Jói Myndó lofaði skemmtilegri sýningu

 

 

Jóhannes Helgi Jensson, Jói Myndó er yngstur ljósmyndaranna sem tóku þátt í sýningaröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt, sem var í tíunda skiptið í Einarsstofu á föstudaginn 15. nóvember. Með honum voru Halldór Sveinsson lögregluvarðstjóri og Sigmar (Bói) Pálmason.  Hann byrjaði fyrir alvöru að taka myndir árið 2017 en hefur þegar vakið mikla athygli og hélt sína fyrstu sýningu fyrr á þessu ári.

 

Jói Myndó eins og hann kallar sig stendur undir nafni og vel það. „Ég er Eyjamaður í botn og mikill Bjarnareyingur. Fæddur 11. 11. 2000, ég er því afmælisbarn dagsins,“ sagði Jói þegar rætt var við hann á þriðjudaginn.

 

 

Jói vinnur hjá Flugfélaginu Erni á Vestmannaeyjaflugvelli og fyrir utan ljósmyndun eru kraftlyftingar hans helsta áhugamál. „Ég byrjaði 12 eða 13 ára að fara í ræktina með bróður mínum og heillaðist strax af kraftlyftingum. Er að ná þokkalegum árangri, á 190 kg. í hnébeygjulyftu, 300 kg. í réttstöðulyftu og 140 kg. í bekk.“

 

Það er ekki margt líkt með kraftlyftingum og ljósmyndum en hvoru tveggja gerir miklar kröfur og þar gefur Jói ekkert eftir. „Ég var stundum að taka myndir á símann en allt byrjaði þetta fyrir alvöru með Tóa Vídó sem sagði við mig: „Nú færðu þér almennilega myndavél.“ Þá fyrst fann ég mig í því að taka myndir. Áhuginn var til staðar frá því þegar ég var lítill en þetta var árið 2017 og þá fór boltinn að rúlla.“

 

 

Jói er með Nikon D 50 vél, 70 x 300 mm linsu og aðra 50 mm fasta.

 

Jói segir að Tói hafi kennt sér mikið og geri enn. „Ég kalla hann pabba númer tvö. Tói tekur frábærar myndir og ég reyni að gera mitt besta. Landslagið og náttúran heilla og svo Norðurljósin sem hafa mikið látið sjá sig í haust. Líka er gaman að mynda þessa gömlu karla á trillunum þegar þeir eru að koma í land. Ég leyfi þeim að vera eins og þeir eru og þannig koma þeir best út.“

 

Jói gerir landslagi góð skil á sýningunni. „Ég verð líka með myndir úr mannlífinu. Ég vonast svo til að sjá sem flesta á föstudaginn í Einarsstofu kl. 17.00 og ég lofa skemmtlegri sýningu,“ sagði Jói að lokum.