Viðburðir á afmælisári - Skýrsla fyrsti hluti

Skipan og störf nefndarinnar

 

Bæjarráð ákvað á fundi sínum þann 5. september 2018, að skipa sérstaka nefnd vegna 100 ára afmælis kaupstaðarréttinda Vestmannaeyjabæjar. Í nefndina voru skipuð þau Arnar Sigurmundsson, Hrefna Jónsdóttir og Stefán Óskar Jónasson. Jafnframt var ákveðið að þeir Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahússins, starfi með nefndinni. Seinna kom Ómar Garðarsson inn sem starfsmaður nefndarinnar.

 

Nefndin kom saman til fyrsta fundar þann 10. september sl. og hefur haldið alls 33 fundi frá því hún var skipuð. Meðal helstu verkefna var að móta tillögur um fyrirkomulag og viðburði í tengslum við afmælisárið.

 

Sem hluta af þeim undirbúningi fékk nefndin á fundi sína fjölda gesta úr ýmsum áttum samfélagsins, m.a. skólastjóra Grunnskóla Vestmannaeyjabæjar vegna aðkomu og þátttöku nemenda, rekstraraðila Eyjabíós vegna hugmynda um kvikmyndahátíð, fulltrúa Eyjasýnar ehf., vegna útgáfu afmælisrits, fulltrúa ET miðla (eyjar.net) vegna auglýsinga og umfjöllunar um viðburði á afmælisárinu, skólastjóra Tónlistarskólans vegna hugsanlegra stórtónleika á vegum bæjarins. Jafnframt hefur nefndin verið í sambandi við nokkra skipuleggjendur hátíða, umboðsmenn hljómsveita og fulltrúa á vegum hljóðkerfa og tæknibúnaðar, framkvæmdastjóra Kvikmyndasafns Íslands, hönnuði vegna gerð afmælismerkis bæjarins og fulltrúa Íslandspósts vegna gerð frímerkis í tilefni 100 afmælis Vestmannaeyjabæjar og fyrstu bæjarstjórnar Vestmannaeyja 14. febrúar 2019.

 

Nefndin hefur sett saman eftirfarandi hugmyndir að fjölbreyttum viðburðum vegna afmælisársins þar sem reynt er að koma til móts við sem breiðastan hóp og mismunandi áhugasvið bæjarbúa. Hugmyndirnar samanstanda af 11 viðburðum sem dreifast nokkuð jafnt yfir árið.

 

22. nóvember 2018

Á bæjarstjórnarfundi var þess minnst að 100 ár voru liðin frá því að konungur stafesti lög frá Alþingi 30. maí 1918, um kaupstaðarréttindi til handa Vestmannaeyjabæ.

 

Dagskrá afmælisársins lögð fram til samþykktar.

 

1. janúar 2019

Sýning á verkum Jóhannesar Kjarvals sem eru í eigu Vestmannaeyjabæjar var í Einarsstofu í Safnahúsinu og stóð frá kl. 13.00 til 17.00 á nýársdag. Vestmannaeyjabær á stærsta safn Kjarvalsverka á landinu fyrir utan Kjarvalsstaði, alls 30 verk. Aðsókn fór langt fram úr væntingum og er ákveðið að gera þetta að árlegum viðburði.

 

7. febrúar 2019

Var útgáfudagur Íslandspósts á frímerki í tilefni 100 ára afmælis bæjarins. Það var Eyjamaðurinn Hlynur Ólafsson sem hannaði merkið og kynnti hann það í Einarsstofu. Þar voru líka sýnd og fjallað um frímerki frá 1950 og síðar sem tengjast Vestmannaeyjum. Guðni Friðrik Gunnarsson  vann að uppsetningu sýningarinnar sem var mjög myndarleg. Jói Listó átti sér líka sess á sýningunni en hann hefur hannað frímerki í gegnum árin og lagt Hlyn lið við nokkur frímerki. Var gaman að sjá framlag þeirra til frímerkjasögu landsins.

 

Margt var við opnun sýningarinnar sem var vel sótt.

 

Jafnframt var kynnt sérstök afmælisútgáfa af merki Vestmannaeyjabæjar sem Gunnar Júlíusson hannaði. Vel heppnað og fallegt merki sem rammaði skemmtilega inn sögu Eyjanna. Merkið var prentað á fána sem blakkt hafa víða á afmælisárinu. Einnig voru prentaði borðfánar.

 

12.-19. febrúar 2019

Sýning á myndlist nemenda við Grunnskóla Vestmannaeyja úr sögu Vestmannaeyja. Sýningin var í Safnahúsinu á opnunartíma hússins. Nánast allir nemendur í fyrsta til sjöunda bekk skólans tóku þátt í sýningunni og um 30 á unglingastiginu. Öll verkin tengjast sögu Eyjanna á einhvern hátt, bæði í fortíð og nútíð. Einnig var að finna mannamyndir og ýmislegt sem tengist lífi krakkanna sjálfra. Ekki má svo gleyma fígúrunum sem þau yngstu gerðu.

 

Það voru Bjartey Gylfadóttir, Þóra Gísladóttir og Unnur Líf Ingadóttir Imsland, myndlistarkennarar sem hafa veg og vanda að sýningunni sem er einstaklega skemmtilega sett upp.

 

14. febrúar 2019

Þann fjórtánda febrúar sl. voru 100 ár frá því fyrsti fundur var  haldinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Var þess minnst með sérstökum hátíðarfundi í aðalsal Kviku menningarhúsi að viðstöddu fjölmenni. Var hann númer 1543 í röðinni og er gaman að geta þess að fundargerðir bæjarstjórnar eru til frá upphafi.

 

Fundinn sátu Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar, bæjarfulltrúarnir Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Helga Kristín Kolbeins, Trausti Hjaltason, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

 

Elís, forseti bæjarstjórnar og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri fóru yfir sögu bæjarstjórnar  og þróun byggðar í Vestmannaeyjum síðustu öldina. Lögð var fram sérstök hátíðarsamþykkt þar sem ákveðið er að halda áfram framkvæmdum við Ráðhús sem ætlað er nýtt hlutverk. Þá var sérstök hátíðarbókun vegna afmælis Kvenfélagsins Líknar sem fagnaði 110 ára afmæli þennan dag.

 

Fundurinn var vel sóttur og meðal gesta voru þingmennirnir Ásmundur Friðriksson, Páll Magnússon, Smári McCarthy, Birgir Þórarinsson, allir úr Suðurkjördæmi og Halldóra Mogensen, þingmaður Reykvíkinga.

 

Á fundinum voru sýndar 200 ljósmyndir þar sem rakin var saga Vestmannaeyja í nútíð og framtíð.

 

15. febrúar 2019

Bæjarstjórnarfundur unga fólksins var athyglisvert og þarft framtak á afmælisári. Var hann í samstarfi við Grunnskóla Vestmannaeyja. Það voru nemendur í 9. og 10. bekkjum sem brugðu sér í gerfi bæjarfulltrúa á fundinum sem var í aðalsal Kviku. Fundinn sátu Ægir Freyr Valsson forseti, Guðbjörg Sól Sindradóttir bæjarstjóri og bæjarfulltrúarnir Eva Sigurðardóttir, Svala Guðný Hauksdóttir, Lísa Guðbjörnsdóttir, Alexander Júlíusson og Hinrik Ingi Ásgrímsson.

 

Samþykktar voru ályktarnir um samgöngumál, gjaldskrá fyrir ungt fólk í flugi og gjaldskrá fyrir Vestmanneyinga í Herjólf. Umræður voru um móttöku flóttamanna í Vestmannaeyjum samþykkt tillaga um móttöku fleiri flóttamanna. Afþreying fyrir ungt fólk í Vestmannaeyjum og framboð í íþróttum var líka til umræðu. Síðast en ekki síst var það krafa um betri borð og stóla fyrir nemendur í Grunnskóla Vestmannaeyja.

 

Bæjarfulltrúarnir stóðu sig með prýði og var vel tekið af samnemendum sínum sem næstum fylltu Bíóið í Kviku.

 

17. febrúar

Var haldið opið málþing, Nútíð, fortíð og framtíð Vestmannaeyja,  tækifæri og ógnanir í bíólsal  Kviku.  Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri  setti þingið en fyrirlesarar voru fjórir.

 

Dr. Ágúst Einarsson, prófessor fyrrverandi rektor Haskólans á Bifröst kallaði erindi sitt, Samspil atvinnulífs og menningar. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar talaði um tækifærin sem liggja í ferðaþjónustunni. Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, frumkvöðull og stofnandi Protis ehf. á Sauðárkróki fór í erindi sínu yfir mikilvægi vísinda og nýsköpunar í sjávarútvegi. Ásgeir Jónsson, adjunkt við Háskólann í Reykjavík og umsjónarmaður Haftengdrar nýsköpunar greindi frá Nýsköpun og menntun í Bláa hagkerfinu og Tryggvi Hjaltason, Senior Strategist hjá CCP og formaður Hugverkaráðs, spurði: Hvernig átt þú að tryggja að Vestmannaeyjar sigri framtíðina? Málþingsstjóri var Sara Sjöfn Grettisdóttir, ritstjóri Eyjafrétta.

 

Margt athyglisvert kom fram á þinginu sem var vel sótt. Þar varð til gagnabanki sem hægt er að sækja í þegar hugsað er til framtíðar.

 

8. til 12. maí 2019

Kvikmyndahátíð á vegum bæjarfélagsins í Eyjabíói. Sýndar voru kvikmyndir, heimildamyndir og myndbrot sem tengjast  Vestmannaeyjum í nær heila öld. Hátíðin stóð  frá fimmtudegi til sunnudags.

 

Júlí

Fyrstu dagana í júlí var dreift afmælisriti í tilefni 100 ára afmælis Vestmannaeyjabæjar.  Stærð afmælisritsins var 80 bls. og var því dreift í hvert hús í bænum.  Upplag var rúmlega 2000 eintök. Í ritinu var meðal efnis ávörp, viðtöl, 100 ára annáll með ljósmyndum sem tengjast atburðum þar sem stiklað er á stóru í sögu Vestmannaeyjabæjar, þróun íbúafjölda, atvinnulífs, menningar o.fl., auk umfjöllunar um bæjarstjórn í og starfsemi bæjarstofnana. Ritstjóri var Sara Sjöfn Grettisdóttir en fjögurra manna ritnefnd var mynduð af fulltrúum afmælisnefndar og Eyjasýnar ehf. Útgáfan var samstarfsverkefni og var gengið frá samkomulagi um kostnaðarskiptingu.

 

5. júlí 2019 (föstudagur í goslokahelgi)

100 ára hátíðardagskrá á Skansinum. Stuttar hátíðarræður, tónlist, barnadagskrá o.fl. Unnið í samráði við Goslokanefnd 2019.

 

Móttaka bæjarstjórnar síðdegis í Eldheimum fyrir boðsgesti. Forseti Íslands, forsætisráðherra, o.fl. ráðherrar, alþingismenn Suðurkjördæmis, núverandi og fyrrverandi bæjarfulltrúar, bæjarstjórar og nokkrir embættismenn Vestmannaeyjabæjar, ásamt mökum.

 

Stórtónleikar í boði Vestmannaeyjabæjar kl. 20:00 - 23:00 í Íþróttamiðstöðinni (útfært nánar síðar).

 

2.-3. nóvember 2019

Safnahelgin í Eyjum. Um var að ræða lok 100 ára afmælisársins (útfært nánar síðar).  

Kynning á framkvæmdum Ráðhússins við Stakkagerðistún og gjörbreyttu hlutverki þess að loknum áfangaskiptum  framkvæmdum.   

 

Tillaga til bæjarstjórnar Vestmannaeyja fyrir sérstakan fund 22. nóvember 2018

Í framhaldi af þessari samantekt er lagt til við bæjarstjórn að ofangreind tillaga að viðburðum verði samþykkt og að gert verði ráð fyrir 22,5 m.kr. fjárveitingu vegna 100 ára afmælisins í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar 2019 til þess að undirbúa, hrinda í framkvæmd og standa undir útgjöldum vegna umræddra viðburða og annarra sem kunna að bætast við á afmælisárinu 2019.

 

Vestmannaeyjum 15. nóvember  2018

 

Arnar Sigurmundsson, Hrefna Jónsdóttir, Stefán Ó. Jónasson, Angantýr Einarsson frkvstj. stjórnsýslu og fjármála, Kári Bjarnason forstm. Safnahúss Vm.