Katarzyna með sína sýn á Vestmannaeyjar
Hún heitir Katarzyna Żukow-Tapioles og tók þátt í tólftu sýningunni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt í Einarsstofu á laugardaginn 31. nóvember klukkan 13.00. Hún er pólsk, sálfræðingur með taugavísindi sem sérgrein þar sem heilinn er viðfangsefnið. Hún býr hér með dóttur og eiginmanni og kom til Vestmannaeyja í leit að betra lífi. Er með ástríðu fyrir ljósmyndun og er til í að leggja mikið á sig til að ná því sem heillar hana í gegnum linsuna. Katarzynu þótti heiður að fá að taka þátt í sýningunni og hlakkaði til laugardagsins, að fá tækifæri til að deila þeirri sýn sem hún hefur á Vestmannaeyjar með Eyjafólki.
Katarzyna kemur frá Kielce í Póllandi en bjó í Varsjá í átta ár þar sem hún stundaði nám og vinnu. Héðan kemur hún frá Spáni þar sem hún bjó með þarlendum manni sínum í tvö ár en draumalandið var Ísland og hingað komu þau 29. mars á þessu ári. Í dag vinnur hún hjá Grími kokk og maðurinn hennar eldar á Gott. „Ég vann mikið með námi því ég var í einkaskóla og skólagjöldin voru há,“ sagði Katarzyna sem lauk námi með glæsibrag. Að því loknu flutti hún til Spánar með manni sínum, Rubén sem er Spánverji og þar bjuggu þau í tvö ár ásamt dótturinni Kaiu. „Ég byrjaði á Gott en flutti mig svo yfir til Gríms en Rubén, sem er kokkur að mennt hefur unnið á Gott frá því við komum hingað.“
Úr sælunni á Spáni
Þau fluttu til Vestmannaeyja í leit að betra lífi og meira öryggi. Sagði hún að mörgum þyki það skrýtið hér á landi, að flytja úr sælunni á Spáni til Íslands. „Við höfum ekki orðið fyrir vonbrigðum, finnst dásamlegt að búa hérna og ekki síst með börn. Okkur hefur verið vel tekið og hér er allt til alls. Við ætluðum að vera hérna í sumar og flytja til Reykjavíkur en okkur líkar það vel við ætlum að búa hér áfram. Næsta skref hjá mér er að ná tökum á íslenskunni og þá get ég farið að leita að vinnu sem tengist námi mínu.“
Katarzyna sagðist hafa tekið myndir í 15 ár og tók þá mest myndir af fólki sem hún þekkir. Hún flaggar ekki dýrri myndavél en hún er mjög ánægð með linsu sem hún krækti í fyrir ekki svo löngu. „Ég á Canon vél, 400 D sem er svolítið gömul en linsan hefur breytt miklu. Er 50 mm föst linsa en með stóru ljósopi. Myndirnar sem ég sýni eru allar teknar hér í Vestmannaeyjum. Landslag, fólk og fjaran og fjörugróðurinn heillar. Það sem vantar hjá mér eru myndir af lunda og norðurljósum,“ sagði Katarzyna að lokum hlæjandi.
Var gaman að sjá þá öðru sýn sem hún hefur á Vestmannaeyjar en þau sem áður leyfðu okkur að kíkja í gegnum ljósopið sitt. Var ekki síður gaman að sjá hvernig hún upplifir Eyjarnar og sér fegurðina í því hversdagslega.