Sjómannadagurinn haldinn með glæsibrag

 

Dagskrá Sjómannadagsins, sem haldinn var hátíðlegur fyrstu helgina í júní var að venju fjölbreytt og skemmtileg. Má segja að hátíðin standi í fjóra daga, frá fimmtudagskvöldi með tónleikum og lýkur á sunnudag.

 

Á föstudeginum reyndu sjómenn fyrir sér í golfi á Opna Ísfélagsmótinu og um kvöldið mætti Skonrokk með sína árlegu tónleika í Höllinni.

 

Á laugardeginum var byrjað með dorgveiðikeppni Sjóve og Jötuns á Nausthamarsbryggju. Aðalskemmtunin var á Vigtartorgi þar sem séra Viðar Stefánsson byrjaði á að blessa daginn. Næst kom kappróður, koddaslagur, lokahlaup og Sjómannaþraut, Foosball völlur var á staðnum, þurrkoddaslagur fyrir krakkana og fjarstýrðir bátar í stórri laug.

 

Um kvöldið var hátíðarsamkoma Sjómannadagsráðs í Höllinni sem fór allan hátt mjög vel fram.  

 

Sjómannadagurinn, hófst með Sjómannamessu og að henni lokinni var minningarathöfn við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra. Sjómannadagskaffi Eykyndilskvenna var að þessu sinni í Akóges. Hátíðardagskrá á Stakkó var hefðbundin. Snorri Óskarsson heiðraði aldna sægarpa. Lúðrasveitin og Karlakórinn sáu um tónlist og ræðumaður dagsins var baráttukonan Heiðveig María Einarsdóttir.

 

 

 

Veitt voru verðlaun fyrir kappróður, koddaslag, lokahlaup, sjómannaþraut, dorgveiðimót og Sjómannamótið í Golfi.

 

 

 

Allt fór vel fram og fylgdist fjöldi manns með dagskránni.