Útdráttur úr fyrirlestri Kristínar Bragadóttur doktorsnema í sagnfræði.
 
Erindið fjallar um einstaklinga sem verða ástríðufullir bókasafnarar þar sem löngunin til að eignast bækur tekur öll völd. Líta ber til gleðinnar sem bókasafn  veitir eiganda sínum, því bókasöfnun sýnir fyrst og fremst elskusemi og ást á viðfangsefninu.
Bókasafnarar taka áhættuna að verða ofurseldir hinum erfiða sjúkdómi  bibliomania – að verða hættulega háður bókum. Margir bókasafnarar sögunnar hafa eytt  fé sínu langt um efni fram og leitt ógæfu  og jafnvel gjaldþrot yfir fjölskyldu sína.
Söfn ástríðufullra einstaklinga verða oft stofn að bókasafni fyrir almenning og verða fólki þannig til gagns og gleði. Sumir ætla að búa sér til minnismerki með söfnun ritanna og verður það einhvers konar stöðutákn að eiga bókasafn. Aðrir vilja koma fágætum bókum í gott skjól og leggja sitt af mörkum til varðveislu menningarverðmæta.
Tekið verður mið af íslenskum og erlendum bókasöfnurum í erindinu.