Útdráttur úr fyrirlestri Sigurðar E. Vilhelmssonar formanns Söguseturs 1627
 
Mesti auður hvers samfélags er fólkið sem þar býr og mesti auður fólksins er menningin sem það skapar. Því hvað er samfélag án menningar? Þegar Félag um Tyrkjaránssetur í Vestmannaeyjum var stofnað fyrir tæpum 8 árum var markmið þess að halda á lofti hinni mögnuðu harmsögu herleiddra Eyjamanna sem bognuðu, en brotnuðu ekki undan áhlaupi suðrænna sjóræningja. Sögu sem vart hefði varðveist jafn ljóslifandi ef ekki væri fyrir samtímafrásögn séra Ólafs Egilssonar, prests í Ofanleitissókn.
 
Saga Eyjanna er þó meira en harmsaga sjórána og eldgosa og hefur félagið á þessum 8 árum víkkað út sjóndeildarhring sinn sem kristallast í að nú heitir það Sögusetur 1627. Með vísun í Tyrkjaránið hefur starfsemi þess æ meir snúist um að miðla fjölbreyttri miðaldasögu Vestmannaeyja á sem víðtækastan hátt. Félagið hefur þróast frá því að einblína á einn atburð yfir í að vera vettvangur allra þeirra sem láta sig sögu Vestmannaeyja varða. Þannig vilja félagsmenn leggja sitt af mörkum við að varðveita menningarsögu Eyjamanna fyrir komandi kynslóðir, líkt og séra Ólafur gerði í Reisubók sinni, sem hann ritaði fyrir hartnær 400 árum.