Útdráttur úr fyrirlestrum Dr. Péturs Péturssonar og Matthíasar Jóhannessen:
 
 
Dr. Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði og Matthías Johannessen, skáld og fyrrv. ritstjóri, fluttu sameiginlega erindi um Davíðssálmaútleggingar sr. Jóns Þorsteinssonar píslarvotts er drepinn var í Tyrkjaráninu 1627.
Þar kom fram að félagarnir ásamt Kára Bjarnasyni eru að vinna stórmerkilegar rannsóknir á sálmum sr. Jóns, sérstaklega útleggingum hans í bundið mál á öllum 150 sálmum Davíðs. Balasz og Kitty spiluðu eftir erindi þeirra lag sem sr. Jón notaði við nokkra sálma sína og hefur því hljómað áður í Vestmannaeyjum. Var það einstök uppluifun, enda fallegt og sterkt lag og vel flutt af þeim eins og alltaf.
Í erindi Péturs kom fram að Davíðssálmar eru lykilrit kristinnar kirkju og því merkilegt í sjálfu sér að rannsaka hvaða höndum sá maður sem fyrst kynnir þá Íslendingum í formi skáldskapar til flutnings í kirkjunni fer um hinn mikla arf. Pétur rakti sögu Davíðssálma og setti þá í samhengi fyrir áheyrendur.
Matthías flutti merkilegt erindi þar sem hann opnaði áheyrendum sýn til skáldskapar sr. Jóns. Ljóst var að Matthías hafði lagt í miklar rannsóknir því hann bar skáldskap sr. Jóns saman við hátind íslensk kveðskapar, Passíusálma sr. Hallgríms, en Hallgrímur var kynslóðinni yngri. Það var ekki laust við að blaðamaður fyndi til sín þegar Matthías sagði: „Er það ekki tilefni til að vera stoltur Vestmannaeyingur ef rætur Passíusálmanna liggja í þessum gleymda kveðskap sr. Jóns píslarvotts?“
Það er óskandi að Matthíasi, Pétri og Kára takist að halda áfram þessu stórkostlega verkefni og ekki spillir fyrir að tónlistin sem fylgir sálmunum er stórkostleg og gaman að heyra lögin leikin hér í Eyjum eftir hundruða ára þögn.
Að lokum fékk blaðamaður eitt erindi frá sr. Jóni til að birta lesendum Frétta sem sýnishorn af útleggingum sr. Jóns á sálmum Davíðs.
Erindið er úr sálmi 100:
Heimskringlan öll af mesta mátt,
Mildastan Drottinn lofi hátt.
Honum þjóni með hjartans list,
Hvar sem hans nálægð er bevist.
 
Umfjöllun úr Fréttum 5. júlí 2012