Ég vil byrja á því að þakka Helgu Hallbergsdóttur safnstjóra á Byggðasafni Vestmannaeyja, Kára Bjarnasyni forstöðumanni Bókasafns Vestmannaeyja og samstarfsmanni í safnstarfi í Skógum, Sigþóri Sigurðssyni í Litla-Hvammi, fyrir að bjóða mér hingað á mætum degi, höldnum til minningar um upphaf skipulagðrar söfnunar menningarminja hér úti í Vestmannaeyjum. Til hamingju með daginn.
Allt frá því er augu mín hófu að opnast fyrir umhverfi hafa Vestmannaeyjar verið samofnar tilveru minni. Ég uppgötvaði þær fyrst frá bæjarhólnum í Vallnatúni undir Eyjafjöllum. Hann bar hátt á sléttunni niðri við sjóinn, þar sleit ég skóm bernsku og æskuára, raunar vel það. “Sem safírar greyptir í silfurhring“ sagði skáldið um Vestmannaeyjar. Annað veifið risu þær hátt úr sæ, “Eyjarnar uppi á sandi“ sagði gamla fólkið. Þá var von á þerri með norðlægri átt. Hitt veifið voru þær lágt í sæ, þá var von á rosa og regni. Oft var hann blikaður, jafnvel korgblikaður út um Eyjar. Að þessu var vel gætt í heyönnum löngu liðinna daga.
Úti í Eyjum hafði móðir mín átt dvöl fullan áratug hjá æskuvinum sínum, Bjarna Einarssyni og Halldóru Jónsdóttur í Hlaðbæ og hjá Sveini Jónssyni og Kristínu Þorleifsdóttur á Landamótum. Í Hlaðbæ höfðu fósturforeldrar hennar, Jón Einarsson og Kristín Björnsdóttir frá Ysta-Skála, átt sín fögru, rósömu elliár. Í Eyjum hefði móðir mín, Kristín Magnúsdóttir, helst kosið að eyða æviárum en það var Fjallasveitin fagra sem fangaði föður minn, Tómas Þórðarson, tók hann svo sterkum tökum að ekki varð undan vikist. Gamla Vallnatún í Holtshverfi varð vettvangur fjölskyldunnar í fulla fjóra áratugi. Viðbrigðin mikil fyrir móður mína að flytja í hrörlegan torfbæ án alls þess sem til þæginda gæti talist.
Fyrir mig, soninn Þórð Tómasson, skipti þetta sköpum. Í krafti þeirrar staðreyndar væri ekkert byggðasafn í Skógum og án hennar væru margar bækur um gamla lífshætti óskrifaðar. Þetta segi ég ekki mér til hróss. Hulin forsjá ætlaði mér örlög og skákaði mér vonandi á réttan reið á taflborði tilverunnar.
Við Vestmannaeyjar var líf föður mín skorðað svo að ei gleymist. Sautján ára að aldri er hann hér vermaður, háseti hjá mági sínum, Jóni Eyjólfssyni, á Lukkureyni, gamla skipinu hans afa míns, Þórðar á Rauðafelli, og haldið til í nöturlegu húsi, Nöjsomhed. Þrítugur að aldri er hann háseti hér hjá Jóni Stefánssyni, fyrr bónda í Varmahlíð, á vélbátnum Haffara. “Ég er ekki hrædd um drengina mína meðan þeir eru hjá honum Jóni Stefánssyni,“ sagði Þóra Torfadóttir fóstra föður míns. Örlagadagurinn mikli var 12.mars 1916. Jón Stefánsson beindi báti sínum til Eyja austan úr Fjallasjó. Á var brostinn blindbylur af austri og nótt fór í hönd. Vélarbilun varð og segl voru sett upp. Þau rifnuðu í veðurofsanum. Báturinn var að því kominn að brotna við björgin austan á Heimaey. Jón formaður tók þá upp tóbaksbauk sinn, fékk sér æðrulaust í nefið og sagði: “Við skulum taka þessu rólega, drengir. “Andartaki síðar var ævi hans öll og tveggja annarra. Faðir minn og ungur félagi hans björguðust, klifu klepraða kletta og þótti kraftaverk. Á tók næturgangan niður í bæinn. Faðir minn var aldrei orðmargur um atburði, einhver dulúð í frásögn um slysið, eitthvað sem aldrei var sagt. Gamall nágranni, náfrændi og vinur Jóns Stefánssonar, Sveinn Tómasson í Vallnatúni, vaknaði þessa nótt, við veðurofsann, settist framaná og ætlaði út til að huga að heyjum í heygarði. Þá hljómaði skýrt í vitund hans þessi setning: “Farðu ekki út, hann Jón Stefánsson stendur við dyrnar.“ Af útferð varð ekki.
Um vorið eftir fannst tóbaksbaukur Jóns á syllu austur í Bjarnarey er þangað var farið með sauðfé. Í dag minnir hann á örlagaatburð, á stutt og stöpult líf í sýningarpúlti í Skógasafni.
Öðru sinni í sjóróðri við Vestmannaeyjar sá faðir minn fulla tvísýnu á lífi sínu, bjargaðist milli báta rétt á síðustu stund. Þetta gerði hann ekki afhuga sjónum. Hann sótti ár hvert vetrarvertíðir til Vestmannaeyja, fram á fjórða tug 20.aldar, dró dýrmæta björg í bú. Hin síðari árin reri hann á vélbátnum Happasæl. Formaður var Eyfellingurinn Eyjólfur Sigurðsson í Laugardal. Örlög hans, hins djarfsækna og góða sjómanns, urðu að drukkna í Vestmannaeyjahöfn þann 31.des. 1957. Vika leið þar til lík hans fannst. Það skilaði úri og tóbaksbauk eigandans, nýsilfurbúnum, góðum grip. Hvortveggja hvílir nú í sýningarpúlti í Skógum í nánd tóbaksbauks Jóns Stefánssonar.
Straumur fólks út til Vestmannaeyja frá Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu hófst við byrjun 20.aldar og fjöldi ungra manna af sama svæði sótti þaðan sjó á vertíðum. Í Skógasafni eru tvö stór veggspjöld með myndum og nöfnum Rangæinga sem drukknuðu við Eyjar á 50 ára tímabili, frá 1900 til 1952, samtals 103 nöfn, mikil blóðtaka. Sjóslysið út við Eyjar á uppstigningardag 16.maí 1901 var líkt og í hvers manns hug í æsku minni. Þar féllu í valinn 27 manns, fólk á öllum aldri. Ferð til skemmtunar og heimilisaðdrátta m.a. snerist í martröð heillar byggðar. Eitt flöskubréf frá Eyjum er í Skógasafn, skrifað af Eyfellingnum Tómasi Brynjólfssyni í Sitjanda 14.febr. 1913, um 8 vikum síðar hvarf hann í hafið. Gjöfull sær leiddi byggðir til bættra lífskjara en skatttekja hans var mikil og mörg voru tárin sem féllu sitt hvoru megin við Eyjasund. Ég var löngu kominn til vits og ára er ég sótti Vestmannaeyjar fyrst heim. Það var um sjómannadagshelgina 1951. Ég naut samfylgdar sr. Sigurðar Einarssonar skálds í Holti og konu hans frú Hönnu Karlsdóttur. Hátíðarræðan beið sr. Sigurðar. Farið var á vélbáti frá Stokkseyri. Sjóhetjan Sigurjón Ingvarsson frá Klömbru stóð við stýrið. Hann söng við raust, góður bassasöngvari úr Landakirkju. Ég og fleiri tókum undir. Ég kunni vísu Björns Bjarnasonar í Bólstaðarhlíð um Sigurjón.
            Þegar drukkin djöflast flón
            og dýrum spilla friði
            kraftastinnur Klömbru-Jón
            kemur oft að liði.
Ég átti frændum og vinum að fagna í Eyjum. Móðir mín átti þar tvö systkini á lífi, Guðnýju í Vatnsdal og Magnús í Hljómskálanum. Hann innréttaði æskuheimili mitt í Vallnatúni 1939 og hóf hvern dag og endaði með bænargjörð. Á Vilborgarstöðum bjó Ágústína föðursystir mín. Ég bjó hjá fjölskylduvinum, Ólafi Vestmann og Þorbjörgu á Boðaslóð, og var líkt og í foreldrahúsum. Síðar varð Ólafur fyrstur til að sjá eldsuppkomu þar sem nú er Surtsey. Hún gæti allt eins nefnst Ólafsey.

Sjómannadagsmessan í gömlu Landakirkju var hátíðleg. Gaman að sjá hina gömlu, prúðbúnu Eyjamenn inni í kórnum þar sem hver átti sitt vissa sæti. Mér fannst Þorsteinn í Laufási bera af þeim flestum. Sr. Halldór Kolbeins steig þyngslalega upp tröppurnar bak við altarisstaðinn og allir í kór höfðu þá risið úr sætum til virðingar. Gústa frænka og Loftur á Vilborgarstöðum áttu saman sæti í framkirkju. Loftur rauf aldagamla hefð er hann byrjaði árið 1912 að sitja við hlið konu sinni við messur. Frá sönglofti hljómaði skær sópranrödd frænku minnar Gunnu Lofts.
Þorsteinn Þ. Víglundsson sýndi mér af alúð byggðarsafnið og gat gert það með stolti. Það var til orðið fyrir skilning hans og fleiri góðra manna, á gildi þess fyrir samfélagið að varðveita atvinnuminjar og menningarminjar gamla tímans.
Byggðarsafn Vestmannaeyja skákar öllum byggðasöfnum landsins hvað varðar aldur, þegar sum önnur eru að feta upp sjöunda tuginn. Byggðarsafn Vestmannaeyja og Byggðarsafn Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga í Skógum eiga fleira sameiginlegt en rétt það að vera nágrannar, þau eru fulltrúar sömu þjóðmenningar á sviði sjóhátta og landbúnaðar og safnið í Vestmannaeyjum varðveitir margt minja sem Rangæingar og Skaftfellingar fluttu með sér út um Eyjasundið er þangað var leitað lífsbjargar og örugrar framtíðar. Vel sé Þorsteini Þ. Víglundssyni og samherjum hans sem gerðu sér glögga grein fyrir hinum stórfelldu aldahvörfum í lífi þjóðarinnar og hófust handa við að vernda menningararfinn, að færa fortíð til framtíðar. Söfn landsins færa okkur í dag sanninn um það hvernig þjóðin fór að því að draga fram lífið frá einni öld til annarar, og vitna jafnframt um það að hollusta við menningu og menningararf fór aldrei forgörðum þótt oft kreppti fast að við kröpp lífskjör.
Sú fagra Heimaey sem heilsaði mér í sumarblíðu 1951 má muna fífil sinn fegri en öll él styttir upp. Fagurt byggðarhverfi, aldagömul bóndabýli lögðust undir úfið hraun. Ísland er enn í sköpun. En lífið í allri sinni dásemd heldur velli á eyjunni fögru utan við Eyjasund.
Eyjafjallaskallinn gamli drottnar enn yfir byggð. Hann færði mig árið 2010 í nálægð við þá reynslu sem setti allt mannlíf í Eyjum líkt og á flæðisker árið 1973. Þá hló engum hugur í brjósti. Langt er nú að leita niður á legstað forföður míns sr. Jóns Þorsteinssonar austur á Kirkjubæ. Ég minnist þess hve fagurt var þar um að litast 1951. Eldgosið 1973, mun minna á sig um ár og aldir en áræði og athafnasemi munu áfram auðkenna eyjuna fögru sem átt hefur hlutdeild í mér frá æsku til elli.
Tyrkjaránið 1627 snertir enn viðkvæman streng í hugum Íslendinga. Með virðingu sýni ég safngestum í Skógum altarisdúk Tyrkja Tobbu, Þorbjargar Eyjólfsdóttur. Hún var úr Holtssókn undir Eyjafjöllum og hún hét því að gefa Holtskirkju altarisdúk yrði hún leyst úr ánauð og henni auðnaðist að sjá aftur fjöllin sín fögru. Hann er með fornum, fágætum útsaumi. Í Skógum varðveitum við einnig góðlega xx brot af legsteini Ástu Þorsteinsdóttur konu sr. Ólafs Egilssonar. Hún dó í Snjallsteinshöfða í Landsveit 1667. Hin brotin hvíla í moldum Snjallasteinshöfða en textann hef ég allan. Gestaþrautina að leysa Tyrkjabát kunni faðir minn og báthluta með þrautinni lét hann mér í vé. Þjóðsöguna þessu tengda kunnu bæði Færeyingar og Íslendingar.
Líf Íslendinga hefur tekið þeim breytingum á undraskömmum tíma að líkja má við ótrúlegt ævintýri. Ég ólst upp með konu sem í æsku þekkti aðeins ljóstýru á lýsislampa og ef vel var um jól kertaljós. Þann 19.júní ók til mín einn síns liðs sunnan frá Kópavogi einn elsti innfæddi Vestmannaeyingurinn Jón Hjaltalín Hannesson til að halda í Skógum 100 ára afmæli sitt. Foreldrar hans Hannes Sigurðsson og Guðrún Jónsdóttir fluttu út til Eyja frá Seljalandi undir Eyjafjöllum árið 1910. Á heimili þeirra á Brimhólum héldust gamlir sveitasiðir. Jón gekk á kúskinnskóm og strákalýðurinn niðri í bæ hæddist að mér sagði Jón. Hann var í sumardvöl hjá Árna Ingvarssyni bónda á Miðskála er v.e. og sagði frá þessu gráa gamni. “Blessaður, vertu ekki orðsjúkur,“ sagði Árni, “láttu eins og ekkert sé.“ Veturinn eftir kom Árni út til Eyja að afla sér aura í páskahretunni. Hann kom með skinnsokka sína og gekk í þeim niður í bæinn frá Brimhólum á leið í aðgerð. Strákar þyrptust að honum og gerðu gabb. Árni lét ekki sjá sig oftar í þeim.
Leiðin milli lands og Eyja hefur nú styttst að mun ef svo má segja. Ég hugsa til þess er forfaðir minn sr. Jón Steingrímsson, 17 ára unglingur norðan úr landi, hélt frá Bakkafjöru út til Vestmannaeyja árið 1746 ókunnandi til alls sem við kom sæferðum. Velgerðamaður hans, Bótólfur Þorvaldsson kenndi honum áralagið og tók upp á sitt forsvar allt sem skipverjar voru að heimta af honum farandi þar um í fyrsta skipti eftir gamansfullum sjóferðalögum þeirra.
Það horfir til þess að samskiptin milli Eyjamanna og nágranna þeirra í Rangárþingi og Skaftafellsþingi eigi eftir að eflast og aukast til mikilla muna á komandi tíma öllum til hagsbíta. Ég óska Byggðarsafni Vestmannaeyja innilega til hamingju með afmælið í eigin nafni og Byggðasafnsins í Skógum.
Ég bið byggð ykkar blessunar á ókomnum árum og aftur að eigi innileg þökk fyrir að hafa fengið að eiga hlutdeild með ykkur í þessum fagra minningardegi um 80 ára menningarstarf.