Halldór Sveinsson sýndi í Einarsstofu á föstudaginn:

Eitthvað af myndunum áttu eftir að koma á óvart

 

 

„Ég var tiltölulega ungur þegar ég byrjaði að taka myndir en smitaðist fyrst alvarlega af ljósmyndadellunni eftir að maður kynntist Sigurgeir í Skuld úti í Álsey,“ segir Halldór Sveinsson, lögregluvarðstjóri sem var einn þriggja sem sýndu í Einarsstofu föstudaginn 15. nóvember. Var þetta tíunda sýningin í sýningarröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt. 

 

„Stundum segi ég, ef ég á ekki mynd af því þá man ég ekki eftir því,“ sagði Halldór og hló. „Ég mynda allan fjárann og mest hér í Eyjum. Fólk, landslag, fjölskylduna, viðburði og það sem er á döfinni hverju sinni.“

 

 

Halldór segist hafa keypt sína fyrstu alvöru vél árið  1976. „Þokkalega góða vél og fer svo yfir í stafrænt 2002. Ágætis vél en ekkert miðað við það sem þekkist í dag. Nú er ég með mjög góða vél og linsur en það er endalaust hægt að bæta við í myndavélasafnið ef maður vill.“

 

Halldór ætlaði að sýna bæði gamlar og nýjar myndir. „Ég hef verið að flokka og raða myndum upp eftir árstíðum og tína saman það sem ég ætla að sýna. Það er fínt en það er mikil vinna að fara yfir allt safnið. Ég þurfti að gera þetta hvort sem var og  gott þegar ýtt er við manni.

 

 

Það er líka gaman að fá þetta tækifæri til að sýna hluta af því sem maður hefur verið að gera með ljósmyndavélina. Kannski of mikið að tala um hluta af safninu því þetta er aðeins lítið brot sem þarna kemur fram. Ég veit að eitthvað af myndunum mínum eiga eftir að koma á óvart og vonandi verður fólk ánægt,“ sagði Halldór að endingu.