Útdráttur úr fyrirlestri Hrafnhildar Schram listfræðings.
„Ég vil heldur barninginn í náttúrunni“ 1)
Þrátt fyrir yfir hálfrar aldar búsetu í Danmörku snerist list Júlíönu Sveinsdóttur fyrst og fremst um Ísland þar sem hún málaði flest sumur, fyrir utan heimsstyrjaldarárin síðari. Vestmannaeyjar voru fyrsta og síðasta landslagsviðfangsefni hennar og það er þar sem hringurinn opnast og lokast. Eyjarnar urðu leiðarminni í list hennar og með tímanum umfangsmikill og merkur kafli ferils hennar í yfir hálfa öld eða frá 1912– 1964. Júlíana kaus frekar að mála í mildri birtu en sterku sólskini og í mörgum mynda hennar frá Vestmannaeyjum er loft þungbúið og sveipað raka og vætu. Fyrir henni vakti fyrst og fremst að túlka náttúruna við sértæka birtu og veðurskilyrði. Í fyrirlestrinum, sem fluttur verður með glærum, verður lögð áhersla á Íslandsmyndir málarans og þá sérstaklega myndaflokkinn frá Vestmannaeyjum. Ólíkt mörgum starfssystkinum sínum leitaði hún ekki upp á hálendið en hélt sig í jaðri byggðarinnar, gjarnan við grösugt undirlendi Suðurlands.
1)Júlíana Sveinsdóttir listmálari. Víðir.(19)20. tbl. 1948.