannakonurnar, tryggustu vinir hennar, Laufey í Grafarholti og Þórunn í Steinholti, meðan diskarnir mörgu voru vaskaðir upp og borð þrifin.
Friður, ró og regla í Grafarholti
Grafarholt stóð, og stendur enn, sunnan við Borgarhól og í því húsi ríkti jafnan friður og ró og regla var á öllum sviðum, allt angaði af þrifnaði. Í Grafarholti var vatnssalerni meðan enn var kamar hjá okkur, og eftir að hann fauk var talsvert sótt til Laufeyjar, allt til þess að byggt var við hjá okkur og slík þægindi sett upp.
Öllu þessu tók Laufey af þolinmæði, líka afnotum af síma sem þangað kom snemma. Laufey hóf sambúð aðeins 21 árs gömul með fullorðnum manni, Jóni seglasaumara Bjarnasyni, sem þá var sextugur, skipstjóri úr Reykjavík en Vestfirðingur að ætt, dökkur yfirlitum og burðamikill. Það voru 39 ára á milli þeirra hjóna í aldri. En ástir milli þeirra voru 39 sinnum meiri en venja var. Jón var kominn talsvert á níræðisaldur þegar þau byggðu við austan megin og gerðu sér nýtt svefnherbergi. Laufey var einstaklega broshýr og elskuleg kona, hljóðlát og hjálpsöm svo að fágætt var. Þegar ég fór unglingur úr hreiðrinu og út í heim saumaði hún mér ný sængurföt með fallegum hekluðum bekkjum, setti stafina mína, HB, í koddana. Á það handarverk lagði ég höfuðið æði lengi og hugsaði þá til Laufeyjar í Grafarholti.
Þórunn í Steinholti og fleiri konur
Norðan megin var svo Steinholt þar sem Þórunn Elíasdóttir stjórnaði miklu húshaldi, með filterslausa Raleigh-sígarettu í munninum. Þórunn bar manngæðin utan á sér, var jafnan æðrulaus og með hlýlegt bros. Þegar þær Laufey og Þórunn komu í kaffisopa yfir í Borgarhól ríkti meiri ró við borðstofuborðið og notalegt að heyra skrafið í þeim og dillandi hlátur.
Sunnan við Borgarhól var Byggðarholt, og þar var Kristín Halldórsdóttir. Enginn samgangur var á milli húsmæðranna, en ég var tíður gestur þar. Kristín var ótrúlega rösk kona, glaðleg og eitthvað sérlega greindarlegt í fari hennar. Hún var aðfluttur Eyfirðingur og hefur áreiðanlega komið margt spánskt fyrir sjónir í Eyjum. Hún hafði hjá sér tengdamóður sína, Ólöfu, sem var fædd 1875, og átti prjónavél man ég og prjónaði margt.
Hlýlegt á Eiðum
Enn ofar voru Eiðar; þangað kom ég stundum með Tona, æskuvini mínum úr Byggðarholti, því að þar bjó föðursystir hans, Árný, dóttir Ólafar úr fyrri hjúskap; faðir hennar drukknaði meðan hún var enn í móðurkviði. Það var hlýlegt á Eiðum, allt með gamla laginu, kolavél í rúmgóðu eldhúsinu og Árný sat á kolli og neri brennsluspritti í fótasár sín. Guðmundur, maður hennar, kenndi okkur strákunum fyrir gamlárskvöld að búa til rörasprengjur.
Enn ofar og austar var svo Batavía en þangað kom ég aldrei nema í dyragættina. En oft, - þegar við vorum að stela njólum í garðinum til að reykja, - sáum við Sigríði í Batavíu bregða fyrir, lágvaxinni konu á peysufötum. Hún var hvítasunnumaður og bænheit. Því var hvíslað að okkur að hún hefði með heitum bænum frelsað Sölva, son sinn, úr rústum Þýskalands, en sumir sögðu að hann hefði verið fangabúðarstjóri þar, - hversu nákvæmt sem það nú var.
Gegnt okkur við Kirkjuveginn var svo óvætturin mikla, Gróa Einarsdóttir, sem okkur stóð mikill stuggur af. Þegar við vorum í boltaleik, og ég tala ekki um þegar boltinn skall á húsi hennar eða gluggum, ygldi hún sig við okkur úr glugganum og kom stundum út og sagði okkur þá á hvaða stað við mundum stikna þegar djöfullinn kæmi að sækja okkur. En áður mundi hún ganga aftur og hrella okkur ærlega seint og snemma. Hún var forn og ill í skapi.
En til þess lá dapurleg saga andstreymis, sorgar og vonbrigða, og upplagið var líklega eitthvað súrt líka. Hún var eins og fleiri þarna á torfunni fædd 1875 en kom til Eyja úr Landeyjum, Hallgeirsey, upp úr aldamótum; eignaðist nokkru síðar barn, efnilegan son, með Þórði „bollu“ Þórðarsyni, Rangæingi og bakara, sem sleit sambandi við hana og fór um síðir vestur í heim.
Leifur Gróuson, var alinn upp á Mosfelli án mikilla afskipta móður sinnar. Hann fór til Reykjavíkur ungur en lést úr berklum 26 ára, klæðskera-nemi. Í Morgunblaðinu í júní 1930 birtir Gróa svofellda auglýsingu: „Af hrærðu hjarta þakka jeg þeim Andrjesi klæðskera og konu hans, fyrir þá fágætu vináttu og hjálpsemi sem þau sýndu syni mínum, Leifi sál. Þórðarsyni í langvinnum veikindum hans. Bið jeg góðan guð að launa þeim af ríkdómi sínum. Vestmannaeyjum, 20. maí 1930. Gróa Einarsdóttir.“
Ég var hissa þegar ég sá þessa klausu; hafði þessi kona, þessi óvættur, virkilega viðkvæmar tilfinningar? - Gróa hataðist við kirkjuna, og til þess lá atburður sem varð við fermingu Leifs í Landakirkju. Af misskilningi fremur en meinbægni fékk hún ekki sæti í kirkjunni nærri fósturfjölskyldu Leifs. Þá hét hún því, er mér sagt, að koma aldrei í kirkju framar, lífs eða liðin. Og þess vegna var hún ekki að ævilokum borin í kirkju heldur beint að gröf sinni í Krosskirkjugarði, á æskuslóðum í Landeyjum, og sungið yfir henni þar.
Reykjavíkumeyjar
Ofan við Gróuhús og Bókabúðina voru Garðhús og enn ofar Gamli-spítalinn, Franski spítalinn, og þar bjuggu þær fríðu systur, Jósebína og Bertha, Reykjavíkumeyjar sem fluttust ungar til Eyja. Í Garðhúsum var ég mikið, á öllum hæðum, og þar var Vogsabakarí í kjallara og sölubúðin litla skagaði fram í götuna. Þau voru glæsileg, glaðleg og samhent hjón, Bertha og Stáki, Jón Jónsson, og frá þeim hlaut auðvitað koma fríður flokkur barna og annarra afkomendar. Ég man Berthu alltaf brosandi og kankvísa, hún leið um ganga og gólf eins og Doris Day á vöxt og í svip. Hún lifir enn og heldur þokka sínum. Á henni sannast að góða skapið léttir og lengir lífið.
Í Líkhúsinu gamla bjó Adda og þangað var gott að koma. Adda var mjög sköruleg kona, og sló alltaf upp veisluborði þegar við krakkarnir rákumst þar inn. Engli, maður hennar, var góður smiður, og gerði húsið upp á sínum tíma og íbúðarhæft, þótt lítið væri – og rak þá út allar franskar afturgöngur. Adda var úr Reykjavík en kom ung til Eyja og eignaðist Söndru með Ísleifi Magnússyni í London. Sandra var oft á sveimi á þessum árum upp og niður Kirkjuveginn, milli Líkhúss og London, milli föður og móður, og lagði þá gott til okkar krakkanna.
Stelpurnar í Kóreu
Skáhallt á móti Steinholti, í norðvestur, við hliðina á Tommabúð eða Framtíðinni, var stórt hús og heldur óhrjálegt. Þessi draugahöll mátti muna sinn fífil fegri, hét Dagsbrún í skjölum, sennilega innflutt norskt hús sem síðar var forskalað og glataði þá sjarma sínum. Einar ríki keypti húsið og gerði að verbúð, auk tveggja íbúða sem þar voru, og hafði veiðarfærageymslu á 1. hæð. Reimt var í húsinu, og svo hávaðasamt og ófriðlegt í kringum vertíðarstelpurnar að farið var að kalla húsið „Kóreu“ en þá stóð Kóreustyrjöldin yfir og skyggði yfir allt í fréttum.
Þegar ég man fyrst var hins vegar orðið miklu friðsælla yfir þessu húsi, og kominn á friður í Kóreu. Í húsinu bjuggu frá árinu 1953, Gunna og Toni, sonur hennar. Við kölluðum hana „Gunnu í Kóreu“, en hinir ráðsettu „Gunnu í Dagsbrún“ og í kirkjubókinni stóð „Guðrún Einarsdóttir frá Hlaðbæ“ en þar var hún fædd og uppalin. Þeim þótti báðum, mæðginunum, sopinn allgóður.
Saga um ástir og vonbrigði
Gunna var mikill kattavinur, og ég held að hún hafi haft hjá sér a.m.k. 20 ketti. Þeim var strokið og þeir voru vel aldir. Nokkrum sinnum kom ég í Kóreu, bara upp í stigann og sá inn í eldhús. Kannski að koma úr apótekinu fyrir Gunnu. En þessi dularfulla kona í þessu dularfulla húsi átti sér talsverða örlagasögu sem ég þekki nokkuð, sögu um ástir og vonbrigði og margs konar áföll.
Guðni, sonur hennar, sem þótti afbragð annarra manna, jafnt ytra sem innra, fórst aðeins 26 ára gamall, stýrimaður á Guðrúnu 1953, aflahæsta skipinu þá. Öllum sem ég spyr um Gunnu ber saman um að hún hafi verið hin ágætasta kona, vinnusöm og góð í viðmóti. Fyrir okkur fávísum krökkum var hún aðeins gömul kona með skuplu á höfði og vann í Þurrkhúsinu. Gunna var aðeins 58 ára þegar hún lést 1961.
Fjölmennt í Bjarma
Hinum megin við Kirkjuveginn var svo Bjarmi sem stóð skv. bæjarskránni við Miðstræti. Þar bjuggu fjórar fjölskyldur, sumar barnmargar. Þar var Hulda Hallgrímsdóttir sem var heimilisvinur hjá okkur, notaleg kona og skemmtileg, ættuð frá Seyðisfirði og talaði, rétt eins og amma mín, sína dásamlegu austfirsku mállýsku, sem því miður er að hverfa, eftir undarlegt stríð gegn henni.
Það var oft vitnað til orða hennar heima með viðeigandi framburði og áherslum, „Gvöð, ég fæ engin spel; ég er bara alveg bet á þessu“. Eins og margar konur í Eyjum átti hún sína örlagasögu, varð kornung ekkja með fjórar dætur, er Gústaf, maður hennar, fórst með Helga í janúar 1950, en Hulda stóð sterk af sér alla storma. Hún var ljúf kona.
Prófessor Helgi
Við hlið hennar á hæðinni bjó svo ein hressilegasta húsmóðirin í hverfinu, Sigga í Bjarma, með fullt hús barna. Hún var Ísfirðingur, og notaði talfærin mikið, reytti af sér skemmtilegar athugasemdir um menn og málefni, lífið og tilveruna, hvort sem var í eldhúsinu eða úti á stéttinni, og oft bara við vindinn ef enginn vildi hlusta. Það var gaman að vera nærri henni.
„Nei, góðan daginn, prófessor Helgi“ sagði hún við mig, 7 ára gamlan, þegar ég birtist eftir hádegið í Bjarma. „Er ekki líf með fólki í Borgarhól?“ Hún hló við og þá stríkkaði á stríðnissvipnum. Og eftir stutta þögn sagði hún: „Ef þú ert kominn til að spilla honum Kristjáni mínum, þá er ég vís til að flengja þig á rassinn.“ Og eftir andartak bætti hún við: „Æ, komdu inn, ræfill, ég skal sækja hann Stjána, ekki er hann að læra, svo mikið er víst. Ég gef ykkur kannski á eftir mjólk og möndluköku úr Vogsabakaríi ef þið hagið ykkur skikkanlega.“ Svona var Sigga í Bjarma, óþvinguð og glaðleg, en lét okkur heyra það ef tilefni var til, sem var auðvitað alloft.
Ég teygi mig ekki lengra niður eftir Njarðarstígnum, þar sem voru amma mín, Helga í Klöpp, nafna mín, og fleiri minnisstæðar konur.
Spilað á kvöldin
Ég ætla í lokin að víkja aftur að Steinholti. Þegar Baldvin og Þórunn fluttu úr Steinholti líklega 1958, keyptu húsið Kristinn Kristinsson frá Miðhúsum og Jóhanna Kolbrún Jensdóttir, Hanný, sem var alin upp í Hlaðbæ hjá þeim sæmdarhjónum Sillu frá Bólstaðarhlíð og Týra. Kiddi og Hanný bjuggu svo á síðari árum í Brekkuhúsi.
Um líkt leyti fluttu á efri hæðina Fríða og Jói með tvö börn á okkar aldri. Það varð mikill vinskapur milli nýju húsmæðranna og mömmu. Fríða var hæg kona og myndarleg. Hún, Hanný og Stína á Hvoli sátu oft að spilum á kvöldin heima og var þá tár í staupi, oftast heimalagað, og mikið fjör. Ég á mynd af þessu kompaníi sem er á skrifborðinu heima.
Mér er afar minnisstætt einn sunnudagsmorgun 1958 þegar bankað var á útidyrnar heima. Ég fór fram og úti fyrir stóð dökkhærð, myndarleg kona, nýflutt í Steinholt, Jóhanna Kolbrún, á dökkum morgunkjól, og ég man að það voru blúndur á drifhvítri svuntunni sem hún bar framan á sér. „Ekki gætuð þið bjargað mér með einn bolla af hveiti?“ spurði hún kurteislega. Það var auðsótt.
En þessi blúndubragur á heimilislífinu í Steinholti breyttist undra fljótt og eftir aðeins fáein missiri var það orðið ævintýri líkast að koma í stóra eldhúsið þar. Þá var þar hnýtt á öngla og fellt af línu, sem ekki var alltaf þriflegt starf. Bjóðin héngu uppi við eldhúsborðið. Sennilega hefur Kiddi frá Miðhúsum, sá mikli veiði- og fjallamaður, náttúrubarn mikið, verið lítið gefinn fyrir blúndur. – Hanný var hláturmild, hrein og bein og æðrulaus. Ég enda á tveim sögum um hana. Þær sýna hve blátt áfram hún var og skjótráð.
Skaut út um stofugluggann
Eitt sinn settist framandi fugl á staur í garðinum heima. Hanný sá hann úr Steinholti og gerði sér þá lítið fyrir, greip veiðiriffil Kidda, og arkaði með vopnið út í Borgarhól. Meðan hún gekk yfir spígsporaði Óskar í Bókabúðinni á stéttinni fyrir framan hjá sér að venju og varð mjög skelkaður við þessa sjón og hélt að aftaka væri í uppsiglingu. Hanný svipti upp úthurðinni, rigsaði inn í eldhús og áfram inn í borðstofu og segir: Má ég ekki slá upp glugganum, Aðalbjörg? Hún beið ekki eftir svari, rak riffilinn út og skaut fuglinn í fyrsta skoti. Að svo búnu rauk hún út án þess að kveðja til að hirða dauðan fuglinn.
Þau Hanný og Kiddi fengu sér hund, svarta tík, sem kölluð var Hrefna. Hún var ótamin og gelti mikið. Eitt sinn sem oftar kemur Hanný, veður inn í stofu með tíkina á eftir sér og kallar. „Aðalbjörg, má ég ekki nota símann?“ Síðan þrífur hún símtólið og hringir í Útvegsbankann. Þegar svarað er segir Hanný formálalaust: „Get ég fengið að tala við bankastjórann?“ Það gekk. „Komdu sæll, Baldur, þetta er Jóhanna Kolbrún Jensdóttir frá Hlaðbæ; get ég fengið víxil? Ja, svona 30 þús. kall.“
Í því tekur tíkin að gelta ákaflega, en þá kallar Hanný, hátt og mæðulega og án þess að leggja tólið frá sér: „Þegi þú, Hrefna, þegiðu, ég er að tala við hann Baldur bankastjóra. Síðan segir hún í símann: Hvað segir þú, Baldur, ætlar þú ekki að lána mér þetta? – Jæja, takk. Ég kem með víxilinn og læt Týra skrifa upp á.“ Skellti á, tekur strikið út og kallar. „Komdu, Hrefna. Hún Aðalbjörg er svo hrædd við hunda.“
Og lýkur þá að segja – í styttri útgáfu - frá nokkrum konum í kringum mig, - í þá gömlu góðu daga, þegar maður gapti upp á heiminn, eða á framhlið hans, eins og nýborinn kálfur. Ég spyr almættið: Hvers vegna mátti þessi tími ekki verða að eilífð?
Inga Jóna Hilmisdóttir
„Oft ég velti vöngum, vordægrin hlý“
Komið þið sæl, ég heiti Inga Jóna og ég er dóttir Öldu Björns frá Pétursborg og Hilmis Högnasonar frá Vatnsdal. Ég er fædd 1963 og er í miðjunni af átta barna systkinahópi, alin upp á Túngötu 22.
Í fjölskyldunni tölum við um fyrra og seinna holl og er ég elst í seinna holli. Foreldrar mínir voru skipulagðir með barneignirnar, svona framan af. Eldri systkini mín fjögur fæddust með tveggja ára millibili á árunum 47 til 53, en svo kom ég eftir tíu ára barneignapásu. Ég velti stundum vöngum yfir því hvort ég hafi átt að vera svona lang-yngsta systkinið, lítil dekurrófa í lokin. En sú draumsýn var þá aldeilis kæfð í fæðingu því þrír bræður bættust við á methraða. Þegar tvíburarnir fæddust 1. apríl árið 1965 trúði því enginn og hringdu margir næsta dag til að gá hvort það væri rétt. Það vildi svo heppilega til að á þessum tíma var Hrefna systir nýbyrjuð að vinna í apótekinu og p-pillan var að koma á markaðinn. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort hún hafi ekki frætt mömmu um hana.
Málverkin hennar mömmu á þrettándaballi
Ein fyrsta minning mín er frá þrettándanum 1966 en þá var ég tæplega þriggja ára og mamma að útbúa búninga á Birnu systur og Jonna frænda. Hún lét þau leggjast á strigaefni á eldhúsgólfinu og sneið búningana. Páfagaukafisk á Jonna og Snurre Snupp eða Kalla kanínu á Birnu. Hún málaði búningana með olíulitum eins og hún notaði á málverkin sín og sendi þau á þrettándaball þar sem þau unnu fyrstu og önnur verðlaun. Það var töfraljómi yfir þeirri sýn af þeim keyrandi niður Túngötuna í „drossíunni hans Jóns“ (en það var bíllinn hans alltaf kallaður), löng eyru kanínunnar og haus fisksins í aftursætisglugganum.
Hitt man ég ekki, sem mamma sagði mér að ég hefði gert eftir á, lagt smá strigapjötlu (bútur) eldhúsgólfið og sagt við hana: „leggstu niður og svo klippi ég.“ Foreldrar mínir sinntu listuppeldinu vel, mamma benti okkur á andlitin í klettunum, pabbi las eða sagði sögur með svo skemmtilegum tilþrifum sem hreif okkur. Sönglistina innleiddi hann samhliða enda söng hann stanslaust og það var þekkt í bænum. Hann truflaði víst stundum jarðafarir þegar hann var að mála þakið og syngja. Eldri systkini hjálpuðu líka til með söng og plötuspilun og ég man eftir okkur Högna bróður dillandi og syngjandi fyrir framan útvarpið, horfandi beint inn í það og trúa því að þar inni væru litlir kallar að syngja Obladí Oblada.
Forréttindi að vera elst í seinna hollinu
Fyrra hollið upplifði Vatnsdal og samveruna við fólkið sem bjó þar og eiga því margar góðar minningar þaðan sem þau tala ennþá um. Afi Högni og Amma Guðný dóu þegar ég var mjög lítil og langaði mig svo að geta deilt þessum minningum um þau með fyrra hollinu og var pínu afbrýðisöm. En það voru líka forréttindi að fá að vera elst í seinna hollinu því ég fékk stundum að vaka lengur en bræðurnir og þegar Hrefna systir og Örn giftu sig fékk ég að vera með í brúkaupsveislunni en þeir sendir í rúmið. Ég var upp með mér. Mamma hafði saumað á mig kjól upp úr fermingarkjólnum hennar Gunnýar systir og kjóllinn var úr gullefni og ég var yfir mig hamingjusöm með hann. Í veislunni voru ekki mörg börn en mér og ungum frænda brúðgumans var stillt upp við eldhúsbekkinn fyrir myndatöku. Ég fann strax skrítna hitatilfinningu í bakið á litlum bletti og varð óróleg. Ég átti erfitt með að hreyfa mig ekki en var þá strax sagt að standa kyrr sem mér tókst að gera með erfiðismunum, þar til búið var að taka myndina. Þegar ég snéri mér við, sá ég að á borðbrúninni var feitur vindill sem hafði fengið nægan tíma til að brenna stærðar gat á gullkjólinn minn og þar með varð prinsessutilveran að engu.
Sex ára móðursystir
Tæplega sex ára var ég orðin móðursystir og varði öllum stundum í heimsókn á Sólhlíð 8, þar sem brúðhjónin höfðu eignast sína fyrstu íbúð. Svo áköf var ég við barnauppeldið að eitt kvöldið u.þ.b. ári seinna fannst foreldrunum alveg tilvalið að ég myndi vera barnapía á meðan þau skryppu í bíó. Ég man að mamma maldaði eitthvað í móinn, líklega fundist ég of ung (sem ég auðvitað var). En ég stóð fast á mínu um að ég væri fær um að vera barnapía. Mamma lét til leiðast og ég fór af stað full eftirvæntingar og stolt af því að vera falið þetta mikla ábyrgðahlutverk. Litli frændinn Hilmir var sofnaður þegar þau fóru af stað í bíó svo þetta hefði líklega verið allt í lagi, ef ég barnið, hefði ekki vakið hann því mig langaði að leika við hann. Hann stóð upp í rúminu og grét hástöfum og ég grét hástöfum og hringdi í mömmu sem kom og tók við barnapíu hlutverkinu.
Trogbílar eru týndir
Móðuramma mín Ingveldur bjó hjá okkur alla tíð frá því Bjössi afi dó og til hennar gat ég leitað í kyrrðina. Hún lánaði mér töluboxið sitt sem ég gat endalaust skoðað og flokkað tölur eftir lit eða stærð á meðan hún heklaði eða lagði kapal og reykti. Þegar við systkinin fórum með pabba í kálgarðinn okkar sem núna er undir flugvellinum var það Gummi, bróðir pabba, sem flutti verkfærin og kartöflunar á milli og jafnvel okkur líka ef svo bar undir. Hann átti „trogbíl“ (vörubíl) það er orð sem er týnt í dag en svo gott og myndrænt. Þessar ferðir með pabba í kálgarðinn okkar eru góðar minningar þar sem náttúran kemur svo sterk inn. Lyktin og mýktin í grasinu, þegar við lágum á bakinu og hlustuðum á pabba segja sögu eða kenna okkur nöfnin á fuglunum sem við heyrðum í, Lóunni og Hrossagauknum. Hann hvatti okkur á jákvæðan hátt áfram í garðyrkjunni og ef kvartað var um kulda vissum við að besta leiðin var að berja sig til hita, en það hafði hann líka kennt okkur og hann vissi hvað tímanum leið með því að horfa til sólar. Það var töfrum líkast í mínum huga.
Næstu nágrannar
Í einni ferðinni í kálgarðinn var Gunný systir með og hún var byrjuð að reykja. Við seinna hollið suðuðum endalaust í henni um að fá að prófa að reykja, þar til hún lét undan í þeirri von að við myndum aldrei prófa aftur. Það var ógeðslegt fannst okkur. En þegar við komum heim aftur, var um leið og dyrnar opnuðust, hrópað inn til mömmu, „hún Gunný lét okkur reykja“.
Á og í kringum Túngötuna bjuggu nokkrar stelpur á mínum aldri og eldri, Anna Hulda, Lárusar og Unnar á 17, Helga Símonar og Önnu á númer 23, Bogga Kjartans Fiskssala og Þóru á Birkihlíð 20 og á Birkihlíð 22 bjó Rut Haralds, Halla Gísla og Ollýar. Á Svalbarða bjó svo Sigga Lára Ásbergs um tíma og efst á Túngötunni á Mosfelli bjó Bryndís Eiríks í Hruna og svo Ásdís Jónsdóttir á Helgafellsbraut 27.
Hvernig verða börnin til
Ég velti vöngum yfir lífinu og tilverunni eins og flest börn gera. Ég velti t.d. vöngum yfir því hvernig börnin koma í heiminn. Rökhugsun mín var bara nokkuð þroskuð að mér fannst, því ég fann það út alveg sjálf að útgönguleiðin fyrir barnið úr maganum hlyti jú að vera um naflann, það var mjög augljóst í barnshuganum. Mér leið vel með þessa vitneskju mína í einhvern tíma, eða þangað til að Bogga, sem var ári eldri en ég og mun lífsreyndari sagði með ákveðinni röddu: „Ég veit hvernig börnin koma út úr maganum. Þau koma ekki út um naflann. Þau koma út um píkuna.“ Þarna hrundi hin örugga og þægilega tilvera mín um upphaf lífsins og þurfti ég að hugsa allt upp á nýtt eftir þessa nýju vitneskju. Ég varð öskureið út í Boggu fyrir að segja mér þetta. Og áfram velti ég vöngum….Rut Haralds átti heima í nýju húsi með flötu þaki og hún átti unga foreldra. Það sem ég öfundaði hana. Ég átti gamla foreldra og ég bjó í gömlu húsi með háu risi og þarna fann ég upp nýja formúlu: ungir foreldrar, nýtt hús, flatt þak og ég trúði því þegar hús eltust fengu þau sjálfkrafa hátt ris. Það sem ég skammaðist mín þegar ég komst á hærra vitsmunastig og fattaði að þetta ætti ekki við nein rök að styðjast. En sem betur fer hef ég aldrei sagt neinum frá þessu fyrr en núna.
Jesú og syndsamlegar bíóferðir
Á sunnudögum var svipuð dagskrá hjá flestum börnum í Eyjum; Sunnudagaskóli í kirkjunni, svo í Betel að hlusta á sögu og fá Jesúmynd. Eftir það var farin krókaleið í bíó því einhver hafði sagt okkur að það væri synd að fara í bíó. Mig minnir að bíómiðinn hafi kostað 20 kr og fórum við seinna hollið af stað með 100 kr seðil sem dugði akkúrat fyrir fjórum bíómiðum og fjórum ópalpökkum sem voru keyptir í sjoppu við Kirkjuveg sem hét Búr. Að fá svo líka að fara með pening í buddu og labba alla leið niður í Búr og kaupa ís með dýfu var stórt. Standa pínu lítil við hátt afgreiðsluborðið, horfa á ísinn hringa sig ofan í brauðformið og velta vöngum yfir því af hverju hann datt ekki ofan í. Síðan að ganga varlega af stað heim á leið, sleikjandi ísinn því ekkert mátti fara til spillis og hann var góður. Græðgin var mikil, fullmikil, og á nákvæmlega sama bletti við rúnnuðu tröppurnar við Brynjólfsbúð, Kirkjuveg 21 var ég komin með svo kalt í ennið að ég þurfti að stoppa og jafna mig. Þetta gerðist við sömu tröppurnar í hverri einustu ísferð. Ég lærði aldrei af reynslunni.
Mjólk með tómatssósubragði
Að hafa náttúruna við bæjardyrnar var dýrmætt og fórum við margar ferðirnar upp á Helgafell og ofan í gíginn og var eini tilgangur ferðarinnar alltaf sá sami: að labba þessa leið, setjast niður og borða nestið og svo aftur heim. Rúgbrauð eða normalbrauð með osti í bitaboxi og mjólk á tómatsósuflösku, glerflösku, sem hafði verið þvegin en samt fann maður þegar flaskan var opnuð, tómatsósulyktina og bragðið blandaðist við mjólkina. Ég hefði samt ekki viljað missa af því. Að fá að taka með sér pott, haframjöl, vatn og eldspýtur og elda hafragraut var mikil upplifun og skítt með það, þótt hann brynni við. Upplifinunin var því yfirsterkari. Ef einhver reykur hefur náð upp fyrir gígbrúnina, hafa bæjarbúar verið sallarólegir yfir því…þá.
Ég hafði takmarkaðan áhuga á handavinnu en þurfti jú að vinna skyldustykkin og þar sem vantaði upp á hæfni mína tók mamma við og bjargaði mér. Gekk frá peysum eða saumaði púða með demantsspori til að hækka aðeins einkunnirnar. Að ég, ein af fjórum systrum, skyldi ekki hafa erft handavinnugenin, fannst mömmu hræðilegt og hún sagði oft: „ Ég líð fyrir það hvað þú hefur lítinn áhuga á handavinnu.“ og hún meinti það.
Bjössi á Barnum
Mitt tímabil með servíettusöfnun kom líka og einhverju sinni fórum við nokkrar stelpur í servíettuleiðangur. Ég, Bogga og Helga Sím minnir mig. Við vorum sannfærðar um að Jóna hans Bjössa á Barnum ætti servíettur með gulli og við dingluðum heima hjá þeim á Birkihlíð 17. Bjössi kom til dyra og við spurðum: „Er Jóna heima?“ „Hvað viljið þið henni?“ „Við ætlum að spyrja hana hvort hún eigi servíettur.“ Bjössi svaraði: „Við notum ekkert svoleiðis hér, við gerum bara svona“ svaraði Bjössi og Þurrkaði snöggt yfir munninn með handabakinu.
Heima hjá Helgu Sím var um tíma risastór sandhrúga sem ætluð var í bílskúrsbyggingu. það var skemmtilegt tímabil, sandhrúgunni var breytt í blokk og við fluttum allar inn. Við byggðum svalir allan hringinn og fengum að fara út með dúkkur án fata, kallaðar „strípalingar“. Þessi sandblokk okkar var endurbyggð mörgum sinnum eða þar til Símon þurfti að nýta sandinn í bílskúrinn. Á óbyggðri lóð við við Túngötu 25 þar sem Halldór Sveins og Guðbjörg búa núna var lengi njólagarður, eins og við kölluðum það svæði og lékum við okkur þar mikið. þar prófuðum við í fyrsta sinn að reykja njóla en seinna færðum við okkur upp á Bjössatún fyrir ofan Túngötuna, í litla dæld svo það sæist ekki til okkar.
Fyrsta sjónvarpið
Á Túngötu 20, við hliðina á okkur bjó um tíma Kristrún og kom dótturdóttir hennar og nafna oft í heimsókn (dóttir Maríu og Arnars Sigmunds) og við Rúna, eins og hún var kölluð, lékum okkur þar mikið með dúkkulísur. Heima hjá ömmu Rúnu sá ég í fyrsta skipti sjónvarp og sat ég dolfallin á gólfinu ásamt Rúnu fyrir framan þetta undratæki að horfa á Rannveigu og Krumma. Með tíð og tíma fengum við líka sjónvarp heim til okkar og þá komu fréttir af stríðsástandi heimsins beint inn í stofuna. Ég man eftir hræðslutilfinningunni og hugsaði mikið um hvort stríðið gæti komið til Íslands.
Eldgosið
Eldgosið kom og allir fóru í bátana og burt. Ég man ég hitti Rósu Sveins bekkjarsystur mína um borð í Fífli GK en við hittumst ekki aftur fyrr en í Keilufellinu þar sem við fengum loksins viðlagasjóðshús áramótin 73-74. Það voru fagnaðarfundir að hitta gamla vinkonur í keilufellinu eins og Rósu Sveins og Önnu Huldu en haustið 74 fluttum við svo aftur heim. Í millitíðinni hafði ég flutt sjö sinnum, gengið í þrjá grunnskóla og verið send í sveit í tvö sumur að passa þriggja ára börn. Ég var gosbarn sem var boðið til Norges og var brottfaradagurinn einmitt 3. júlí og á leiðinni á flugvöllinn heyrði ég í útvarpsfréttum að eldgosinu væri lýst lokið. Ég sperrti eyrun og hugsaði með mér að ég skyldi ekki segja nokkurri sálu frá þessari frétt, því þá fengi ég kannski ekki að fara til Noregs.
Góð tengsl við Noregsfjölskyldu
Ég var svo send alein til fjölskyldu á sveitabæ rétt við Stavanger og þar sá ég og smakkaði í fyrsta sinn jarðarber. Þau hafði ég aðeins séð í niðursuðudós fram að þessu. Að sitja á tröppunum, berfætt í nýjum sumarkjól með glerskál í fanginu fulla af nýtýndum jarðarberum og rjóma útá og mega borða þau alein, það var himnesk upplifun. Eftir heimkomu var sambandinu við fjölskylduna haldið alla tíð og kom dönskukunnátta pabba sér vel við bréfaskriftirnar, nokkuð sem ég á honum miklar þakkir fyrir. Hver veit hvort ég hefði nokkurn tíman farið þangað aftur ef hans hefði ekki notið við.
Ný leiksvæði komu til eftir heimkomuna, eins og hús sem voru í hálf á kaf í ösku. Innst á búastaðabraut var þannig hús sem vakti athygli okkar og þar komumst við inn í opinn kjallara og uppgötvuðum öskulagðar tröppur sem við grófum fram og komumst þannig upp á miðhæðina og þaðan upp á háaloft þar sem var opið út á þak. Í minningunni var gat á þakinu, þarna varð til leynistaður sem nýttist okkur vel, meðal annars við að fikta við að reykja. Okkur kom saman um að festa bandarískan fána sem við höfðum fundið á skorsteininn svona til að láta hverja aðra vita ef við færum á leynistaðinn. Það var ekki sérlega gáfulegt og höfum við líklega auglýst það vel að einhverjir óboðnir gestir væru að hreiðra um sig í yfirgefnu húsi. Það var alla vega rifið nokkrum dögum seinna.
Ígga sígga Ígga sígga
Á þessum árum passaði ég oft lítil systkinabörn mín og hef ég líklega ekki falið reykingafiktið nógu vel fyrir þeim því Alda, dóttir Birnu systur, gerði nokkrar tilraunir til að segja foreldrum sínum frá þessu „Ígga sígga Ígga sígga“ en foreldrar hennar höfðu kannski takmarkaða kunnáttu um máltöku barna og skildu hana ekki, sem kom sér vel fyrir mig.
Símaat var vinsælt og voru þau misdjörf eftir aldri gerandans, allt frá því að hringja og spyrja: „Er bolli heima?“ og veltast um að hlátri eða að svara í heimasímann með misgáfuðum setningum. Eitt sinn hringdi rígfullorðin vinkona ömmu og ég svaraði í símann: „Líkbrennslan góðan dag“. Hún kunni ekki að meta þennan húmor, ég var fljót að losa mig úr klípunni og rétta ömmu tólið.
Mittisúlpur og topplausar í sólbaði
Tímabil mittisúlpnanna með skinnkraganum er greipt í minningabankann enda voru þær eins og einkennisbúningur allra unglingsstúlkna í þó nokkurn tíma. Það var mikilvægt að renna ekki upp rennilásnum heldur átti að sveipa úlpunni þétt að sér, svona mjög þröngt og halda henni þannig saman á meðan rúnturinn var genginn…eða rúntarnir, því þeir voru margir.
Frystihúsavinna var sumarvinna hjá okkur flestum, en eitt sumarið þegar við Elísa Grytvík, dóttir Ástu Bubbu vorum á sautjánda og átjánda ári langaði okkur að reyna að fá útivinnu. Við vorum svo heppnar að verið var að endurvekja götusóparastarfið og fengum við báðar stöðuvið það þetta sumarið. Við gerðum strax með okkur trúnaðarsamkomulag um að vera duglegar á rigningar- og sólarlausum dögum, en stelast í sólbað á sólardögum. Það samkomulag stóðst.
Loksins rann upp bjartur sólardagur og við fórum með góðri samvisku hátt upp í fjall í sólbað, topplausar. Sem við liggjum þarna og njótum sólarinnar er mér litið niður á Steypustöðina og segi við Elísu, sjáðu það er alveg eins og það sé maður að horfa á okkur í kíki, svo hlógum við bara að þessari vitleysu. Næsta dag hittum við Hæa Bernharðs sem galaði til okkar: „Voruð þið bara uppi í fjalli í gær? Berbrjósta í sólbaði? Strákarnir í steypustöðinni skiptust á að horfa á ykkur í kíkinum.“
Einstök tilfinning að koma heim
Haustið 1981 flutti ég frá Eyjum, mér lá á að prófa að búa í Reykjavík og seinna vildi ég prófa að búa í Noregi, bara í eitt ár sem urðu þrettán. En ég kom heim á hverju ári og alltaf var ég jafn hugfangin þegar ég kom hingað til Eyja. Mér fannst ég aldrei almennilega lent fyrr en ég var búin að taka góðan göngutúr eða bíltúr um alla eyju. Ég hef verið heppin að hafa ennþá átt æskuheimili sem aðsetur fram að fimmtudagsaldri og eiga enn margt fólk hér á eyjunni, bæði fjölskyldu og vini sem mér þykir svo vænt um.
Þegar ég kem heim fæ ég innan um tilfinningu sem ég fæ hvergi annarsstaðar, ég faðma eyjuna og hún faðmar mig. Ég faðma líka fólkið mitt og það faðmar mig. Flest okkar þrá að kynna æskuslóðirnar fyrir afkomendum okkar og styrkja tengsl þeirra við Vestmannaeyjar. Í dag á ég fimmtán ára fósturdóttur frá Sýrlandi og það er áskorun fyrir mig að kynna hana fyrir Vestmannaeyjum í von um að það muni vekja væntumþykju. Nú þegar faðmar fólkið mitt okkur báðar og ég trúi því að Eyjan muni áfram faðma mig og mína.
Sigurjón Guðmundsson rifjar upp kynnin af leikhúsinu:
Unnur Guðjóns var nú ekkert alltaf blíðan besta
Komið þið sæl. - Ég hef verið að hugsa um það og finnst það raunar ótrúlegt, en þetta haust, það eru fjörtíu ár síðan ég flutti aftur upp á land. Ég veit ekki hvort ég þarf nokkuð að vera að kynna mig en það er kannski allt í lagi, heiti Sigurjón, ég er fæddur og uppalinn á Brimhólabraut 13, ég fæddist heima. Og fjölskyldan, það var Guðmundur Ólafsson, sem að síðast gekk undir nafninu Mundi í Áhaldahúsinu því hann var á lagerum í Áhaldahúsinu og Guðrún Sigurjónsdóttir. Við vorum sjö manna fjölskylda, fimm systkinin, elsti bróðirinn er Hjálmar sem að var lengi á Herjólfi, númer tvö er hann Óli, hann situr þarna hjá henni Hrefnu sinni, ég er í miðið, númer fjögur, það er Guðni sem er tölvunarfræðingur og til skamms tíma starfsmaður Arion banka, en er nýbyrjaður einhversstaðar annarsstaðar, ég man ekki hvað það heitir og svo er Sigrún yngst - hún vinnur á Landspítalanum við svefnrannsóknir og hefur tekið á móti mörgum Eyjamanninum sem að hefur verið að láta athuga í sér hroturnar.
Ég byrjaði að vinna hérna heima, í mínu fyrsta „fullorðins“ starfi þann 2. janúar 1973. Við byrjuðum samtímis ég og Kiddi heitinn Georgs á Skattstofunni og hvort það var þessvegna að 21 degi seinna byrjaði að gjósa, ég veit það ekki. En á skattstofunni var ég í þrjú og hálft ár, fór þaðan yfir á Rafveituskrifstofuna og svo þegar ég kom til Reykjavíkur, þá fór ég að vinna í Útvegsbankanum á Torginu og hef verið í banka síðan. Og ég tilheyri deyjandi stétt, sem hinn almenni bankastarfsmaður.
Leikhúsið heillaði
En það sem ég ætla að bulla hérna fyrir ykkur, það eru minningar um leikhús. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að fara í leikhúsið, njóta þess og gleðjast yfir því sem vel er gert. Og núna ætla ég að rifja upp leiksýningar æsku minnar og þá er ég ekki að tala um sýningar leikfélagsins, sem hafði þá góðu reglu að hafa miðdegissýningu sérstaklega ætlaðarkrökkum, á þeim verkefnum sem félagið tók fyrir hverju sinni.
Ég man að ég sá sýningu á „Ævintýri á gönguför“ og var alveg uppnuminn af hrifningu. Flottar sviðsmyndir og búningarnir, í minningunni ólýsanlega flottir. Einhverju seinna vorum við Óli bróðir að bíða eftir að framhaldsleikrit barnanna byrjaði í Útvarpinu. Það var búið að kynna persónur og leikendur og svo spiluð einhver tónlist. Ég lét út úr mér í stundarhrifningu: „Nú eru þau að klára að fara í búningana.“ En Óli, sá jarðbundni og raunsæi drengur sagði: „Asni geturðu verið, þetta er í útvarpinu og þau sjást ekkert og þurfa því ekki búninga.“ Og þannig fór það, við sveimandi sálirnar höfum fengið margt rothöggið um dagana.
En það sem ég ætla að rifja upp eru leiksýningarnar í skólanum á Litlu jólunum og þær voru svo vanalega endurteknar á skemmtun sem Barnaskólinn stóð fyrir í Höllinni, yfirleitt á Sumardaginn fyrsta. Í huganum er til smá „glimt“ frá Skrautsýningu sem hún Arnþrúður hans Kalla Guðjóns stóð fyrir.
Grámann í Garðshorni og kosningar
Hvort það var á þeirri sömu skemmtun sem Grámann í Garðshorni var sýndur er ég ekki viss, en fyrir þá skemmtun var rekinn mikill „áróður á kjörstað“ því Hrafnhildur Borgþórsdóttir, dóttir Guðrúnar Andersen og Borgþórs Árnasonar, gekk í húsin á Brimhólabrautinni og spurði hvort krakkarnir í því og því húsi fengu ekki örugglega að fara á skemmtunina - og endaði svo með: „Hann Gísli Már frændi leikur kónginn“. Þau konungshjónin, Harpa Karlsdóttir lék drottninguna, stunduðu það að spila Svartapétur á nóttunni, svindluðu eins og þau mögulega gátu og rifust svo yfir spilinu. Hann Hafþór Guðjóns var Grámann og ég man eftir að í einu atriðinu birtist hann í engilslíki og plataði þau hjónin ofan í poka, því hann hafði fengið það verkefni að stela þeim, til þess að hann gæti eignast kóngsdótturina og hálft ríkið. Og ég man að Gilli á Lögbergi hann lék prestinn sem gifti parið.
Gerspillt og fýld kóngsdóttir
Hvort það var á þessari sömu skemmtun eða árið eftir að sýnt var leikritið „Ég vil það ekki prinsessa“, er ég ekki viss um. Það fjallaði um gerspillta og fýlda kóngsdóttur sem vældi „Ég vil það ekki“ við hverju einu sem nefnt var við hana, meira að segja þegar prinsinn í næsta ríki bað hennar. Þá voru kallaðir til bjargar þrír ráðgjafar. Þeir birtust, svartklæddir í svörtum sokkabuxum og með svarta kínahatta, réðu ráðum sínum og tjáðu sig.
Þegar sá þriðji hóf upp rödd sína, sá sem gaf viturlegasta ráðið, sem ég man alls ekki hvað var, þá þekkti ég hana: þetta var hún Binna Friðriks, frænka Magneu vinkonu minnar. Einhverjum árum seinna fór ég að yfirheyra hana um þátttökuna í þessu leikriti, hún sagði mér að þær, það er, það voru stelpur sem léku ráðgjafana, tóku leikinn mjög alvarlega.
Ráðgjafar voru í þeirra huga allir með sítt skegg, samanber, dr. Alvís í Alfinni álfakóngi. Svo þær skelltu sér á apótekið til Aase Sigfússon og keyptu skegglím. Hafa mjög sennilega þurft að panta það með eins dags fyrirvara, það þurfti leikfélagið allavega að gera - og já, þær settu lím á andlitið á sér og klesstu svo vænni tuggu af lopa í límið - og því miður gekk þeim víst ekkert voðalega vel að ná skegginu burt og voru ágætlega loðnar um kjálkana daginn þann.
Þá er komið að því, haustið 1960 settumst við flest öll úr árgangi 1954 hérna í Eyjum í stöfunardeildina - eða stubbadeildina - hjá Eiríki Guðnasyni og Þórarni Magnússyni. Ég hafði heyrt þá eldri bræður mína, Hjalla og Óla, tala mikið um litlu jólin í skólanum og nú var komið að því að ég upplifði þau.
Skemmtilegur – Skemmstur
Ég þóttist svosem stautfær þegar að skólavistinni kom. Einn daginn var ég að fletta dagatalinu, þið munið dagatal er það, þegar að einn og einn miði er rifinn af daglega og vanalega var búin til skúta eða flugvél úr afurðinni. Ég kvað upp úr: „Mamma, ég veit alveg hvenær litlu jólin verða.“ „Nú, hvernig veistu það?“ spurði hún. „Það stendur hérna í dagatalinu“ Skemmtilegur skóladagur!“ En að sjálfsögðu stóð þar skemmstur sólargangur. Bara smá „lesblinda“.
Þá er komið að leiksýningunni sem olli mér alls engum vonbrigðum. Það fjallaði um dreng sem hvarf að heiman, álfkona fann hann og allt reddaðist. Heima var ég spurður hvort það hafði verið gaman. „Já mjög gaman“ sagði ég. „Hvað hét leikritið?“ Þá kom í ljós athyglisbrestur, það hugtak var ekki til í þá daga. „Um..Bjarni týnist“ sagði ég. Eitthvað voru þau heima fyrir vantrúuð á nafngiftina en ég var kokhraustur eins og vanalega og sagði: „Ja það kom kona inn á sviðið og sagði: „Bjarni, Bjarni, hvað hefur orðið að drengnum.“ Út af því að hann var týndur. Þessi kona, sem ég talaði um, var hún Fríða Sigrún Haraldsdóttir , þá tíu ára. En ég hef það mér til afsökunar að hún var hávaxin miðað við aldur og var í upplut með skotthúfu og „alle grejer“. Seinna komst ég að því að leikritið heitir „Rauða húfan“.
Eftir hvern veit ég ekki, gæti þessvegna verið eftir Ragnheiði Jónsdóttur, merkilegan en á tímabili vanmetinn rithöfund sem skrifaði margt gott leikritið og söguna fyrir börn og unglinga. Leikritið er byggt á þjóðsögu um Bjarna Thorarensen, sýslumann, sem hvarf að heiman sjö ára gamall og fannst með rauða húfu á höfðinu, hátt uppi í fjalli, fyrir ofan bæinn á Hlíðarenda. Og hann sagði að mamma hans hefði farið þangað með hann. Ég man að hann Eiríkur Einarsson sonur Einars Hauks og Gunnu lék Bjarna og gott ef hann Bibbi Valtýrs var ekki vinnumaðurinn sem fór að leita að drengnum.
Aumt að vera þurftarmaður
Á litlu jólum 1961 var sýnt „Nátttröllið“ eftir Ragnheiði Jónsdóttur. Þar var Addú Reynis í aðalhlutverki og skilaði sínu vel. Hvernig ég komst að því að hún Jenný Jóhannsdóttir, nágranni minn, lék konu sem verið var að setja á sveitina man ég ekki, en samkvæmt leikritinu á hún mjög dramatíska setningu: „Það er aumt að vera þurfamaður“. Og auðvitað þurfti ég að forvitnast og yfirheyra hana og þá sagði hún mér, með töluverðu stolti, að hún hefði líka verið með grímu og verið nátttröllið á glugganum. En Bjössi bróðir hennar mun víst hafa sagt, með bróðurlegri meinfýsi: „Hún hefði sko ekki þurft neina grímu, andlitið á henni eitt og sér hefði alveg dugað.“
Á litlu jólum 1962 var hún „Gilitrutt“ sýnd og tókst víst mjög vel til. Því miður fengum við, sem fórum á jólaskemmtunina eftir hádegið, ekki að sjá sýninguna. Þess í stað var sýnt eitthvert leikrit sem ég held að hafi heitið „Sjúklingarnir“. Eitthvað hefur það ekki hrifið mig því ég man eiginlega ekkert um það, ég held samt að það hafi fjallað um krakka, sem voru miklir sælgætisgrísir, en bættu svo ráð sitt þegar að þau fengu tannpínu.
Eftirsjá í Þórarni
Haustið 1963 flutti Þórarinn Magnússon sig yfir í Gagnfræðaskólann. Það var sagt slæmt, því að hann var víst einn aðal forkólfurinn á bakvið jólasýningarnar og lagði í þær bæði vinnu og metnað. En nú fór í hönd ár metnaðarleysis, engin ný leikrit bara endurtekið efni - 1963 „Grámann í Garðshorni“, 1964 „Bláklukka prinsessa“ sem áður hafði verið sýnt undir nafninu „Ég vil það ekki prinsessa“ og 1965 „Gilitrutt“. Metnaðarleysi, já. Því baðstofuleiktjöldin úr Gilitrutt, frá 1962, með sín timburþil og vígindi, voru tildæmis notuð tvisvar sem hallarsalir og það þótti mér með minn leikhúsáhuga „ósköp klént“ eins og einhver ónefndur maður mun hafa . Ekkert nýtt, það er ekki alveg rétt, því 1963 var sýnd leikgerð úr sögunni um „Óskabjúgað“. Mjög skemmtileg útfærsla og vel flutt, þar voru á ferðinni Eygló Björns, Hebba á Kirkjubæ og Helga Gísladóttir. En því miður, þegar til átti að taka og endurflytja það, eftir gos, þá fannst hvorki tangur eða tetur af handritinu.
Unnur Guðjóns
Áður en ég hætti alveg þessu bulli og blaðri langar mig að tala örlítið meira um hana „Gilitrutt“, árgerð 1965. Þegar það kom að því að flytja leikritið á sumarskemmtuninni vorið 1966, þá var flensa á gangi í bænum og hann Guðni Einarsson í Betel, sem hafði leikið Bjarna vinnumann á jólasýningunni, lá í rúminu. Og þó ég væri ári yngri en þau hin, þá af einhverjum ástæðum, var ég fenginn í þetta hlutverk, mér til mikillar ánægju. En hvort að 6-E var hrifinn af því að fá einhvern úr 5-E í sinn hóp, ég er ekki viss um það.
Elskulegur lærimeistari og prímadonna Karólína Unnur Ragnheiður Guðjónsdóttir kom og tuktaði okkur aðeins til. Og hún var nú ekkert alltaf blíðan besta. En ég man að hún sagði við hann Þórólf Guðnason, sem lék Gissur bónda, Ég er mjög ánægð með þinn leik. Og þar hefur þú það Tóti minn. En nú læt ég þessu blaðri mínu lokið og segi eins og fólkið í útvarpinu forðum, „Ég þakka þeim sem á hlýddu, góðar stundir“.
Edda Andrésdóttir
ÆVINTÝRABÚSTAÐURINN
Erindi Eddu Andrésdóttur sem hún flutti án handrits en hefur nú stílfært í ritað mál.
Komið þið sæl og til hamingju með hátíðina og daginn. Þennan yndislega dag sem kemur mér ekkert á óvart því svona var þetta öll sumrin sem ég var hér! Allt nnað hefði komið mér á óvart! Það er nefnilega gott að vera Vestmannaeyingur. Það er fötlun að vera ekki Vestmannaeyingur hvíslaði sessunautur minn áðan – en ég segi ekki hvor!
Ég kom hingað með farangur. Er að hugsa um að dvelja lengi.
En svona án gríns vill þannig til að í gegnum árin varðveittist kassi í geymslunni hjá henni mömmu sem geymdi eitt og annað frá sjálfri mér. Meðal annars annars sendibréf frá sjöunda áratugnum, full af fréttum og alvöru leyndarmálum. Fólk skrifaðist á í þá daga og bréf okkar vinkvenna gátu orðið mjög löng. Ég fékk til dæmis bréf til Reykjavíkur frá vinkonu minni hérna í Eyjum, þar sem stendur: “Skrifaðu fljótt! Þá færðu 38 síður frá mér. Ekkert smá sem hefur skeð hér í bænum!”
Í fyrrnefndum kassa var líka gamla fléttan mín sem ég lét klippa af mér eftir fermingu og sumum finnst hálf óhugnanleg þegar ég dreg hana svona upp, eins og ég dragi hana upp úr fornri gröf. En mér finnst hún yndisleg og geyma í sér sól og sumardaga eins og best gerðust og gerast hér í Eyjum. Enda hef ég eiginlega aldrei komið hingað nema að sumri til. Kom auðvitað í gosinu en þá var annað og meira á ferð en venjulegur vetur. Þetta voru hamfarir; nánast heimsendir fannst manni stundum.
Og þegar ég segi heimsendir má ég til með að segja ykkur aðeins af mömmu, henni Svövu Jónsdóttur frá Kirkjubæ, því þegar hún var stelpa í barnaskólanum hér var heimsendi spáð einn daginn klukkan þrjú. Börnin fóru nú samt í skólann og þegar skóladegi lauk fóru þau aftur heim, nema börnin á Kirkjubæ. Það þótti of langt að fara og heimsendir hefði getað orðið á leiðinni. En klukkan tifaði og varð þrjú og eins og þið hafið kannski þegar giskað á varð ekki heimsendir og mamma nú orðin níutíu og tveggja ára og man tímana tvenna og allt vel.
Hún var sem sé frá Kirkjubæ. Frá Ólafsbæ eða Mið-Hlaðbæ eins og húsið hét á pappírum og þar sem amma og afi höfðu átt heima frá 1920, þau Guðrún Hallvarðsdóttir og Jón Valtýsson. Þar fæddist mamma og ólst upp með tveimur eldri systkinum sínum, Öllu og Sigga eða Aðalheiði og Sigurbergi. Og í dag ætla ég að halda mig austur á Kirkjubæ, þar sem ég var fyrstu sautján sumur ævi minnar, innan girðingar – eins og væri ég ein af indælu kúnum þar. Ég hef reyndar skrifað bók um Kirkjubæina og lífið þar í mína tíð, svo ef þið hafið einhverjar spurningar þá kaupið þið bara bókina – mig vantar pening!!
ROSALEGA LANGT ÞANGAÐ!
En grínlaust – hús ömmu var eitt af fimm húsum þar austur frá og öll voru þau undir einum og sama Kirkjubæjarhattinum, þótt þau hétu hvert sínu nafni. Þetta voru björt og myndarleg hús og inn á milli voru fjós og hlöður, kofar og rabarbari, snúrustaurar, hvönn og baksturslykt og alltaf eitthvað nýbakað með kaffinu.
Og núna þegar eins og leggur aftur til mína þessa baksturslykt ætla ég að fá ykkur með mér þangað austur eftir. “Það var rosalega langt þangað, Edda,” sagði Sigurður Ingi mágur minn um borð í Herjólfi áðan – á leið hingað. Og ef einhver veit það er það hann sem fylgdi Jónu systur minni þúsund sinnum þangað á þeirra sokkabandsárum.
Svo við hlaupum, því tíminn er naumur. Hlaupum upp Heimagötuna – frekar en Sólhlíðina – við ætlum að koma við í Felli hjá honum Arnari Sigurmundssyni sem er þar innanbúðar í sínum afgreiðsluslopp og kaupa ýsuflök handa ömmu. Hún verður ánægð með það. Svo er Bólstaðarhlíð fljólega á vinstri hönd – og Laufás. Og þarna eru Svanhóll og Háigarður, Vilborgarstaðir og Hlaðbær – þar sem Loftur vinur minn átti heima.
Svo verða eiginlega þáttaskil og við komin upp í sveit.
Þar er Vilpan á hægri hönd og eins gott að hafa munninn kyrfilega lokaðan svo brunnklukkurnar fljúgi nú ekki upp í mann, baneitraðar. Og þarna er Vallartún. Fallegt hvítt hús með rauðu þaki og telst strangt til tekið ekki til Kirkjubæjanna en við látum það liggja á milli hluta því þetta hús er inni í öllum okkar dögum, alveg eins og hin. Þar á Gugga vinkona okkar heima með systkinum sínum og foreldrum. Þóreyju Jóhannsdóttur – eða Tótu eins og við köllum hana og Guðjóni Björnssyni eða Gaua í Gerði, sem var alltaf með bros og grín á vör. Góð saga segir að hann hafi eitt sinn boðið sonum sínum á Grillið á Hótel Sögu þegar þeir voru fyrir sunnan í henni Reykjavík, eins og stundum var sagt. Þegar máltíðinn lauk og þjónninn kom með reikninginn sagði Gaui: “Ég borga þér nú bara í fýl og rófum í haust, væni minn!” Þá varð ofurlítill titringur í loftinu áður en Gaui dró upp ávísanaheftið eins og hafði alltaf staðið til og hélt svo áfram að brosa á sína vísu.
GULL OG GERSEMAR
Við Gugga héngum oft í Vallartúni. Reyndar voru krakkar mest úti á þessum árum – nema við værum að vinna í Hraðinu eða Fiskiðjunni. Og hvað haldið þið að ég sé með hérna í kassanum sem ég kom með? Þetta er launamiði frá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja fyrir síðustu vikuna í ágúst 1968 og kvittun fyrir því að ég hafi greitt fimm hundruð krónur í ársgjald til Verkakvennafélagsins Snótar. Þetta finnast mér gull og gersemar.
En eins og ég sagði héngum við Gugga í risherberginu í Vallartúni og hlustuðum á Bítla- og Stonesplötur enda var þetta á Bítlatímabilinu – og einhvern veginn rak allar nýjar plötur austur á Kirkjubæi eins og væri þetta í þjóðbraut heimsins. Paul McCartney var okkar maður. Ótrúlega líkur Jóa í Suðurbæ. Það var vart hægt að greina mun. Þetta var gósentíð fyrir Jóa í Suðurbæ! Með dökka hárið og brúnu augun! Enn í dag þegar ég hitti Jóa, hugsa ég; já, þú ert líkur Paul McCartney.
Bítlaæðið var sem sé í algleymingi og Marý frænka mín gaf mér þá einhvern tíma þetta sem ég sýni ykkur nú. Kannist þið við svona vefnað? Svona mynd? Paul McCartney með gítarinn? Það var samt ekki fyrr en ég fór að undirbúa komuna hingað að ég áttaði mig á að það er hanki hérna. Sjáið þið – þetta er viskustykki! Og hvað segir það? Það segir að ég vaska upp með Paul McCartney!
Við Gugga ákváðum að skrifa Bítlunum og gerðum það. Við komum bréfinu heim og saman og röltum svo með það niður í bæ, komum því í póst og það flaug yfir hafið og heim til Bítlanna. Ja, við fengum alla vega svar. Svarthvítt kort með brosandi mynd af Bítlunum – with Love from John, Paul, George og Ringo – beint til okkar Guggu! Við áttum ekki orð þótt við yrðum nú ekki oft kjaftstopp. Við skiptumst á að halda á kortinu, velta því á alla kanta og komumst loks að því heiðursmannasamkomulagi að við skyldum geyma það til skiptis í Vallartúni og húsi ömmu. Fór sem fór. Nú hvílir það neðanjarðar eins og margt fleira. Ég hef samt leitað að því dyrum og dyngjum í von um að finna það og enn ekki gefið upp alla von.
Rétt fyrir síðustu jól fórum við nokkur saman að sjá og heyra Paul McCartney í Glasgow. Þá langaði mig á einu stigi að standa upp og kalla: Paul! Manstu ekki eftir bréfinu frá okkur Guggu? Hann hefði örugglega sagt: Jú!
LOFTSKEYTA – EÐA FRÉTTAMAÐUR?
En nú hlaupum við úr Vallartúni yfir í Norðurbæ. Þar búa Maggi og Dísa, Magnús Pétursson og Þórdís Guðmundsdóttir með börn sín; meðal annars Báru vinkonu mína. Það er alltaf líf og fjör í Norðurbæ. Maggi á þönum og kýrnar um kring og súrheysturninn sem er eins og geimskip, þetta er eitthvað svo nýstárlegt. Dísa alltaf pollróleg. Það er líka grallaragangur í Norðurbæ og einn daginn höngum við Gugga í tröppunum við útidyrnar og bíðum eftir Báru. Höllum okkur fram eins og maður gerir og horfum niður í kjallaratröppurnar. Bróðir hennar veit af okkur. Eða var það ekki örugglega einn bræðranna? Það var alla vega einhver grallari þarna austur frá – svona getur minnið verið. Jæja, hann skýst upp kjallaratröppurnar og rífur niður um sig brókina og upp aftur – svo leiftursnöggt að við vorum alls ekki vissar hvort glitti í bakhluta eða ekki. Við brjáluðumst úr hlátri, það þurfti nú ekki mikið til, lifðum á þessu lengi og nú segi ég frá þessu hér í þessum virðulega félagsskap!
En við stelpurnar vorum líka grallarar og ekkert síður.
Mig minnir að það hafi verið einn yngri bræðra Báru sem varð fyrir barðinu á okkur Guggu og ég ætla að segja ykkur frá. Við vorum alltaf svöng í útiloftinu í þá daga og lifðum öðrum þræði á náttúrunni, hvönn og hundasúrum og fleiru. Nú týndum við stórar hundasúrur og smurðum þær með kúamykju, lögðum saman eins og samlokur og gáfum þeim stutta. Við sögðum að það væri rabarbarasulta á milli og hann borðaði af bestu lyst og varð ekki meint af.
Það voru flottir krakkar í Norðurbæ og hafi eitthvert Kirkjubæjarbarna haft viðskiptavit var það Bára, þótt ég ætli að ljóstra upp því hér og nú að hún ætlaði að verða hjúkrunarkona. En hlutirnir æxlast stundum öðru vísi en sumir halda. Mamma átti sér þann draum fyrir mína hönd að ég yrði loftskeytamaður. Henni fannst það mjög spennandi, morsið og það allt eins og þetta var í þá daga þegar allt var svo miklu einfaldara í lífinu en núna. Bara gamla gufan, Gufunesradíó – og bátabylgjan. En kannski er einhver skyldleiki með því að vera fréttamaður og loftskeytamaður. Það var alla vega hlustað og það voru fréttir á báðum stöðum.
AMMA VAR Í ÞÓR – OG GUÐ
Kirkjuból er næst í röðinni á ferðalagi okkar um Kirkjubæi. Það er trúlega hæsta húsið og rúmlega fimmtíu metrar niður á skorsteininn var mér sagt þegar ég vann að bókinni um Kirkjubæi. Kristján Þór Valdimarsson vinur okkar átti heima þar hjá ömmu sinni og afa. Þeim Þóru Valdimarsdóttur og Kristjáni Kristóferssyni, sem í fyllingu tímans gáfu Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni greinagóða lýsingu á upphafi gossins sem birtist í bók hans Vestmannaeyjar, byggð og eldgos. Þá lýsingu má líka finna á Heimaslóð.
Það var alltaf svo blíður andi á Kirkjubóli og stafaði frá Þóru sem er einhver mildasta kona sem ég hef hitt. En það var engin sérstök blíða í fyrirrúmi þegar við krakkarnir á Kirkjubæ spiluðum fótbolta á túninu við Kirkjuból. Á þessum árum var ekki gert ráð fyrir stelpum í fótbolta en við stofnuðum bara okkar eigið lið, Íþróttabandalag Kirkjubæja, skammstafað ÍBK. Við áttum okkar liðslag. Sömdum texta við gamla smellinn My Boy Lollipop – þar sem sagði eitthvað þessa leið: “Sparkaðu boltanum, Pétur. Verðu markið Helgi.” Eða hvernig sem við röðuðum upp nöfnunum. En þetta var flott. Við stelpurnar vorum í þessu af lífi og sál þótt við værum líka í íþróttafélaginu Þór. Ég meina – amma var í Þór og Guð! Það var alltaf betra veður á þjóðhátíð hjá Þór!
Nema hvað. Hér er ég með jólakort sem ég fékk sent til Reykjavíkur frá Íþróttafélaginu Þór árið 1967. Gott og farsælt komandi ár stendur þar og ljósmyndina tók Oddgeir Kristjánsson. Er þetta ekki frábært? Þetta eru fornminjar.
En tíminn líður og nú kveðjum við Kirkjuból í keppnisskapi og hlaupum niður brekkuna til vinstri, að húsinu sem kallað var “austrí” heima hjá ömmu eða Hebbuhús eins og ég kallaði það, því Hebba vinkona okkar átti heima þar. Hebba var dóttir Péturs Guðjónssonar lundaveiðimanns í Elliðaey eða Ellirey eins og sumir segja og Lilju Sigfúsdóttur. Lilja vann í þurrkhúsinu sem manni fannst merkilegt. Röggsöm kona og dugnaðarleg. Lilja var með glerauga. En maður var ekkert sérstaklega að velta því fyrir sér. Allir höfðu sín sérkenni á Kirkjubæ.
Ein af minningunum um Pétur er sú að hann kemur gangandi eftir götunni og reykjarstrókinn leggur til himins. Fyrst sér maður eiginlega reykinn, svo Pétur. Sagan sagði að þegar gosið hófst hafi hann skroppið út að líta á aðstæður áður en heimilisfólkið yfirgaf húsið. Svo hafi hann farið aftur inn í hús og gripið með sér sígarettupakka sem lá við hliðina á peningaveskinu hans – en skilið veskið eftir. Annað hafi hann ekki tekið með sér. Ég bar þetta undir Brynju dóttur hans og vinkonu okkar allra og hún staðfesti söguna.
“ÉG ER HÆTT AÐ SKILJA, VÆNA.”
Spölkorn fyrir ofan húsið var legsteinninn. Ég man að við stepurnar héldum einu sinni fegurðarsamkeppni þar, svona í takti við tíðarandann. Man ekki hver niðurstaðan varð í þeim efnum. En við erum sem sagt að nálgast Suðurbæ, með sitt græna þak og öfluga búskap. Þar eiga Tobbi og Helga heima. Þorbjörn Guðjónsson og Helga Þorsteinsdóttir ásamt sinni fjölskyldu. Tobbi var fámáll, dökkur yfirlitum og afskaplega virðulegur fannst manni. Og þegar við Gugga fengum fyrstu launavinnuna okkar hjá honum – vorum mjólkurpóstar og hristumst alla morgna aftan í Land Rovernum hans með glerflöskurnar og hlupum með þær upp tröppurnar að útidyrum fólksins í bænum, bárum við takmarkalausa virðingu fyrir honum.
Þarna í Suðurbæ á Jói McCartney líka heima. Og það er nú ekki lítið. Við krakkarnir slógum stundum upp böllum í bílskúrnum í Suðurbæ og þá voru Bítlalögin á fullu þangað til allt datt skyndilega í dúnalogn og við festumst í dansstellingunum. Skýringin var sú að rafmagnssnúra úr þessu risavaxna segulbandi þeirra tíma sem við höfðum borið inn í bílskúrinn lá inn í húsið um opinn glugga og nú hafði einhver fengið nóg af déskotans hávaðanum og kippt úr sambandi. Hvernig er eiginlega hægt að finnast Bítlalög ekki skemmtileg? Hugsaði maður þá.
Aldrei skyldum við ekki neitt, ekki frekar en stelpa sem mamma sagði mér frá og var send í hús að kaupa rjóma. Þetta var á þeim tíma þegar orð eins og skilvinda og skilja voru enn í íslensku máli en samt á undanhaldi og tengdust vinnslu á rjóma úr mjólk. Þegar konan kom til dyra sagðist stelpan hafa verið send til hennar að kaupa rjóma, „Ég er hætt að skilja væna mín,“ sagði konan. Stelpan spurði þá aftur og talaði mjög skýrt: „Ég var send hingað að kaupa rjóma.“ En konan sagði: „Ég er hætta að skilja, væna.“ Þá hljóp stelpan heim, furðu lostin og dálítið ergileg, og sagði: „Hún er hætt að skilja, helvítis kellingin! “
KONA KALLAR Á MÖMMU SÍNA.
Jæja, ballið búið í Suðurbæ og við röltum fáein skref í vestur til hjónanna sem þar búa. Þetta eru Sala, Salgerður Arngrímsdóttir og Jón Nikulásson, og eiga þarna heima ásamt Gunníu dóttur sinni í húsinu sem í húsi ömmu er kallað “vestrí” í daglegu tali og allt svo gljáfægt að það má spegla sig í eldhúsgólfinu. Gerður Pálma – sem þið kannist við, var sumarstúlka þar í húsinu eins og við Jóna systir vorum hjá ömmu. Þær tvær voru nokkrum árum eldri en við krakkarnir, skvísurnar sem þær voru, þótt mér fyndist þær eiginlega orðnar konur.
Það sýndi sig eitt sumarið þegar við á Kirkjubæ hrukkum upp eina nótt við snarpan jarðskjálfta. Við Jóna sváfum í sama herbergi ásamt mömmu og Gunnari litla bróður okkar. Pabbi að vinna uppi á landi. Við hrukkum upp með andfælum og Jóna kallaði “mamma!” En ég varð svo hneyksluð að ég átti ekki orð uns ég gat loks stunið upp “abbbabbbabb” eins og maður gerði nítjánhundruðsextíu og eitthvað: “Kona að kalla á mömmu sína!” En Jóna var þá sextán ára. Hún minnir mig enn á þetta. Hún minnti mig til dæmis á þetta áðan þegar við vorum á leið hingað í Herjólfi ...
En nú er það næsta hús. Hús ömmu. Þar á Marý frænka heima með móðurfólki mínu sem ég hef þegar nefnt og Tryggva yngri bróður sínum. Þið þekkið auðvitað hana Marý sem á heiður skilið fyrir að hafa haldið Kirkjubæjarliðinu saman, ár eftir ár. Það hafa þau Runi meðal annars gert 23. janúar ár hvert með því að bjóða okkur liðinu heim í kaffi og kökur, brauð, gítar- og harmonikkuspil og söng til að fagna því að þrátt fyrir allt fór þó ekki verr en það gerði árið 1973.
Hús ömmu var mitt uppáhalds í lífinu – með sínum tveimur hæðum, háalofti, kjallara og lífi frá morgni til kvölds. Það voru kýr og kettir og kindur og náttúran allt um kring og á hverjum einsta morgni kom sama fólkið að sækja mjólkina sína á brúsa og það var skrafað og skeggrætt um landsins og Eyjanna gagn og nauðsynjar. Svo komu Unnur, Þóra og Sala að fá eitthvað lánað því búðirnar voru ekki beinlínis á næsta leyti. Það var stöðugt rennerí af fólki og alltaf heitt á könnunni og eitthvað með kaffinu.
Amma var merkileg kona fyrir margra hluta sakir. Hún bjó yfir miklu æðruleysi og trúarstyrk og þegar sorgin knúði dyra í húsinu stappaði hún stálinu í sitt fólk. Hún hafði stóra sál með rými fyrir allt, hvort sem það sást eða ekki. Hún hafði séð álfkonu þegar hún var telpa í Mýrdalnum og virtist aldrei efast um tilvist hennar. Hún var líka berdreymin og útilokaði ekki að það væri meira til en augun sjá. Hún var léttlind og hláturmild og hafði gaman af að segja sögur úr lífinu. Hún sagði Jónu til dæmis sögu – sem Jóna sagði mér. Sagan var af fátækri konu sem bað Guð að hjálpa sér í vesöld sinni og gerði það úti undir beru lofti svo nokkrir grallaralegir peyjar heyrðu til hennar. Í kjölfarið söfnuðu þeir saman smápeningum og skildu eftir við útidyrnar hjá henni. Svo biðu þeir í leyni þangað til konan kom út, alsæl með það sem hún sá og þakkaði Guði hjálpina.
Þegar gaus ætlaði amma aldrei frá Eyjum. Ætlaði bara að læra á nýju eldavélina hjá Jónu og Sigurði Inga á Höfðaveginum og bíða þetta af sér. Þess í stað beið hún fyrir sunnan, full æðruleysis, að komast hingað aftur og þegar til kom fluttu hún og mitt fólk í Vesturbæinn.
Ef hláturinn lengir lífið sannaðist það á ömmu. Hún var næstum því hundrað og fimm ára þegar yfir lauk.
SKRÍLL EÐA ELÍTA?
Og nú er mál að linni.
Við kveðjum Kirkjubæjarliðið – eða Kirkjubæjarskrílinn – eins og þið vitið víst flest að hann hefur verið kallaður. En nú gæti hins vegar orðið breyting þar á því síðastliðin tvö ár hafa Kirkjubæingar komið saman eina kvöldstund í Agóges í henni Reykjavík, slegið þar á létta strengi í tali og tónum, borðað góðan mat og borgað í fíl og rófum í haust væni minn! Og stendur til að endurtaka þetta 14. september. Við Bára vorum náttúrulega sjálfskipaðar í undirbúningsnefndina sem heldur utan um þetta allt saman, sitjum þar sem fastast ásamt Jóa McCartney og vinum okkar frá Kirkjubæ – og munum aldrei víkja. Þetta er dálítið eins og saumaklúbbur, eiginlega eins og við séum bara hér í Eyjum eða enn á Kirkjubæ.
En á einum fundanna lagði sem sé einhver til að Kirkjubæjarskríllinn skipti nú um gír og héti hér eftir Kirkjubæjarelítan. Ja, ég veit ekki. Þið meltið þetta. Við þurfum eiginlega að fá samþykki frá ykkur! Þetta er svo fast í Eyjamálinu!!
Hvað sem því líður lýk ég þessu nú með ástar og saknaðarkveðjum frá nefndinni – og kveðju sem mamma bað mig að skila til Heimakletts þegar ég hringdi í hana áðan, rétt áður en við lögðum úr Landeyjahöfn. Orðrétt sagði hún: “Segðu við Heimaklett frá mér; ég mun aldrei gleyma þér.”
Takk fyrir mig.
Einar Gylfi Jónsson í Eyjahjartanefndinni:
Forréttindi að fá að smala fólki saman aftur og aftur
Heyra það segja frá minningum sínum og við fáum að hlusta
„Komiði sæl og þakka ykkur sem hafið verið að rifja upp minningar ykkar hérna í dag, þakka ykkur kærlega fyrir. Þetta var alveg frábært. Það eru forréttindi okkar í Eyjahjartanefndinni að fá að smala fólki saman aftur og aftur til þess að segja frá minningum sínum og við fáum að hlusta á þetta. Ég er að vísu alltaf smá hnút í maganum, því ég á eftir að loka dagskránni. Það er svo margt sem fer í gegnum hugann, ekki satt? Ótrúlega margt sem maður tengir við: „já, einmitt!Og þá dettur mér þetta í hug!“ sagði Einar Gylfi Jónsson einn af forsprökkum Eyjahjartans þegar hann sleit samkomunni.
Lék öll karlhlutverkin í Gilitrutt
„Til dæmis, Sigurjón, mér finnst mjög leitt að heyra að þú hafir misst af Gilitrutt 1962, ég lék vinnumanninn. Ég hef leikið öll karlhlutverkin í Gilitrutt. Það var að vísu svolítið vandræðalegt þegar ég lék bóndann og eiginkona mín var Sigga Johnsen, nokkrum árum eldri og höfðinu hærri en ég og hún var orðin MjÖG kvenleg en ég var alls ekki mjög karlmannlegur. Þetta var á leiklistarnámskeiðinu hennar Unnar Guðjóns og sem betur fer aldrei sýnt opinberlega. Hinsvegar lék ég smalann hérna niðri á Stakkó einu sinni, með alvöru leikhúsfólki, Unnur Guðjóns lék gömlu konuna og Halla á Múla lék Gilitrutt og ég var alltaf jafn hræddur við hana á æfingum. Og ég held að smalinn hafi farið mér best, af þessum þremur hlutverkum. En allavegana, leitt að heyra að þú misstir af þessu Sigurjón, ég hugsa að þetta hafi nú verið tímamótauppfærsla, meira að segja svo flott að mér skilst að leiktjöldin hafi verið notuð í mörg ár eftir þetta. Gaman að því.
Mér datt í hug þegar við vorum að rifja upp þegar að börn eru að finna útúr hlutunum og giska á hvernig hlutirnir virka og draga sínar ályktarnir: ungt fólk, og flöt þök, gamalt fólk og hallandi þök. Það rifjaðist upp fyrir mér dóttir mín, hún hefur líklega verið fjögurra ára þegar að hún sagði á gráum rigningardegi: „pabbi, kaupum ís, þá kemur sól.“
Þökk sé Gaujulundi
Við í Eyjahjartanefndinni vorum látin skrifa pistla í 100 ára afmælisritið. Í mínum pistli er ég að velta því fyrir mér að ég í rauninni lenti í vandræðum með tengingu mína við Eyjarnar út af gosinu. Mér fannst eins og Eyjunni hafi verið misþyrmt, nýja hraunið væri eins og æxl., Austurbærinn horfinn og...ég er með sálfræðilegar játningar hérna úr pontunni! En eins og sagt er nú til dags „Út meeða!“ Og þakka ykkur fyrir að hlusta á mig.
En smám saman voru ýmislegt sem hjálpaði mér að tengjast Eyjunum aftur, auðvitað fjölskyldan mín, en líka ýmislegt í Eyjasamfélaginu, ekki síst árgangsmótin, ýmsir aðrir hlutir sem tengdu mig aftur við Eyjuna mína. Sem dæmi vil ég nefna Gaujulund, ég einmitt áttaði mig á því fyrir stuttu að meðan ég leit á nýja hraunið sem æxli, þá leit Gauja á það sem opið sár sem þurfti að græða. Þökk sé Gauju og ykkur fyrir sem þraukuðuð áfram í ljósleysinu með sandblásnar rúður og holóttar götur. Ég fór héðan yfirleitt með sorg í hjarta fyrstu árin þegar ég neyddist til að koma hingað til að halda tengslum við foreldra mína og systkini og stundum vegna vinnu. En sem betur fer þá hafa Eyjarnar risið upp, þetta gamla það lifir áfram í Eyjahjörtunum og margt nýtt og gott hefur bæst við.
Borgarhóll eins og umferðarmiðstöð
Eitt langar mig líka að segja ykkur frá, ég hef nefnilega mjög góðan tíma. Ég held ég eigi um tvær mínútur eftir. Hann Helgi, er Helgi farinn? [úr sal: Já] Ææ, jæja, þá get ég sagt það sem mér sýnist. [úr sal: Hann er hérna] Nú ertu þarna Helgi minn? Jæja. Við Helgi brölluðum ýmislegt saman og ég kom oft í Borgarhól og það var svona eins og hann lýsti því, þar var eins og umferðarmiðstöð.
Við strákarnir sátum auðvitað ekki og reyktum Raleigh. En við sátum gjarnan við borðstofuborðið þar sem var gjarnan mjög mikið í gangi ... ég gleymi aldrei brosinu hennar Öllu, hún var með það sem heima hjá mér kallast húsavíkurbros, við brosum svona líka í minni fjölskyldu, augun á okkur hverfa ... sjáiði svona. Og alltaf var Alla jafn glöð og kát. Hún kenndi okkur níusinnumtöfluna með því að láta okkur finna út hvað hún hefði verið samtals marga mánuði ófrísk á ævinni.
Og ég man eftir - og kannski er þetta eitthvað misminni - fransbrauði með þykku smjöri og sykri ofan á. Er þetta ekki rétt munað hjá mér? [úr sal: jú] Og svo vorum við útaf fyrir okkur uppi í risinu. Þura var svo lítil að maður talaði ekki við hana og Nonni var þarna eitthvað að væflast líka stundum, eitthvað að reyna að stríða okkur. Svo var Biggi heitinn, hann var alveg eins og Prestley, muniði? Með Presleygreiðslu, gláandi af þykku brillíantíni og hérna. Svo var hann þessi massívi her af eldri systum, ég er aldrei klár á því hvað þær voru margar. Eldri systurnar voru þrjár semsagt? Ég var alla vega alltaf mjög feiminn og jafnvel smá hræddur við þær.
Þá voru útvarpsleikritin málið
En hvað um það, þá var yndislegt að vera í Borgarhól og eitt af því sem við Helgi gerðum ... muniði eftir framhaldsleikritunum í útvarpinu? Muniðið eftir Ráðgátan Van Dyke? Ég hafði eignast Tesla segulbandstæki, það var 5 kíló. Og ég tók upp alla þættina af Rágátan Van Dyke. Þá var ekki hægt að tengja beint á milli, þannig að ég varð að nota míkrafón og allir á heimilinu þurftu að þegja á meðan ég var að taka upp Ráðgátan Van Dyke í útvarpinu.
Svo hittumst við í risherberginu í Borgarhól og spiluðum þættina aftur og aftur því við vorum að reyna að ráða í hver væri morðinginn. Eins tókum við okkar eigin skemmtiþátt upp á segulbandið. Eitt atriði úr þeim skemmtiþætti lifir í minningunni: Þannig var að Gylfi Þ. Gíslason alþýðuflokksmaður og ráðherra, nýbúinn að halda ræðu í eldhúsdagsumræðum á Alþingi, þar sem hann var að benda á allt það sem Alþýðuflokkurinn hafði gert fyrir þjóðina og eftir hvert atriði sem hann nefndi (vökulögin, almannatryggingar o.s.frv.) sagði hann: „spor fyrir Alþýðuflokkinn.“
Á þessum sama tíma voru í útvarpinu vinsælir útvarpsþættir um Sherlock Holmes og félaga hans dr. Watson, muniði eftir þeim? Eins og þið munið sagði Sherlock Holmes gjarna , þegar hann hafði dregið einhverja bráðsnjalla ályktun: „Aha Dr. Watson“. Við blönduðum þessu tvennu saman og út kom: „Aha Dr. Watson spor eftir Alþýðuflokkinn.“ Á þessum tíma vorum við Helgi í leiklistartímum hjá Unni Guðjóns í Breiðabliki og þegar við sögðum Unni Guðjóns, eðal kratanum í bænum, frá þessu, hún ætlaði ekki að hætta að hlægja. Þá föttuðum við: „Já, við erum bara fyndnir. Unnur Guðjóns er að hlægja að okkur.“
Týnda ljóðabókin
Við gerðum ljóðabók saman, við Helgi, ég átti fyrri hlutann og hann seinni hlutann. Hún er því miður týnd, hún var bara gefin út í einu eintaki. Við tókum okkur skáldanöfn. Ég hét Hannes Mar. Og við límdum myndir af okkur í bókina og eitt af ljóðunum mínum lifir áfram. Ég held að ekkert af ljóðum Helga hafi lifað áfram. Ég hef kannski farið með það áður í þessari pontu, en ég ætla þá að fá að gera það aftur, því að aldrei er góð vísa of oft kveðin: Blákaldur veruleikinn/ birtist mér í líki grænnar heilbaunar/ sem skotið var í hnakkann minn/ úr þar til gerðu röri. - Já, það þarf að melta þetta.
Skrifuðu stórmennum
Ég vil líka segja frá því, ég skal lofa ykkur því þetta verður það síðasta sem ég segi, eða, ef mér dettur ekkert annað í hug. Helgi var að safna eiginhandaráritunum frægra Íslendinga og hann gerði það þannig að hann skrifaði æviágripið þeirra, sendi þeim síðan í pósti og bað þá um að skrifa undir. Hann var sem sagt að fara út á pósthús með bréf til allra alþingismanna og ráðherra og helstu skálda, leikara og listamanna þjóðarinnar.
Við vorum að velta þessu fyrir okkur um daginn, við Helgi, hvað ætli þær hafi haldið á pósthúsinu, Helgi litli í Borgarhól að senda stórmennum þjóðarinnar póst. Flestir svöruðu og svo var einn, ég man ekki hver það var og Helgi ekki heldur, sem hafði fyrir því að leiðrétta ævisöguna sína, frá 13 ára piltinum.
Mér datt þetta í hug þegar Edda var að segja frá þegar þær vinkonurnar fóru með bréf til Bítlanna í póst og velti fyrir sér hvað þær á pósthúsinu hefðu haldið, þær voru nú ýmsu vanar eftir að Helgi sendi tugi bréfa til fræga fólksins.
- Heyriði, ég ætla að láta þetta duga og ég þakka ykkur kærlega fyrir, þetta var yndislegt eins og venjulega. Ég segi ekki annað, fallegasti staður á jarðríki, það eru Vestmannaeyjar í sól, og það held ég að sé bara að rætast hérna fyrir augunum á okkur, getiði hugsað ykkur eitthvað fallegra? Takk fyrir samveruna,“ sagði Einar Gyfli og lauk þar með samkomunni að þessu sinni.
Kári Bjarnason – Lokaorð
Það gengur ekki að hætta núna
Kærar þakkir fyrir þetta. Ég vil nú byrja á því að þakka fyrirlesurunum fyrir að hafa komið hingað heim og gefið okkur hlutdeild í veröld sinni sem var. Og miðað við fjölda áheyrenda og áhorfanda þá er ljóst að upprunulega hugmynd Eyjahjartanefndarinnar sem var sú að hætta núna, það er að segja, að vera fram að goslokum að 100 ára afmæli, hún er sprungin. Það gengur ekki að hætta núna þegar að húsrýmið er algjörlega farið, það eina sem við þurfum, það er viðbyggingin við Safnahúsið sem að lá nú svo mikið á að 1972 þá var bóndanum á Aðalbóli harðlega bannað setja niður kartöflur, af því viðbyggingin væri að koma.
En ég vil nú bara segja það hérna að lokum áður en við hleypum honum Einari Gylfa að, að í fyrsta lagi þá er hérna uppi, að byrja eftir hálftíma, kynning sem að Sögur útgáfa og Laufey Jörgensdóttir hafa á bók sinni Undurfagra Ævintýr, sem eru Þjóðhátíðarlög Vestmannaeyja 1933-2019 og bókin er væntaleg núna fyrir Þjóðhátíð og hún verður kynnt núna og til sölu á sérstöku verði, útgáfu verði.
Í öðru lagi þá eru fornbílaklúbbar, þeir ætluðu að leggja fyri framan ráðhúsið en það reyndist nú heldur mikil bjartsýni því þar er allt yfirfullt og þeir eru hérna fyrir austan húsið. Síðan er auðvitað heilmikið um að vera, á morgunn er mjög skemmtileg dagskrá um Reisubók og svona nýjar ástæður sem menn hafa uppgötvað í sambandi við Tyrkjaránið þegar að 242 Vestmannaeyjingum var vísað til, eða voru teknir og gerðir að þrælum í Alsír.
Kristinn Pálsson er niðri á Þekkingarsetri að opna sýningu og svo er leikur á eftir ÍBV og KR, það væri ekki slæmt að enda afmælisdagskránna á því að vinna KR. En ég ætla bara að þakka fyrir mig og ég ætla að gefa Einari Gylfa, eins og við höfum gjarnan gert, formanninum okkar, tækifæri til að loka dagskránni með örfáum orðum og minna á að það er hérna fyrir ofan, og svo er kaffi og konfekt hérna, gjörið svo vel, takk fyrir.
Videó: Halldór B. Halldórsson
1. hluti Helgi Bernódusson ►YouTube
2. hluti Inga Jóna Hilmisdóttir ►YouTube
3. hluti Sigurjón Guðmundsson ►YouTube