Hin hliðin á Sigurgeir ljósmyndara í Einarsstofu
„Ég sýni mjög afmarkaðar myndir sem virkar ekki mjög áhugavert þegar maður segir það, en í þeim legg ég áherslu á fjöru- og sjávargróður. Það sýnist kannski ekki mjög spennandi en þarna er ég að sýna að ljósmynd er ekki bara ljósmynd,“ sagði Sigurgeir Jónasson, ljósmyndari sem sýndi í Einarsstofu föstudaginn 8. nóvember. Sýningin var hluti af Safnahelgi og sýningarröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt. Þarna skoðaði Sigurgeir það smáa í náttúrunni og einbeitir sér að fjörunni. Þær hafa orðið til á löngu tíma en ferill Sigurgeirs sem ljósmyndara spannar heil 70 ár.
„Mig langar að benda fólki á að það sem það sér sem fallegt er eitthvað meira og að fram komi hvernig náttúran varð til. Það er ljósmyndarans að höfða til áhorfandans þannig að honum finnist hún einhvers virði og sé falleg,“ sagði Sigurgeir um þetta hugðarefni sitt. Og það þarf margt að haldast í hendur til að dæmið gangi upp og myndin verði eins og hann vill að hún verði.
„Fjara er ekki bara fjara og það er að ýmsu að huga áður en lagt er af stað. Vandamálið sem maður stendur frammi fyrir er að myndefnið sé til staðar, birtuskilyrði eins og maður vill hafa þau. Það þarf að gerast á bláfjöru og við þau skilyrði að myndefnið skili sér sem best. Að vera á réttum stað og á réttum tíma eins og sagt er,“ sagði Sigurgeir.