Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt:

Helgi Tórzhamar – Drottinn leiðir bataferlið

 

 

Helgi Rasmussen Tórzhamar, tónlistarmaður og háseti á Herjólfi segist alltaf hafa verið með myndavéladellu og byrjaði snemma að taka myndir. Eyddi líka tímanum í að skoða myndir annarra en það var ekki fyrr en 2012 sem hann tekur til við að taka myndir fyrir alvöru. Þá urðu mikil tímamót í lífi hans. Helgi sýndi myndir á áttundu sýningunni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt á laugardeginum 2. nóvember kl. 13.00 í Einarsstofu. Með honum var Ólafur Lárusson, kennari með meiru.

 


 

 „Já. Það var árið 2012 sem ég hætti að drekka og gerði Drottinn að leiðtoga lífs míns. Á þeim tíma átti ég þokkalega vél en nú var ástríðan vöknuð. Ég kaupi mér alvöru myndavél og fékk Bjarna Þór til að aðstoða mig. Á ég honum mikið að þakka. Trúin er mín stoð í baráttunni og það hjálpar líka að eiga sér tómstundagaman eins og ljósmyndun,“ sagði Helgi og það sama eigi við um tónlistina.

 

 

Hann segist eiga Bjarna Þór mikið að þakka því hann hafi kennt honum undirstöðuatriðin í ljósmyndun og hvatt sig til dáða. „Hann var duglegur að kenna mér og þolinmóður. Er ég honum ævinlega þakklátur fyrir það. Ég keypti mér Canon 5 D Mark 2 vél á þessum tíma. Átti hana í nokkur ár en er búinn að uppfæra vélakostinn og er með Canon 6 D Mark 2. Ég á líka speglalausa Canon R sem gaman er að leika sér með. Ég keypti líka dróna með myndavél sem gefur aukna möguleika og ég hef notað þó nokkuð. Þá er ég að leika mér með gamlar filmuvélar og framkalla og stækka, allt í svart-hvítu.“

 

 

Fín blanda

Helgi er greindur ofvirkur og með athyglisbrest sem hann segir fína blöndu þegar kemur að sköpun. Er ekkert bíða þegar honum dettur eitthvað í hug. „Mér getur dottið í hug að fara upp á Eldfell og þá geri ég það strax. Tek myndavélina með og mynda það sem ég sé. Það er líka gott að geta snúið sér að tónlistinni,“ segir Helgi sem spilar á hljóðfæri og semur lög. „Það er líka hægt að tengja þetta saman. Ég hef verið að gera stuttmyndir og tónlistarmyndbönd þar sem myndataka og tónlist mynda eina heild.“

 

 

Eins komið hefur fram er Helgi trúaður og virkur í starfi Hvítasunnukirkjunnar. „Það er Herrann þarna uppi sem stýrir mínu lífi í dag. Ég er lofgerðarleiðtogi í kirkjunni okkar og það er stór hluti af mínum bata.“

 

Helgi sagðist verða með fjölbreytta sýningu. „Ég ætla að sýna m.a. myndir úr úteyjum og af smalamennsku. Mér finnst gaman að taka myndir af fólki í smölun og við önnur tækifæri, sérstaklega þegar fólk veit ekki af myndavélinni. Ég sýni myndir teknar á jörðu niðri og myndir úr dróna. Svona sitt lítið af hverju. Ég á ættir að rekja til Færeyja og fer þangað minnst einu sinni á ári. Færeyjar eru ekki síður fallegar en Vestmannaeyjar og kannski fá myndir þaðan að fljóta með í lokin,“ sagði Helgi og minnti á sýningartímann.

 

„Mætið klukkan eitt á laugardaginn í Einarsstofu. Þar verðum við Óli Lár klárir með myndirnar okkar.“