Útdráttur úr fyrirlestri Ingibjargar Steinunnar Sverrisdóttur
Lestrarfélögin eru afsprengi upplýsingastefnunnar sem mótaðist á 18. öld í Evrópu og byggði mjög á vísinda- og framfarahyggju. Félögin voru frjáls samtök einstaklinga sem skutu saman fé til að kaupa sér bækur eða annað lesefni ýmist til fróðleiks eða skemmtunar. Með tímanum þróaðist þetta félagsform og félögunum voru settar starfsreglur. Greina má nokkrar tegundir lestrarfélaga, en helsti munurinn fólst í hvort bækurnar voru seldar eða gefnar eftir að hafa gengið á milli félagsmanna, eða að þeim var safnað saman þannig að smátt og smátt varð úr bókasafn.
Fyrstu íslensku lestrarfélögin spruttu úr svipuðum jarðvegi og gerðist erlendis og hvatamenn þeirra og stofnendur voru jafnframt helstu boðberar upplýsingastefnunnar hér á landi. Greina má nokkur skeið í sögu íslensku lestrarfélaganna, en þróun þeirra hélst nokkuð í hendur við þróun almennra félagasamtaka á landinu. Mörg lestrarfélög voru helstu menningarstofnanir í sínu byggðarlagi og þróuðust yfir í bókasöfn með fasta tekjustofna af opinberu fé. Bókasafn Vestmannaeyja er eitt slíkt.