Einstæðir tónleikar og sameiginleg messa í Landakirkju

 

„Við erum mjög ánægðir með að afmælisnefndin vilji ljúka formlegri afmælisdagskrá með þessum hætti og það gleður okkur að kirkjan taki þátt í afmælisfögnuðinum,“ sagði Viðar Stefánsson, prestur Landakirkju um sameiginlega messu kristinna safnaða og tónleika með landsþekktu listafólki í Landakirkju  sunnudaginn 1. desember.

 

„Kirkjan hefur svo sannarlega átt sinn sess í sögu Vestmannaeyja og á enn. Kirkjulíf hér í Eyjum hefur verið fjölskrúðugt í gegnum tíðina og söfnuðir komið og farið. Kristur stendur þó alltaf upp úr í gegnum bárur, brim og voðasker og því er verðugt að fela sögu okkar, nútíð og framtíð í hans hendur,“ sagði Viðar einnig.

 

 

„Þetta hefur ekki verið gert hér áður en í sumar skiptumst við á um að halda messur, einu sinni í Landakirkju og einu sinni hjá okkur. Var það gert til að fá fleira fólk og tókst vel,“ segir Guðni Hjálmarsson prestur Hvítasunnukirkjunnar.

 

„Þetta verður öðru vísi núna, stór messa þar sem Þjóðkirkjan, Hvítasunnukirkjan og Kaþólska kirkjan slá saman. Mikill söngur þar sem gestir koma fram með okkar fólki. Það verður lesið upp úr Guðspjallinu,  beðið fyrir framtíðinni  og þakkað fyrir það sem er gott og beðið um vernd og varðveislu,“ bætti Guðni við.

 

Kaþólski presturinn, sem er sr. Denis O´Leary hefur búið á Íslandi í 30 ár og hefur messað hér reglulega. Hann er fæddur í Cork í suður Írlandi 1961 og ólst upp með foreldrum sínum og tveimur systkinum. Hann tók stúdentspróf í Cork 1978 og 1982 hóf hann prestsnám í St. Patrick´s College Thurles, Tipperary.  Eftir prestvígsluna 1988 starfaði hann einn vetur sem aðstóðarprestur í Cork og vorið 1989 flutti hann alfarið til Íslands. 

 

Hann gerði sér strax far um að komast inn í íslenskt samfélag. Sótti námskeið við HÍ í íslensku fyrir erlenda stúdenta sem tók þrjú ár og þá varð hann sóknarprestur í Maríukirkju í Seljahverfinu og er ennþá þar.

 

 

Allt Suðurlandið austur að Skeiðarársandi er hluti af Maríusókninni. Þess vegna fer reglulega prestur frá Maríukirkju til að lesa messu víðar á Suðurlandi, meðal annars í Landakirkju.  Í Vestmannaeyjum í dag eru um 90 manns sem tilheyra kaþólsku kirkjunni. Hann mætir og tekur þátt í messunni á sunnudaginn.

 

 

Dagskráin hefst  stundvíslega kl. 13:00 með tónleikum þar sem fram koma söngvararnir Gissur Páll, Hera Björk og gítarleikarinn Björn Thoroddsen.

 

Að loknum tónleikum hófst sameiginleg messa kristinna safnaða í Vestmannaeyjum. Hún byrjaði með því að Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri flutti ávarp. Í messunni þjónuðu Guðmundur Örn Jónsson og Viðar Stefánsson, prestar Landakirkju, Guðni Hjálmarsson, prestur Hvítasunnukirkjunnar og Sr. Denis O´Leary, prestur Kaþólsku kirkjunnar og Eric Guðmundsson prestur Aðventista. Mikill söngur var í messunni þar sem Gissur Páll, Hera Björk og Björn komu fram og Kór Landakirkju og Lofgjörðarsveit Hvítasunnukirkjunnar.

 

 

Um var að ræða lokaviðburð í tilefni af 100 ára afmæli kaupstaðarréttinda Vestmannaeyjabæjar. Að lokinni dagskrá um kl. 14:30 býður bærinn samkomugestum til kaffisamsætis í Safnaðarheimili Landakirkju.

 

100 ára afmælisnefnd kaupstaðarréttinda Vestmannaeyjabæjar.