Sif í Geisla sýndi í Einarsstofu á laugardeginum 5. október:
Að fanga augnablikið inn í eilífðina
Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt heldur áfram. Laugardaginn, 5. október kl. 13.00 mættu Ísleifur Arnar Vignisson, betur þekktur sem Addi í London og Sif Sigtryggsdóttir, Sif í Geisla. Sif á sér bakgrunn í listnámi og þá fyrst fór hún að nýta þá möguleika sem myndavélin og síðar síminn hefur upp á að bjóða í listrænni ljósmyndun. Þetta er fyrsta sýning Sifjar sem fram til þessa hefur helst komið sér á framfæri á Instagram þar sem myndir hennar hafa vakið athygli.
„Ég er úr Reykjavík. Fædd þar og uppalin en bjó á Seltjarnarnesinu lengi og kenni mig við það en er annars Reykjavíkurmær úr Kvennaskólanum,“ sagði Sif Sigtryggsdóttir þegar hún var spurð um uppruna sinn. Hún gaf Eyjafólki tækifæri á að kíkja á ljósmyndir sínar í Einarsstofu kl. 13.00 á laugardeginum.
„Já, Kvennaskólapía,“ hélt hún áfram. „Vann í Ellingsen í mjög mörg ár þar sem pabbi var skrifstofustjóri. Þannig að ég ólst upp við sjávarútveg og var verslunardama frá fæðingu,“ sagði Sif og hló sínum smitandi hlátri.
„Ég fór í burðarrúmi inn í Ellingssen og vann þar hin ýmsu störf en um þrítugt sagði ég; nú er ég hætt og ætla ekki að koma aftur. Fór í Myndlistar- og handíðarskólann þar sem ég var í fjögur ár, í textílsdeildinni. Eftir skólann lá leiðin þó áfram í verslunargeirann, fyrst Byggt og búið. Var verslunarstjóri þar og svo í Ormsson í Smáralind. Þar var ég í átta ár áður en ég flyt hingað. Núna er ég í Geisla og það má kannski segja að ég sé listræn verslunardama.“
Árin í Eyjum orðin níu
Til Eyja elti hún eiginmanninn, Snorra Þór Guðmundsson stýrimanni á Bergey VE. Og hún ætlaði ekki að staldra lengi við. „Ég ætlaði að vera hér í eitt ár. Það var loforð sem ég gaf vinum og fjölskyldu en þau eru orðin níu árin í Eyjum þannig að ég er margbúin að svíkja þau loforð. Ég nýt lífsins, á marga góða vini og elska að ferðast og taka myndir. Sérstaklega af landinu okkar sem er svo einstaklega fallegt,“ sagði Sif sem hafði fréttir að færa af eiginmanninum þegar rætt var við hana á þriðjudaginn.
„Hann er í þessum töluðu orðum að taka á móti nýrri Bergey úti í Noregi. Búið að draga upp flaggið og þeir leggja í hann í fyrramálið ef allt gengur upp. “
Lífið í römmum
Hvenær byrjaðir þú að taka myndir? „Ég hef í rauninni alltaf verið að taka myndir eða frá því ég man eftir mér. Tók myndir af fólki og því sem fyrir augu bar. Það var svo í Myndlistar- og handíðaskólanum sem ég fer meira í að taka myndir af náttúrunni. Sé þessa ramma. Sé lífið í þessum litlu römmum og þetta gerist á árunum 1993 til 1994. Fyrst var þetta meira fyrir sjálfa mig en með tilkomu myndsímanna og Instagram fer maður að sýna það sem maður er að gera og fær viðbrögð. Ég er kannski of hógvær að koma mér á framfæri í listinni. Er feimin þó ég líti ekki út fyrir að vera það. Þess vegna er Instagram ágætur vettvangur til að sýna hvað í manni býr.
Þakklát fyrir tækifærið
Þetta er orðinn ansi þykkur bunki af myndum og það er pínu mál að finna ljósmyndir á sýninguna. Finna út stærðina á myndunum en þetta er mjög góð leið til að sparka í rassinn á manni að skipuleggja myndabankann og vinna aðeins meira í honum. Það var mjög hvetjandi að fá þessa áskorun frá ykkur og ég er mjög þakklát.“
Sif sagði ekkert sérstakt þema á sýningunni. „Nei. Þetta verður bara sýnishorn af því sem fangað hefur augað mitt. Það sem ég sé, er þemað. Í listanáminu sögðu þau; taktu eftir því sem grípur þig og haltu því til haga. Það hefur farið inn í myndirnar mínar. Alltaf þegar ég sé eitthvað sem fangar athyglina, tek ég upp símann og tek mynd. Maður hlustar á innsæið og hleypur ekki fram hjá því sem hrífur mann. Heldur fangar það inn í eilífðina,“ sagði Sif að endingu.
Myndir hennar eru mikið náttúrstemningar þar sem sjónarhornið er annað hvort vítt eða beinist að því smáa. Allt rammar sem hún Sif sér á sinn hátt sem gerir myndir hennar svo skemmtilegar.