Útdráttur úr fyrirlestri Dr. Clarence E. Glad, sjálfstætt starfandi fræðimaður í RA.
 
Árið 1627 birtist bók á latínu eftir hollenskan lögfræðing, Hugo Grotíus að nafni, er fjallaði um „Sannleika kristins átrúnaðar.“Á titilsíðu ensku þýðingarinnar 1632 (sjá mynd) -True Religion Explained and Defended aginst ye Archenemies Thereof in These Times - má sjá myndræna lýsingu á viðhorfum og efnistökum höfundar. Megintilgangur höfundar var að draga fram yfirburði kristins átrúnaðar í samanburði við „fölsk trúarbrögð,“ heiðindóm, gyðingdóm og íslam. Á titilsíðunni má sjá mynd af málsvörum þessara trúarbragða; músliminn – nefndur „Tyrkinn“ - birtist í líki herskás soltáns sem er tilbúinn að verja trú sína með vopnavaldi. Höfundurinn er þátttakandi í þeirri ímyndasköpun sem átti sér stað í Evrópu á þessum tíma er ýmsar staðalmyndir af múslimum – sem höfðu verið í mótun allt frá dögum krossfaranna - náðu að festa sig í sessi í vitund Evrópubúa.
Í erindinu er fjallað um ofangreinda ímyndasköpun, helstu staðalmyndum af múslimum lýst og athyglin dregin að endurreisn þeirra eftir 11. sept. 2001 og vandkvæðum í notkun þeirra á dögum hnattvæðingar og fjölmenningar.