Mikill áhugi á fjölþættri heilsueflingu 65+
Fullt var út úr dyrum í sal Framhaldsskólans í gær þar sem kynnt var fjölþætt heilsuefling 65+ í Vestmannaeyjum. Markmiðið er að gera fólk hæfara til að takast á við breytingar sem fylgja hækkandi aldri. Bæði með hreyfingu og hollu mataræði.
Dr. Janus Guðlaugsson, sem hefur í mörg ár haft forgöngu um leiðir til að bæta heilsu eldra fólks kynnti verkefnið. Vill hann fá 50 til 80 manns í Eyjum til þátttöku í markvissum þol- og styrktaræfingum. Auk ráðgjafar um holla næringu og aðra heilsueflandi þætti sem gerir fólki kleift að spyrna við fótum gegn öldrunareinkennum samhliða því að bæta heilsu þína og lífsgæði. Verkefnið hefst með heilsufarsmælingum sem eru endurteknar á 6 mánaða fresti.
Verkefnið hefur verið í gangi í Reykjanesbæ og Hafnarfirði og hefur skilað árangri. Sagði Janus að hver króna sem færi til forvarna skilaði sér margfalt í bættri heilsu og minni kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið.
Janus hefur stofnað fyrirtækið Janus heilsuefling í kringum starfsemina og er hann í samstarfi við Vestmannaeyjabæ, Hressó og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Erlingur Richardsson og Ólöf Aðalheiður Elíasdóttir sjá um framkvæmdina hér og þátttakendur geta nýtt Litla Hressó í Íþróttamiðstöðinni til æfinga gegn vægu gjaldi.
Hægt var að sækja um þátttöku á fundinum og líka á: www.janusheilsuefling.is/skraning