Skýrsla um Goslokahelgi og 100 ára afmælishátíð 4. til 7. Júlí 2019:
Einstök helgi sem við getum verið stolt af
Gott veður bætti um betur
Veðrið lék við okkur helgina sem afmælis- og Goslokahátíðin fór fram, sólskin og nánast logn frá fimmtudeginum fjórða til sunnudagsins sjöunda júlí. Hitinn var 13 gráður þann fjórða, 17 gráður þann fimmta þegar aðalafmælishátíðin fór fram, þann sjötta var hitinn kominn í 18 gráður og endaði í 19 gráðum þann sjöunda. Ekki er hægt að fara fram á betra veður til hátíðarhalda og allt lagðist á eitt til að gera hátíðina eins glæsilega og raun ber vitni. Mikil og almenn ánægja var með það sem boðið var upp á og í sumum tilvikum komust færri að en vildu.
Og úr miklu var að velja því samtals voru í boði 42 viðburðir, níu á fimmtudeginum, ellefu á föstudeginu, 17 á laugardeginum og fimm á sunnudeginum. Þetta voru myndlistarsýningar, tónleikar og skemmtanir fyrir börn og fullorðna. Allt var vel sótt og var listafólk mjög ánægt með viðtökur.
Erfitt er að gera sér grein fyrir hvað margir heimsóttu Vestmannaeyjar þessa helgi en þeir skiptu þúsundum. Mikið brottfluttir Eyjamenn en líka var áberandi hvað margir mættu sem engin tengsl hafa við Vestmannaeyjar. Allt fór þetta fólk héðan með góðar endurminningar og jákvæða mynd af Vestmannaeyum.
Ótrúlegur fjöldi sýninga var þessa helgi sem heyra hvorki undir afmælis- eða goslokanefnd en þær eru orðnar stór hluti af þessari miklu menningarveislu sem Goslokahelgin er.
Fimmtudagur
Tolli Morthens startaði með myndlistarsýningu í Flugstöðinni í samstarfi við Isavia og var margt við opnunina. Hann seldi grimmt og var mjög ánægður með viðtökurnar.
Sigurfinnur Sigurfinnsson, myndlistarmaður og teiknikennari var næstur og var fullt hús þegar hann opnaði sýningu sína í Akóges sem hann kallaði „Sigurfinnur 75 ára, 75 myndir“. Hann bauð upp á tónlist Sveinbjörns Grétarssonar úr Greifunum. Voru þau hjón, Finnur og Þorbjörg í skýjunum með mætinguna og viðbrögð gesta. Flott verk og sýna að Finnur er enn ferskur og hress.
Seinna um daginn, í Einarsstofu í Safnahúsi opnuðu hjónin Jón Óskar og Hulda Hákon samsýningu, „Fjallið eina og önnur verk“. Þar sýna þau bæði fullunnin verk og hugmyndir að verkum og var mjög gaman að heyra þau segja frá verkum sínum. Mæting við opnunina var góð. Auk þess er Jón Óskar með sýningu í Eldheimum og yfirlitssýning á verkum Huldu er í Listasafni Íslands í Reykjavík.
Sýning á ljósmyndum Svavars Steingrímssonar í Svölukoti var eitt af því sem kom skemmtilega á óvart. Myndirnar tók Svabbi þegar hann var að vinna í gosinu 1973. Þar var hann oft í fremstu víglínu. Fékk hann dóttursoninn, Sindra Ólafsson í lið með sér sem vann myndirnar upp úr filmum í mismunandi ástandi. Þeir kallar sýninguna, „Umbrotatímar með Svabba Steingríms“ og er nafnið við hæfi. Mikil aðsókn var að sýningunni og fullt út úr dyrum við opnunina.
Gíslína Dögg Bjarkadóttir hefur fyrir löngu sýnt að þar er á ferð öflug myndlistarkona. Það kom í ljós á sýningu hennar í Safnaðarheimilinu sem hún kallaði „Mitt á milli“. Myndirnar áttu að vera 30 til 40 en urðu 100 þegar upp var staðið. Flott sýning og Gíslína var ánægð með aðsókn og viðtökur gesta.
Bæjarlistamaðurinn okkar, Viðar Breiðfjörð var með sýninguna „Millilending“ í Cratious-krónni á Skipasandi. Hann bauð upp á léttar veitingar og tónlist og komust færri að en vildu á opnunina. Viðar var himinlifandi yfir viðtökunum og fólk var ánægt með verkin hans.
Um kvöldið í stóra salnum í Hvítasunnukirkjunni voru tónleikarnir „Oddgeir og óperur“ þar sem Silja Elsabet Brynjarsdóttir söng við undirleik Helgu Bryndísar Magnúsdóttur. Það var gaman að sjá og heyra þessar Eyjakonur leiða saman hesta sína. Silja Elsabet á framtíðina fyrir sér á listabrautinni. Það sýndi hún þegar hún rúllaði upp aríum úr óperum eftir Wagner og fleiri jaxla. Hápunkturinn var þó eftir hlé þar sem þær fluttu lög Oddgeirs Kristjánssonar í upphaflegu útgáfunum. Dásamlegt á að hlýða og upplifa þá væntumþykju og virðingu fyrir lögum og ljóðum sem skein í gegn.
Brothers Brewery við Bárustíg bauð upp á Bjórbingó sem var skemmtilegt innlegg í hátíðarhöldin.
Tónleikar GÓSS, Sigríðar Thorlacius, Sigurðar Guðmundssonar og Guðmundar Óskars Guðmundsson voru að sögn frábærir og aðsókn góð.
Föstudagur
Aðalhátíðisdagurinn, fimmti júlí rann upp bjartur og fagur og hófst með Volcano open golfmótinu sem er orðinn fastur liður á hverju sumri og nýtur mikilla vinsælda.
Afmælishátíðin á Skansinum dró að sér fjölda manns. Það var leikhópurinn Lotta sem byrjaði dagskrána. Næst voru það Lúðrasveit Vestmannaeyja og tónlistarmennirnir Sverrir Bergmann og Halldór Gunnar sem skemmtu gestum.
Heiðursgestir voru Eliza Reed, forsetafrú, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra. Fluttu þau öll ávarp ásamt Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra og Arnari Sigurmundssyni, fulltrúa afmælisnefndar. Séra Guðmundur Örn flutti hugvekju og athöfninni stýrði Helga Hallbergsdóttir af miklu öryggi. Auk þeirra voru mættir alþingismenn, fyrrum bæjarstjórar og bæjarfulltrúar. Allar tímasetningar stóðust og skapaði Skansinn og mannvirki á svæðinu einstakan ramma um athöfnina.
Allt fór vel fram og stóðst áætlun. Á eftir var hist í Höllinni þar sem boðið var upp á spjall og veitingar. Tókst vel og ekki skemmdi útsýni yfir bæinn í góða veðrinu. Þar voru m.a. mættir sjö af átta bæjarstjórum sem eru á lífi.
Sýningar þennan dag voru í Heimaey, vinnu- og hæfingarstöð. Þar var handverk og kerti til sölu.
Í sal Tónlistarskólans var Myndlistarfélag Vestmannaeyja með sýninguna, „Vestmannaeyjabær 100 ára“. Skemmtileg sýning sem félagar geta verið stoltir af. Sýningarstjóri var Gunnar Júlíusson.
Í Veituhúsinu á Skansinum var Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir og Sung Beag með listsýninguna „Náttúruhamfarir“. Var Sung Beag með gjörning við opnun sýningarinnar sem þótti athyglisverður.
Auk þess var í boði dagskrá fyrir börn og Pop quiz í Tónlistarskólanum fyrir unglinga.
Hápunktur dagskrárinnar voru svo tónleikarnir í Íþróttamiðstöðinni, kl. 18.00 og 21.00 þar sem ekkert var til sparað. Öll umgjörð til fyrirmyndar og hljómsveit og söngvarar stóðu sig með miklum ágætum. Ekki var síst gaman að sjá hvað fulltrúar okkar Eyjamanna, Júníus Meyvant, Silja Elsabet, Lúðrasveitin og Karlakórinn voru öflug. Allir sem rætt var við, tónlistarfólk og gestir voru yfir sig ánægð með hvernig til tókst.
Miðadreifing virðist hafa gengið vel. Ekki var fullt á fyrri tónleikana en hvert sæti skipað á þeim seinni. Ekki heyrt annað en allir hafi komist sem ætluðu sér.
Kvöldinu lauk svo með tjútti á skemmtistöðum bæjarins. Á Kaffi Varmó voru Kiddi Bjarna og Guðni með fjöldasöng og fjör fram á morgun.
Laugardagur
Áfram hélt Volcano open og boðið var upp á ferð á Heimaklett undir leiðsögn Óla Týs og margir sem nýttu sér það. Á Hásteinsvelli mætti ÍBV KR í Pepsídeild karla í knattspyrnu í leik sem hefði mátt fara betur.
Með áhugaverðari sýningum var „Gakktí Bæinn“, sögusýning Kristins Pálssonar, arkítekts á grafískum verkum um arkitektúr og byggingarsögu Vestmannaeyja. Kristinn hefur lagt mikla vinnu og metnað í verkin og upplýsingar sem fylgdu með. Mikil aðsókn og áhugavert, ekki síst fyrir Vestmannaeyinga sem þekkja húsin, sem sumum hafði verið breytt og einhver aldrei byggð. Efni sem gaman væri að sjá á bók.
Heiðurshjónin, Arnór Hermannsson og Helga Jónsdóttur buðu til menningarveislu heima hjá sér. Í Hippakoti og garðinum að Vestmannabraut 69 og nafnið var við hæfi „Músík, myndlist, mósaík“. Vel sótt og þau höfðingjar heim að sækja.
Færri komust að en vildu á Eyjahjartað í Einarsstofu í Safnahúsi. Að þessu sinni var það sagnafólkið Edda Andrésdóttir, Helgi Bernódusson, Inga Jóna Hilmisdóttir og Sigurjón Guðmundsson sem rifjuðu upp æskuárin í Eyjum. Atli Ásmundsson, Kári Bjarnason, Þuríður Bernódusdóttir og Einar Gylfi Jónsson, sem átti góðan sprett í lokin hafa haft veg og vanda af Eyjahjartanu. Það hefur enn ekki misst taktinn en þetta er í níunda skiptið sem það er haldið.
Fornbílasýning Bifreiðaklúbbs Suðurlands og nokkurra Eyjamanna við Safnahúsið heppnaðist vel og var vel sótt. Bílunum var stillt upp á grasinu austan við húsið sem var rétt ákvörðun þó hún hafi verið tekin í skyndi. Gestirnir þáðu kaffi og með því í Safnahúsi að sýningu lokinni.
Það var fjölmenni sem mætti í þjóðhátíðartjaldið í Sagnheimum þar sem útgáfan, Sögur útgáfa og Laufey Jörgensdóttir kynntu bókina Undurfagra ævintýr, þjóðhátíðarlög Vestmannaeyja 1933-2019. Bókin kemur út fyrir Þjóðhátíð. Þjóðhátíðarstemning var í Sagnheimum og léttar veitingar í boði. Laufey var mjög ánægð hvernig til tókst og er tilhlökkunarefni að sjá bókina.
Fyrir börnin og unglingana var dorgveiðikeppni á Nausthamarsbryggju á vegum SJÓVE og velheppnað sundlaugardiskó með Ingó Veðurguði. Sprell og leiktæki á bílaplani Geisla við Stakkagerðistún.
Grill- og götustemning við Bárugötu var í boði Landsbankans. Tríó Þóris Ólafssonar lék, boðið var upp á grillaðar pylsur, blöðrur, skólahreystibraut, hoppukastala og margt fleira. Skemmtileg hefð sem Landsbankinn hélt áfram með eftir að Sparisjóður Vestmannaeyja hvarf af sviðinu.
Áfram var haldið í Bárustígnum með Brekkusöng og flippi með Ingó Veðurguði.
Þá var komið að stóra kvöldinu sem má kalla stærsta ættarmót landsins, þegar Eyjafólk, alls staðar að úr heiminum mætir í Skvísusund til að sýna sig og sjá aðra í léttu spjalli og söng. Þarna komu fram Eymannafélagið, Kókos og Leó Snær og tók fólkið, sem fyllti sundið undir. Það var opið í þremur króm og sagði einn eigandinn að umgengni hefði verið til fyrirmyndar.
Áfram hélt stemningin eftir miðnætti á dansleik á Skipasandi. Hljómsveitirnar Brimnes og Merkúr á útisviði. Ingó Veðurguð í Gírkassahreppi. Captain Morgan spilaði í Rabbakró. Krærnar í kring voru opnar og veitingasala var á svæðinu. Dansað var fram á morgun í hlýrri sumarnóttinni.
Sunnudagur
Göngumessa frá Landakirkju er fastur liður á goslokum og hefur hún sjaldan eða aldrei verið fjölmennari. Gengið var að krossinum í gígnum og boðið upp á súpu og brauð við Stafkirkjuna. Séra Viðar Stefánsson leiddi messuna.
Fyrir krakkana var Cirkus Flik Flak - barna- og unglingasirkus frá Danmörku í Íþróttamiðstöðinni. Áfram var sprell og leiktæki á bílaplani Geisla við Stakkagerðistún.
Mjög athyglisverður fyrirlestur var í Sagnheimum þar sem Adam Nichols, prófessor við Marylandháskóla kynnti áður óþekktar hugmyndir um ástæður Tyrkjaránsins og af hverju þeir komu ekki aftur. Auk þess fjallaði Karl Smári Hreinsson um nýjar þýðingar á Reisubók sr. Ólafs Egilssonar. Fyrirlesturinn var vel sóttur og vakti upp ýmsar spurningar um Tyrkjaránið sem þarf að gera betri skil.
Um kvöldið fór Mugison á kostum í Alþýðuhúsinu þar sem um 100 manns létu meistarann slá lokatóninn á einstakri helgi.
Sýningar voru opnar alla helgina og sumar verða opnar áfram.
Goslokahátíð hefur verið að vinna sér sess sem mikil menningar- og skemmtiveisla. Að fagna 100 ára afmæli Vestmannaeyja með jafn myndarlegum hætti og raunin varð gerði þetta að eftirminnilegri helgi þar sem erfitt er að gera upp á milli atburða og sýninga. Auðvitað standa stóru tónleikarnir upp úr og munu lifa í minningunni eins og helgin öll með sína 42 viðburði og sitt góða veður.
Allir sem komu að undirbúningi eiga þakkir skyldar og var ótrúlegt hvað fólk var tilbúið að leggja á sig til að helgin yrði sem glæsilegust. Ekki má heldur gleyma fólkinu sem sýndi verk sín og lagði sitt af mörkum.
Að lokum má þakka gestum fyrir góða umgengni, kurteisi og tillitssemi í garð hvers annars.
Ómar Garðarsson.
Samskipti við fjölmiðla og umfjöllun þeirra
Ég sendi efni á alla fjölmiðla, bæði innanbæjar og utan fyrir afmælishelgina og fylgja með sýnishorn af greinum og myndum sem ég sendi frá mér. Ég hafði fyrr á árinu hringt inn og fengið netföng og aðrar upplýsingar til að koma afmælisdagskránni á framfæri. Sendi ég upplýsingar um afmælisfund bæjarstjórnar og málþingið í febrúar og voru Morgunblaðið og RÚV, af öllum fjölmiðlum þeir einu sem sinntu því. Til að gæta allrar sanngirni var það RÚV, í fréttum og fréttatengdum þáttum sem stóð sig best.
Í vikunni fyrir hátíðina, fjórða til sjöunda júlí hafði ég samband við alla fjölmiðla og sendi á þá efni sem ég hafði unnið. Netmiðlarnir innanbæjar stóðu sig mjög vel og birtu efni um leið og það barst eða settu inn eftir óskum.
Þrátt fyrir góð orð fréttastjóra Morgunblaðsins á fimmtudeginum fjórða um að fjallað yrði um afmælið í sunnudgsblaðinu kom ekki stafur. Mikil vonbrigði fyrir mig sem hef unnið fyrir blaðið í mörg ár.
Reyndar kom smá pungur með mynd á mbl.is á laugardeginum og nokkrar myndir í blaðinu á mánudeginum.
Veit að Vestmannaeyjablað kemur út hjá þeim í lok mánðarins.
Í helgarblaði Fréttablaðsins kom viðtal við Írisi bæjarstjóra eins og lofað var.
Stöð 2 reyndi að redda sér fyrir horn með myndum og frásögn af hátíðarhöldunum á Skansinum. Lélegt og var myndin ekki einu sinni í fókus.
Held að Bylgjan hafi fjallað eitthvað um afmælið þó ég hafi ekki heyrt það.
RÚV stóð sig þokkalega. Var með viðtöl við Írisi og Sigurhönnu, í goslokanefnd í fréttatengdum þáttum og okkar kona, Ólöf Ragnarsdóttir dró þá að landi í umfjöllun um afmælið og goslokin, bæði í útvarpi og sjónvarpi.
Finnst að umfjöllun hefði mátt vera meiri en það bara mín persónulega skoðun.
Ómar Garðarsson.
Lögreglan – Fór mjög vel
Ekkert mál kom til kasta lögreglu helgina fjórða til sjöunda júlí, hátíðisdagana.
Það var mikið af fólki í bænum en allt fór vel fram. Lögreglan var mjög sýnileg, einkum á Skipasandi þar sem fólk skemmti sér hiða besta án vandræða.
Lögreglan þakkar þetta meðal annars góðu veðri og að allir voru mættir til þess eins að skemmta sér.
Kv. Ómar.