Útdráttur úr fyrirlestri Dr. Más Jónssonar prófessor
 
Til eru nákvæmar upplýsingar um lausafjáreign nærri fjögur hundruð Vestmannaeyinga sem létust árabilið 1820-1900. Skrárnar eru afar nákvæmar og veita skýra sýn á um lífshætti og aðbúnað almennings. Þegar Margrét Vigfúsdóttir á Gjábakka andaðist 23. febrúar 1836 átti hún, svo að dæmi sé tekið, blátt vaðmálsfat með upphlut, hvítt nærfat, bláröndótta svuntu, bláa prjónapeysu og þrjár skyrtur, eina bláröndótta og tvær hvítar. Hún átti sortaða hempu, rauðröndótt léreftsforklæði og fjóra klúta. Var einn þeirra dökkur úr silki og tveir aðrir silkidregnir, annar dökkur og hinn rauðröndóttur, en sá fjórði grænröndóttur úr lérefti. Teketil átti Margrét og prjónastokk, með ýmsu öðru sem heyrði til við heimilishald og búskap, en þar að auki tólf guðsorðabækur með greinilegri áherslu á verk eftir séra Hallgrím Pétursson og Jón biskup Vídalín. Í erindinu verður sagt frá þessum merku heimildum og þær nýttar til að útskýra lífskjör Vestmannaeyinga í samanburði við alþýðu manna í öðrum héruðum þar sem sjósókn var helsti atvinnuvegur íbúanna.