Í gegnum ljósopið – Bræður mætast í Einarsstofu

Egill í Einarsstofu – Svaðilför í Surtsey og siglt um heimshöfin

 

 

Egill Egilsson og Heiðar bróðir hans voru með 11. sýninguna í sýningarröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt í Einarsstofu kl. 13.00 á laugardeginum 23. nóvember. „Ég er fæddur 23. nóvember 1947 og byrja því afmælisdaginn með því að sýna úrval af þeim myndum sem ég hef tekið í gegnum tíðina,“ sagði Egill.

 

„Ég byrjaði að taka myndir á árunum 1962 til 1963 og fljótlega upplifði ég mesta ævintýri lífs míns og tækifæri til að taka eftirminnilegar myndir en það fór sem fór,“ sagði Egill og vitnaði þarna í mikla svaðilför sem hann fór með Kristjáni bróður sínum og Kristjáni Guðmundssyni.

 

Surtseyjargosið byrjaði 14. nóvember 1963 og fljótlega reis eyja úr sæ sem við í dag þekkjum sem Surtsey og er um 20 km suðvestur af Heimaey. Það freistaði þremenninganna að vera fyrstir Íslendinga til að stíga á land á þessum nýjasta meðlim í Vestmannaeyjafjölskyldunni sem er sú 15. og næst stærsta eyjan í dag.

 

Klikkaði á ljósopinu

Það var í desember 1963  sem þeir lögðu í hann,  gosið enn í fullum gangi og fleyið ekki merkilegt. „Þetta var 11 feta  plastbátur með utanborðsmótor og á honum siglt út í óvissuna í mesta skammdeginu. Engin björgunarbelti eða sími til að láta vita af ferðum okkar. En ferðin út gekk vel en við náðum því ekki að vera fyrstir til að stíga á land á hinni nýju eyju. Það voru Frakkar sem voru nokkrum dögum á undan okkur. En við komumst í land og eyjan skalf og nötraði undan átökum gossins. Það var stutt stopp en þegar við erum að fara drapst á mótornum vegna vikurs sem flaut á sjónum. Var það okkur til happs að Júlía VE var þarna og vorum við hífðir um borð í hana, báturinn og við þrír. Ef Júlía hefði ekki komið til bjargar er alveg eins víst að værum ennþá að dóla út við Surtsey,“ sagði Egill sem myndaði grimmt í ferðinni.

 

„Það kom lítið út úr því og skammaði Palli Steingríms mig fyrir að vera með stillt á minnsta ljósop en ekki það mesta. Fyrir vikið var afraksturinn ekki mikill.“

 

Þarna voru þeir í kapphlaupi við stráka í Stýrimannaskólanum sem ætluðu á land í Surtsey undir forystu skólastjórans, Guðjóns Ármanns Eyjólfssonar. „Þeir voru með Júlíu en voru rétt á eftir okkur í land í eynni. Það vildi svo ekki betur til hjá þeim en að báturinn hvolfdi en allt bjargaðist og allir komumst við heilir frá þessu.“

 

Komið víða við

Egill vann eitt sumar hjá Veiðafæragerð Vestmannaeyja. „Þar var ég með Kidda Manga, Gauja Manga, Ingu Magg og Marteini Trixa o.fl. og tók örfáar myndir þar. Ég var eitt sumar á Herjólfi gamla þegar siglt var til Reykjavíkur og hálfs mánaðarlega til Hornafjarðar. Ég á ekki margar myndir frá þeim tíma en nokkrar er ég með sem ég tók þegar ég var í siglingunum en mest eru þetta myndir héðan úr Eyjum.“

 

Egill segir þessar gömlu myndir alveg ómetanlegar. „Það var á árunum 1966 til 1967 sem ég fór í siglingar á norsku skipi og á ég nokkrar myndir sem ég tók vítt og breytt um heiminn. Við vorum saman, ég og Guðjón Ingi Ólafsson. Við sigldum frá Portúgal til Suður Ameríku, í gegnum Panamaskurðinn og yfir Kyrrahafið til Nýja Sjálands og Ástralíu og þaðan í gegnum Súesskurðinn. Mátti ekki miklu muna því nokkrum dögum seinna skall Sex daga stríðið á þar sem Ísrael og Egyptaland, Jórdanía og Sýrland tókust á. Um leið var Súesskurðinum lokað.“

 

 

Fyrsta myndavélin var Petrivél en í dag á hann Canon EOS, góð vél segir hann en ekki alveg nýjasta gerð. Svo er það síminn sem hann notar mikið. „Ég er alltaf að taka myndir af fjölskyldunni og því sem fyrir augu ber. Landslags- og veðurmyndir sem ég tek á morgunrúntinum. Einhverjar myndir eru af fólki en þær mættu vera fleiri. Ég ætla að vera með sýnishorn af þessu á sýningunni á laugardaginn. Það er víða komið við og þetta eru myndir sem ná yfir hátt í sex áratugi,“ sagði Egill um sýninguna í Einarsstofu á laugardaginn.