Hrefna Díana í Einarsstofu – Þrettándinn í máli og myndum

 

 

Á síðasta ári luku Sighvatur Jónsson, Geir Reynisson og Hrefna Díana Viðarsdóttir við heimildarmynd um þrettándagleðina í Eyjum sem var frumsýnd 27. desember 2019. Hrefna Dína hélt fyrirlestur í Einarsstofu skömmu áður sem hún byggði á lokaritgerð sinni í þjóðfræði haustið 2012 um þrettándahátíðina í Vestmannaeyjum. Auk þess sagði hún frá myndinni sem var í lokavinnslu og sýndi búta úr myndinni.

Fyrirlesturinn var vel sóttur og kom margt athyglisvert fram hjá henni. Meðal annars tengingar við hátíðir í Evrópu og að þrettándagleðin átti sér fyrirmynd frá fyrstu áratugum 20. aldar þegar hópar gengu á milli húsa í furðubúningum og með blys.

Eldur læti og og forynjur

„Ég var alveg heilluð af hátíðinni og hvernig er annað hægt þegar myrkur, eldur, læti og forynjur fylla mann af gleði og ótta. Ritgerðin heitir „Maður bíður meira eftir þrettándanum en eftir jólunum!“ Form, hlutverk og þróun þrettándans í Vestmannaeyjum,“ segir Hrefna um fyrirlesturinn og kynningu á myndinni sem sýnd var á RÚV í janúar.

 

 

„Í fyrirlestrinum langar mig að segja ykkur frá því sem ég lærði þegar ég rannsakaði leið Eyjamanna til að fagna þrettándanum frá 1948 til 2012. Ég segi frá gömlum hefðum Vestmannaeyinga og Evrópubúa um blysfarir, dulbúninga- og heimsóknarsiði og hvort tengja megi þrettándagleðina við það.

 

 

Ég greini frá því hvernig þrettándagleðin hefur þróast í áranna rás. Svo geri ég tilraun til að skýra af hverju þessi hefð lifir og hvað hún gerir fyrir samfélagið og fyrir hópinn sem gerir þrettándagleðina að raunveruleika.

 

Þetta verður sem sagt smá nördaskapur í bland við ýmsan fróðleik um stolt Eyjamanna.


Þar að auki mun ég auðvitað kynna hina dásamlegu heimildarmynd okkar Sighvats Jónssonar og Geirs Reynissonar, Þrettándinn – heimildarmynd um þrettándagleðina í Eyjum,“ segir Hrefna sem er Eyjakona.

 

Alin upp á skyri, fiski og lýsi

„Ég er fædd í Vestmannaeyjum sumarið 1978 og var ein af sirka 20 börnum sem voru skírð á annan í jólum það ár í Landakirkju. Það var ekki auðveldur burður í skírnarröðinni fyrir foreldra mína. Ég var vel í holdum enda þá löngu farin að borða skyr og stappaðan fisk með lýsi.

 

Ég hef verið búsett í Innri-Njarðvík undanfarin 14 ár en það er enn gott að koma heim til Eyja. Ég er svo heppin að eiga enn svefnpláss á æskuheimilinu hjá pabba mínum honum Viðari Guðmundssyni frá Lyngbergi og stjúpmóður minni henni Láru Laufeyju Emilsdóttur.“

 

Hvað ertu að gera núna? „Fyrir utan það að ég og eiginmaður minn erum í fyrirtækjarekstri á sviði byggingariðnaðar og bókhalds, þá erum við Sighvatur Jónsson og Geir Reynisson að leggja lokahönd á heimildarmynd um þrettándagleðina í Eyjum, en hún verður frumsýnd núna 27. desember næstkomandi,“ sagði Hrefna sem endingju sagðist hlakka til og vonast til að sjá sem flesta í Einarsstofu á laugardaginn.