Dagskrá Safnahelgar 7. nóvember til 1. desember 2019:

Tónlist, myndlist, ljósmyndir, upplestur, erindi og opnun á safni

 

 

Í tilefni afmælisárs var dagskrá Safnahelgar mjög myndarleg og spannaði næstum allar helgar í nóvember og lauk ekki fyrr en 1. desember. Þar hafði veður og færð áhrif og færa varð dagskrá fram á sunnudaginn síðasta, 1. desember. Margt var í boði og góð aðsókn og gestir ánægðir með það sem fram var borið.

 

7. nóvember 2019

Lista- og menningarfélag Vestmannaeyja hóf leik á Safnahelgi með samsýningunni Í anda Júlíönu Sveinsdóttur í Einarsstofu ásamt því að félagið var með opið hús að Strandvegi 50 (Hvíta húsinu) þar sem þau eru með aðstöðu alla helgina.

 

Sýningin kom skemmtilega á óvart og sýndi þann kraft sem er í starfseminni. Tókst þeim að sýna hvað Júlíana var fjölhæf listakona, málaði, vann í textíl og gerði mósaíkmyndir. Það var fullur salur við opnunina og litu margir við á meðan sýningin var uppi.

 

Setningin var á hefðbundum stað í Stafkirkju þar sem Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss flutti tölu og sr. Viðar Stefánsson fór með bæn og hugvekju.  Guðný Tórshamar söng nokkur lög við eigin undirleik og Helga föður síns. Ekki fjölsött athöfn en hefð sem verður að halda í.

 

Föstudagur 8. nóvember

Úr safni Sigurgeirs ljósmyndara kallaðist sýning þar sem Sigurgeir frá Skuld sýndi fyrst valdar listrænar myndir og Helga Hallbergsdóttir fór yfir syrpu hans af verkefninu Hraun og menn. Loks sýndi Sigurgeir myndir úr daglega lífinu í Vestmannaeyjum sem hann hefur skráð með um 4 milljóna mynda á 70 árum. Margt fróðlegt kom fram sem sýnir fjölhæfni Sigurgeir sem ljósmyndara. Húsfyllir var í Einarsstofu.

 

Hraun og menn var samstarfsverkefni Þróunarfélags Vestmannaeyja, Vestmannaeyjabæjar, einkaaðila og myndlistarmanna á Norðurlöndunum. Hingað mættu 22  listamenn 1999 og unnu verk sem má sjá víða í bænum. Helga gerði þessu góð skil og rifjaði upp þetta merka framtak með myndum Sigurgeirs.

 

Laugardagur 9. nóvember

Það var þéttsetinn bekkurinn í Hvítasunnukirkjunni, stóra salnum þar sem Lúðrasveit Vestmannaeyja var með hátíðartónleika í tilefni af 80 ára afmælis sveitarinnar. Var sérstaklega vandað til tónleikanna í tilefni afmælisins og gestir með á nótunum eins og alltaf þegar LV blæs til leiks.

 

Saga Lúðrasveitarinnar nær allt aftur til upphafs síðustu aldar og hefur starfað í einhverri mynd að mestu óslitið síðan. Naut þessi fyrsta lúðrasveit mikilla vinsælda og spilaði á flestum útisamkomum, svo sem á Þjóðhátíð, og við önnur hátíðleg tækifæri.

 

Jarl Sigurgeirsson, sem nú stjórnar sveitinni er í hópi öflugra stjórnenda sem stýrt hafa sveitinni. Meðal þeirra eru Hallgrímur Þorsteinsson, Marteinn H. Friðriksson, Oddgeir Kristjánsson, Hjálmar Guðnason og Stefán Sigurjónsson.

 

LV leitar víða fanga í tónlistinni og er þekkt fyrir kraft og líflegan tónlistarflutning og var mikið fjör á afmælistónleikunum sem voru að vanda vel sóttir.

 

Sunnudagur 10. nóvember

Það var margt um manninn í Einarsstofu, Safnahúsi þar sem Hörður Baldvinsson, safnstjóri Sagnheima sagði frá för fimm Eyjamanna á Ólympíuleikana í Berlín 1936. Athyglisverð frásögn sem ekki hefur farið hátt.

 

Þeir sem kepptu frá Eyjum voru Sigurður Sigurðsson í hástökki og þrístökki og Karl Vilmundarson í tugþraut. Friðrik Jesson og Jón Ólafsson sýndu glímu og Þorsteinn Einarsson, glímukóngur, methafi í kúluvarpi, formaður íþróttaráðs Vestmannaeyja og síðar íþróttafulltrúi ríkisins var fararstjóri hópsins.

 

Hörður hefur lagt mikla vinnu í að rekja sögu hópsins og hefur notið góðrar aðstoðar afkomenda Berlínarfaranna sem þarna lifðu sennilega stærsta ævintýri lífs síns.

 

 Á eftir var opnuð sýning í Sagnheimum á myndum og fleiru sem tengist Berlínaförinni og kom á óvart hvað mikið er til. Hún er ennþá uppi og þar er að finna myndir, frásagnir, verðlaunapeninga og margt fleira sem tengist þessum stóra atburði í íþróttasögu Íslands og ekki síður Vestmannaeyja sem áttu tvo af fjórum keppendum á leikunum í frjálsum íþróttum og tvo í hópi glímumanna.

 

Það eitt er staðfesting á að íþróttir í Vestmannaeyjum standa á gömlum merg.

 

Föstudagur 15. nóvember

Var í Einarsstofu ein sýningin í röðinni, Í gegnum ljósopið mitt sem var sú tíunda. Þar sýndu Jói Myndó, Sigmar Pálmason (Bói Pálma) og Halldór Sveinsson. Frábær sýning og vel mætt.

 

Um kvöldið í Eldheimum kynnti Halldór Einarsson (Henson) nýja bók sína, Stöngin út. Í bókinni lítur Halldór, sem var hér á sumrum sem unglingur, yfir litríkan feril sem einkennst hefur af miklum sveiflum og stórkostlegum ævintýrum í viðskiptum og knattspyrnu, hérlendis og erlendis.

 

Arnór og Helga hituðu upp með fáeinum þekktum perlum síðustu aldar.


Aðsókn hefði mátt vera meira en Halldór náði upp góðri stemmningu eins og honum er lagið.

 

Laugardagur 16. nóvember

Þennan dag var mikið um að vera í Einarsstofu, Safnahúsi. Sigurgeir Jónsson kynnti nýja bók og sýndar voru teikningar Sunnu Einarsdóttur sem myndskreytti bókina. Tónlistaratriði var á vegum Tónlistarskóla Vestmannaeyja.

 

„Munaðarlausa stúlkan er eitt af þessum gömlu góðu íslensku ævintýrum þar sem góðsemi og velvild er umbunað í lokin. Fallegur boðskapur sem á alltaf erindi við okkur,“ segir á baksíðu bókar sem Hólar gefa út og kom út fyrir skömmu. Sigurgeir Jónsson, kennari og blaðamaður með meiru skráir söguna og Sunna Einarsdóttir, 15 ára Eyjasnót myndskreytir. Þó einhverjir áratugir séu á milli þeirra í aldri hafa Sigurgeir og Sunna náð vel saman í gerð bókarinnar. Textinn rennur ljúflega og boðskapurinn er skýr og myndirnar falla einstaklega vel að sögunni.

 

Afabarn Sigurgeirs, Lovísa Ingibjörg Jarlsdóttir 9 ára blés af glæsibrag á saxófón og Daníel Franz söng og spilaði á gítar. Notaleg byrjun á laugardegi, að mæta í Einarsstofu.

 

Á eftir á sama stað voru fluttir tveir mjög athyglisverðir fyrirlestrar. Fyrst var það Ragnar Jónsson á Látrum sem fjallaði um um spíramálið í Vestmannaeyjum á þjóðhátíð 1943 þegar níu manns létust eftir að hafa drukkið trésíritus sem var í tunnu sem fannst á reki.

 

„Ég hef um nokkurra ára skeið aflað heimilda um þennan atburð og  m.a. tekið viðtöl við á annan tug Vestmannaeyinga, sem enn mundu þennan atburð og gátu sagt frá sinni upplifun, þó langt væri um liðið. Í fyrirlestrinum fór ég yfir atburðarrásina og hvernig fólk brást við þessum hörmulega atburði,“ sagði  Ragnar sem er læknir og sonur Jóns og Klöru á Látrum um fyrirlesturinn.

 

Þá tók Ragnar Óskarsson við og fjallaði um Sigríðarslysið  í febrúar 1928. Þá rak vélbátinn Sigríði VE að landi við Ofanleitishamar í stórviðri sem þá geisaði. Brotnaði hann í spón en áhöfnin komst á sillu í berginu. Verður afreks Jóns Vigfússonar í Holti, vélstjóra bátsins lengi minnst en hann kleif Ofanleitishamarinn við afar erfiðar aðstæður, gekk til byggða eftir hjálp til bjargar fjórum skipsfélögum sínum. Þá var einnig fjallað um mannskaða á sjó við Eyjar á árunum 1920  til 1930.

 

Þennan dag í húsnæði Sea Life Trust kynnti  Ásrún Magnúsdóttir kynnir og les upp úr nýrri bók sinni Ævintýri Munda lunda.

 

Sunnudagur 17. nóvember

Náttúrugripasafnið við Heiðarveg. Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs opnaði safnið á sínum gamla stað og sýningu á munum safnsins, fugla- og steinasafni, og Hörður Baldvinsson fjallaði um sögu safnsins. Djúpið, þar sem áður var Fiskasafnið var opnað með sýningunni Fast þeir sóttu sjóinn.

 

Um þetta sagði Hörður: „Forsagan er sú að það er hringt í mig og ég var spurður að því hvort ég sæi einhverja lausn á að geyma munina sem voru á gamla Náttúrugripasafninu við Heiðarveg, fugla- og steinasafninð. Hvort það gæti verið staður fyrir þá hér í Sagnheimum, en því miður er hér ekkert pláss fyrir svona mikið af munum og þetta var besta lausnin að hafa Náttúrugripasafnið á sínum gamla stað sem verði vonandi tímabundið.“

 

Hörður gerði grein fyrir framkvæmdum og þakkaði þeim sem lögðu honum lið, ekki síst Ágústu Friðriksdóttur Jessonar sem kom safninu á fót og manni hennar Kristjáni Egilssyni.

 

Húsfyllir var við opnunina og komust færri inni Djúpið en vildu á meðan athöfnin fór fram. Lýsti fólk ánægju sinni með þessa niðurstöðu.

 

Sunnudagur 1. desember  

Var slegið upp dagskrá Safnahelgar sem vera átti í Einarsstofu laugardaginn 9. nóvember. Hún hófst með súpu í boði Söguseturs 1627 í Einarsstofu, Safnahúsi. Bjarni Harðarson skrifaði undir samning við Sögusetur 1627 um útgáfu á Reisubók sr. Ólafs Egilssonar.

 

Bjarni Harðarson kynnti nýjar bækur hjá Sæmundarútgáfunni og Guðjón Ragnar Jónasson las úr nýrri bók sinni, Kindsögur.

 

Seinna sama dag fjallaði Guðrún Bergmann um 5 einfaldar leiðir til að bæta heilsuna og kynnti nýjustu bók sína BETRA LÍF fyrir konur á besta aldri.

 

Var aðsókn ágæt.