Þjóðhátíðin 2019 er meðal þeirra bestu – ÍBV til mikils sóma:

Fóru heim með góðar minningar um einstaka helgi

 

 

Vel heppnuð þjóðhátíð er ekki sjálfgefin en þegar veðurguðirnir leggjast á sveif með ÍBV-íþróttafélagi, öðrum skipuleggjendum og gestum getur hún ekki klikkað. Það sýndi sig þetta árið þegar ekki færri en 16.000 gestir voru mættir í Herjólfsdal til að skemmta sér og öðrum. Allt gekk að óskum og gestir voru sjálfum sér og öðrum til mikils sóma. Fjölbreytt dagskrá þar sem flestir áttu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og ekki síst dásamlegt mannlíf sem alltaf blómstrar á þjóðhátíð, sama hvernig viðrar.

 

 

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með þróun hátíðarinnar síðustu ár þar sem bæjarfélagið og ÍBV-íþróttafélag hafa lagst á eitt við að gera Herjólfsdal og umhverfi hans þannig úr garði að mögulegt er að taka á móti miklum fjölda gesta. Þar við bætist skipulag sem verður betra með hverju árinu. Var gaman að sjá hvað allt gekk fljótt og vel fyrir sig.

 

 

Þeir sem vildu vera tímanlega í að fá sér armband í Dalinn gátu kíkt í Týsheimilinu eða í afgreiðslu á Herjólfsbryggju þar sem gekk líka vandræðalaust að koma farangri til farþega við komuna til Eyja. Innrukkun og umferð í Dalinn gekk vel fyrir sig. Tölvustýrða tjaldakerfið er komið til að vera og ekki að heyra óánægju með það.

 

Allt gekk vel á tjaldstæðunum og hústjöldin, ekki hvítu tjöldin, svo komið sé á framfæri athugasemd Halla Gísla verða glæsilegri og betur útbúin með hverju árinu.

 

 

Eins og alltaf er langstærsti hópur gesta að öllu leyti til fyrirmyndar, fólk vel útbúið og kurteist á allan hátt. Er það komið í þeim tilgangi einum að skemmta sjálfum sér og öðrum. Sumir bönkuðu upp á í hústjöldunum og báðu um leyfi til að kíkja inn, upplifa sanna Eyjastemningu og voru þeir boðnir velkomnir. Þáðu bita ef hann var boðinn.

 

Hvað ber hæst á þjóðhátíð? Er það setningin, veisluhöldin í og við hústjöldin? Barnadagskráin, brennan á Fjósakletti, flugeldarnir, Brekkusöngurinn, dagskráin á Stórasviðinu, fjörið í hústjöldunum eða böllin á Tjarnarsviði? Erfitt að gera upp á milli en söngvakeppni barna hitti í mark þetta árið. Í yngri flokki sigraði Dagur Sæþórsson Vídó, á sjötta ári með slíkum glæsibrag að lengi verður í minnum haft. Gæti átt eftir að láta til sín taka á Þjóðhátíð eins og pabbinn. Þess má geta að mamman, Kristín Halldórsdóttir vann keppnina á sínum tíma. Hann söng hann Þar sem hjartað slær. Á myndinni er hann með Sverri Bergmann sem söng lagið upphaflega.

 

 

Þau voru ekki síður einstök Eyjakrakkarnir sem komu fram í gerfi Hatarahópsins þar sem farið var alla leið í búningum og leikrænum tilburðum. Komu sáu og sigruðu með stæl. Þau eru Arnór Sigmarsson söngvari, Anton Ingi Eiríksson söngvari, Matthías Sigurðsson trommari, Una María Elmarsdóttir dansari og Lovísa Ingibjörg Jarlsdóttir dansari.

 

Þjóðsöngurinn snertir líka viðkvæma strengi, að heyra hátt í 20.000 manns syngja hann einum rómi með Árna Johnsen sem forsöngvara yljaði.

 

Þrátt fyrir aukna gæslu og allt sé gert til að tryggja öryggi gesta gerast hlutir sem enginn vill sjá á Þjóðhátíð en það er hluti af stærra máli sem snertir þjóðina alla.

 

Við sem nutum getum svo ekki annað en þakkað þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar. Það fóru flestir heim með góðar minningar um einstaka helgi og allt í boði ÍBV-íþróttafélags sem tók við kyndlinum af Þór og Tý fyrir rúmum 20 árum.