Útdráttur úr fyrirlestri Dr. Ágústs Einarssonar
 
Dr. Ágúst Einarsson, prófessor og fyrrverandi rektor og alþingismaður greinir m.a. frá niðurstöðum rannsókna sinna á hagrænum áhrifum Bókasafns Vestmannaeyja í erindi sínu um hina nýju atvinnuháttabyltingu og Bókasafn Vestmannaeyja. Í ljós kemur að verðmætasköpun bókasafnsins er margföld framlög til þess. Einnig er fjallað um hinar miklu búsetubreytingar síðastliðin eitt hundrað og tíu ár og um menningarneyslu Íslendinga, sem er með því hæsta í heiminum. Skapandi atvinnugreinar geta orðið meginatvinnuvegur Íslendinga á tuttugustu og fyrstu öldinni og nú þegar er um fjórðungur af vinnumarkaðnum hérlendis í skapandi atvinnugreinum. Framlag Vestmannaeyinga til landsframleiðslunnar er langt umfram landsmeðaltal og bókasafnið á drjúgan hluta í því. Jafnframt kemur fram að í þeirri byltingu í atvinnumálum sem nú stendur yfir eru mörg tækifæri fyrir Vestamannaeyjar og þeir geta tekið forystu í þeim efnum eins og þeir gerðu í upphafi tuttugustu aldar í síðustu atvinnuháttabyltingu.