Goslokahátíðin 2019
Umbrotatímar með Svabba Steingríms í Svölukoti:
Myndir sem sýna gosið í nýju athyglisverðu ljósi
Svavar Steingrímsson, pípulagningameistari, lífskúnstner með meiru var með athyglisverða sýningu í Svölukoti við Strandveg um goslokahelgina. Sýningin var opnuð klukkan 18.00 á fimmtudaginn og kallaðist Umbrotatímar með Svabba Steingríms sem eru ljósmyndir sem Svavar tók í gosinu 1973. Sindri Ólafsson, dóttursonur Svavars valdi myndirnar í samráði við afa sinn og vann þær undir prentun.
Það var fullt út úr dyrum við opnunina og var Svabbi hinn ánægðasti með hvað margir litu við. Sýningin var athyglisverð, að sjá gosið frá sjónarhorni manns sem var í hópi fólks sem virkilega tókst á við náttúruöflin þessa mánuði sem gosið stóð. Myndirnar voru vel valdar og mikil vinna og natni lögð í gera þær klárar til sýningar. Hefur Sindri unnið gott verk með myndir afa síns. Og þær vekja upp margar spurningar, eins og þá; af hverju var fólk að flytja heim á ný? Það var lítil skynsemi í því en allt hafðist þetta. Myndirnar auka líka skilning á tilfinningum þeirra sem ekki vildu koma aftur.
„Í allt eru þetta um 600 myndir sem ég tók í gosinu og ætlaði mér aldrei að gera neitt með þær en Sindri sagði að þarna væri fróðleikur sem þyrfti að koma fram áður en ég hrekk upp af. Við völdum 46 eða 47 myndir sem Sindri hefur hreinsað og eru þær að koma úr prentun,“ sagði Svavar sem er hinn sprækasti þrátt fyrir að vera kominn á níræðisaldurinn. Gengur reglulega á Heimaklett og finnur sér ýmislegt til dundurs annað en að láta sér leiðast.
Byrjaði snemma
„Ég eignaðist myndavél mjög snemma en varð aldrei húkkt á því að taka ljósmyndir eins og Palli bróðir,“ sagði Svavar og á þarna við Pál bróður sinn, myndlistarmann, ljósmyndara og kvikmyndagerðarmann með meiru.
Fyrstu myndirnar í gosinu tók Svavar gosnóttina þegar hann aðstoðaði við að bjarga búslóðinni á Oddsstöðum sem var eitt af húsunum sem stóð næst gossprungunni. Næstu dagar fóru í búslóðaflutninga og vinnu uppi á landi. Þegar í ljós kom að það vantaði pípara til Eyja dreif hann sig út með Þorleifi Sigurlássyni, samstarfsmanni í pípulögnunum og stóð svo vaktina allt gosið.
„Ég átti tvær vélar en lagði annarri eftir fyrstu nóttina og notaði hina, Minoltavél sem reyndist mér vel en endtist gosið og svo ekki söguna meir. Allt eru þetta „slidesmyndir“ og teknar á öllum stigum gossins. Sindri er búinn að hreinsa þær og laga og er það mjög vel gert. Er allt annað sjá myndirnar. Þarna eru líka nokkrar loftmyndir sem ég tók þegar ég fékk að fljóta með Lofti Harðarsyni, flugmanni sem átti flugvél á þessum tíma,“ sagði Svavar að endingu og fékk von um góða mætingu uppfyllta.