Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar á lokamessunni

Samkennd, samtakamáttur, bjartsýni, jákvæðni, dugnaður og baráttuvilji á afmælisári

 

-Munu hér eftir sem hingað til vera lykillinn að velgengni Vestmannaeyja og þeirra sem hér kjósa að búa, sagði Íris bæjarstjóri í ávarpi sem hún flutti í Landakirkju þegar dagskrá afmælisársins lauk formlega með sameiginlegri messu kristinna safnaða í Vestmannaeyjum og glæsilegum tónleikum.

 

„Þessir einstöku tónleikar og guðsþjónusta hér í dag marka lokapunktinn á formlegum hátíðarhöldum í tilefni af því að á þessu ári eru 100 ár liðin frá því að Vestmannaeyjabær hlaut kaupstaðarréttindi,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Landakirkju við upphaf á  tónleikum og sameiginlegri messu kristinna söfnuða í Vestmannaeyjum og veislu á eftir. Um 200 manns sóttu messuna og um 150 í veisluna í Safnaðarheimilinu. Var þetta haldið sunnudaginn 25. nóvember.

 

Íris sagði allt árið hefði verið notað til að fagna þessum merka áfanga í sögu okkar. „Bærinn hefur staðið fyrir á annað hundrað menningartengdum viðburðum og hátíðum. Má þar nefna glæsilega yfirlitssýningu á ljósmyndum um sögu Vestmannaeyja, málþing um fortíð, nútíð og framtíð Eyja, fjöldbreytta listviðburði, glæsilega hátíð þann 5. júlí á Skansinum, stórtónleika fyrir bæjarbúa og áfram mætti lengi telja. Og endapunkturinn er sem sagt hér í dag.

 

Ég er viss um að næstum því allir bæjarbúar, sem vettlingi geta valdið, hafa tekið þátt í þessum viðburðum með einhverjum hætti. Flestir auðvitað sem gestir en líka ótrúlega margir sem listamenn. Það hefur raunar verið eitt það alskemmtilegasta við þessa viðburði alla, að sjá og heyra allt það framúrskarandi og skapandi listafólk sem við höfum á að skipa hér í Eyjum.

 

Afskaplega vel hefur tekist til með allt skipulag á þessum hátíðarhöldum og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka afmælisnefndinni; þeim Arnari Sigurmundsyni, Stefáni Jónasyni og Hrefnu Jónsdóttur; og þeim sem störfuðu með nefndinni: þeim Kára Bjarnasyni, Ómari Garðarssyni og Angantý Einarssyni. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir óeigingjarnt og metnarfullt starf.

 

Endapunktur og þó ekki

Ég sagði áðan að þessi viðburður hér í dag markaði ákveðinn endapunkt á formlegum hátíðarhöldum. En í öðrum skilningi er enginn slíkur endapunktur til. Við eigum stöðugt að halda minningu þeirra sem hér fóru á undan okkur hátt á lofti; menningunni og sögunni sem þeir sköpuðu; þrekraunum þeirra og afrekum. Sorgum og sigrum. Þeirra saga er okkar saga; þeirra menning er okkar menning.

 

Í gegnum þetta ár hef ég fundið að samkennd, samtakamáttur, bjartsýni, jákvæðni, dugnaður og baráttuvilji munu hér eftir sem hingað til vera lykillinn að velgengni Vestmannaeyja og þeirra sem hér kjósa að búa.

 

Ég er þakklát fyrir að hafa fæðst og alist upp hér í Eyjum og fengið að njóta þessar tímamóta.

 

Við megum vera stolt af afmælisárinu okkar, og síðast en ekki síst stolt af okkur sem Eyjamönnum,“ sagði Íris að endingu.