100 ára afmæli Vestmannaeyjabæjar
Fjölbreytt og skemmtileg sýning grunnskólanema í Einarsstofu
Í vor var opnuð sýning í Einarsstofu á verkum flestallra nemenda í Grunnskóla Vestmannaeyja þar sem efnið er sótt í sögu Eyjanna. Mikið fjölmenni var við opnun sýningarinnar sem er með þeim skemmtilegri sem sett hefur verið upp í Einarsstofu. Efnistök mismunandi og fjölbreytni mikil og var með góðri samvisku hægt að hvetja fólk til að kíkja við.
Myndlist er skylda frá fyrsta upp í sjöunda bekk grunnskóla og eftir það er hún val hjá krökkunum. Tilefni sýningarinnar var að skólinn tæki þátt í að minnast 100 ára afmælis Vestmannaeyja. Og vel tókst til og er sýningin skólanum til mikils sóma.
Nánast allir nemendur í fyrsta til sjöunda bekk skólans tóku þátt í sýningunni og um 30 á unglingastiginu. Öll verkin tengjast sögu Eyjanna á einhvern hátt, bæði í fortíð og nútíð. Einnig var að finna mannamyndir og ýmislegt sem tengist lífi krakkanna sjálfra. Ekki má svo gleyma fígúrunum sem þau yngstu hafa gerðu.
Það voru Bjartey Gylfadóttir, Þóra Gísladóttir og Unnur Líf Ingadóttir Ímsland, myndlistarkennarar sem hafa veg og vanda að sýningunni sem er einstaklega skemmtilega sett upp.
Hver bekkur er með sitt þema.
Fyrsti bekkur: Húsin í bænum.
Annar bekkur: Þrettándatröll.
Þriðji bekkur. Þjóðhátíð.
Fjórði bekkur: Eyjafólk.
Fimmti bekkur: Lundinn og lundapysjur.
Sjötti bekkur: Eldgosin.
Sjöundi bekkur: Tyrkjaránið.
Áttundi til tíundi bekkur: Sjómennska.