Útdráttur úr fyrirlestri Helga Bernódussonar, fyrrum bæjarbókavarðar.
 
„Ég var ráðinn bæjarbókavörður Vestmannaeyja 1977 og hóf störf sumarið 1978. Það var grípandi tilfinning að setjast við skrifborðið á vistlegri og rúmgóðri skrifstofu bókavarðar að morgni fyrsta starfsdags, í kyrrð og ró, og hugleiða aðeins lífið, örlögin og aðstæður allar,“ sagði Helgi Bernódusson, núverandi skrifstofustjóri Alþingis og fyrrum bæjarbókavörður í Vestmannaeyjum, þegar hann minntist áranna í Bókasafninu. Fyrirlesturinn var mjög ýtarlegur og er hér gripið aðeins niður í það sem Helgi sagði.
„Nýtt safn sem stóð á gömlum merg, safn sem nú hafði verið búin aðstaða svo að varla yrði á betra kosið. Stórkostlegir möguleikar til að láta gott af sér leiða, standa fyrir menningarsókn á mörgum sviðum bæjarlífsins.
Hinn djúpi og klausturlegi friður sem þessi morgunstund hafði yfir sér fól einnig í sér vissa frelsistilfinningu; skólaár allmörg voru nú að baki með þeim álaga-metnaði sem þeim fylgja. Nú gæti ekkert hlekkjað mig lengur eða lamað kraftana til nytsamlegra starfa fyrir samfélagið.
Þetta voru dásamlegir dagar. Og vofurnar, sem við köllum áhyggjur og erfiðleika, höfðu falið sig á bak við skápa og hillur til að gefa nýgræðingi stundarfró, hveitibrauðsdaga, áður en þær færu á kreik aftur til þess að gera honum skráveifur.
Allt fór vel af stað og við hér á safninu lengdum afgreiðslutímann, buðum skólunum til samstarfs, höfðum lestrarstundir fyrir börn á laugardagsmorgnum, menningarkvöld nokkur yfir veturinn o.s.frv. o.s.frv“
Öflug menningarmiðstöð
„En hvernig mátti það vera að Bókasafn Vestmannaeyja skyldi verða svona öflug menningarstöð?“ spurði Helgi og svaraði sjálfur. „Þar kom margt til. Fyrst og fremst bjó meiri kraftur í íbúum þessa byggðarlags en maður gat átt von á.
Menningarviðleitnin var meiri en fordómar háskólamanns úr borginni sögðu. Í annan stað hafði safnið í gegnum tíðina staðið undir nafni,“ sagði Helgi og minntist forvera síns, Haraldar Guðnasonar sem var að ljúka 30 ára starfsferli. Við hlið hans starfaði Ille, kona hans.
„Haraldur hafði unnið kraftaverk, komið upp stórum hópi vildarvina, einhvers konar hollvinasamtökum, og þar að auki verið lunkinn við að koma safninu á framfæri við skólana, bátasjómenn o.fl.
Forverar hans bjuggu við þrengri kost en nutu þess þó að þeir voru kennarar og lögðu inn gott orð fyrir safnið hjá yngri kynslóðinni, Hallgrímur Jónasson, Steingrímur Benediktsson og ekki síst sá merki fræðimaður sr. Jes. A. Gíslason á Hól.
Og loks var atvinnulífið í Eyjum þannig lotubundið að það gaf færi til menningarsóknar. Þar skiptust á ægilegar hrotur og landlegur, vinnutarnir og rólegir tímar. Hvað var annað við tímann að gera í landlegu, a.m.k. fram að ball-tíma, en líta í bók? Tíminn frá vertíðarlokum fram að síldveiðum var líka hagstæður til andlegrar upplyftingar og haustin, á bókavertíðinni, var jafnan minnst um að vera hér í Eyjum; atvinna m.a.s. stundum stopu. Og allar árshátíðirnar, vélstjóra, skipstjóra, Norðlendinga og Austfirðinga, leiksýningar, hljómleikar og hvað það nú var, allt féll þetta á haustin, og þess á milli var tími til að taka í bók.
Þessi ryþmi í bæjarlífinu var hvetjandi og skýrir svo margt í sérstæðum lífsstíl og félagslífi þessa bæjarfélags.“
Merkileg saga í 150 ár
„Saga bókasafnsins í 150 ár er merkileg saga. Það er sannarlega athyglisvert hvernig Bjarni E. Magnússon sýslumaður, snortinn af skynsemis- og framfaraanda síns tíma, fær að koma hugsjónum sínum í framkvæmd, rúmum áratug eftir að einveldi Danakonunga var aflagt, og Ísland þokaðist hægt í átt að stjórnfrelsi og frjálsu atvinnulífi og framförum.
Það var mikil gæfa að fá hingað Bjarna sem sýslumann 1861. Verka hans sér enn stað; hann var mikill menningarmaður, alinn upp í Breiðafjarðareyjum og á Barðaströndinni. Það er sá arfur, og andblær upplýsingarinnar frá Kaupinhöfn, sem blómstrar svo hér í Eyjum.
Hún er glæsileg lýsingin sem fyrir liggur á eðliskostum Bjarna sýslumanns. Ekki er minnsti vafi að einhverjir hafa hrist höfuðið yfir þessari uppáfyndingu sýslumanns. Það var ríkt í mörgum húsbændum og jafnvel húsmæðrum að bóklestur væri til óþurftar, tímaþjófur frá nauðsynlegum verkum; alþýðufólk hefði ekki gott af því að vera að grufla í hlutunum, liggja í bókum. Öll framfaraviðleitni mætir mótspyrnu, - og hefur sín rök. En það er eins og æðri kraftar ráði hér för, einhverjir útveljist, verðugir eða óverðugir, til þess að bera fram kröfu tímans og aðrir, verðugir eða óverðugir, veljast til þess að veita mótspyrnu. Við eigum þess vegna alltaf að spara dómana um fólk úr samtíð eða sögu, en það er gott að læra af sögunni. Tíðarandinn ræður svo miklu og á svo auðvelt með að stjórna mönnunum.
Hún er fróleg saga Bókasafnsins sem Haraldur Guðnason skrifaði í Blik 1962 á hundrað ára afmælinu. Frásögn Haralds er breið, og þar er að finna fagra og ófagra lýsingu á þessu plássi fyrir 150 árum. Safnið fer vel af stað, en það var ekki burðugt um tíma; myglaðar bækurnar í kjallörum eða á háloftum. En í hvert sinn sem rofar til stendur ekki á íbúum Eyjanna að taka við sér, nýta sér safnið,“ sagði Helgi meðal annars
 
Samantekt –
Ómar Garðarsson
 Umfjöllun úr Fréttum 5. júlí 2012