Í dag fögnum við því að áttatíu ár eru liðin frá því að Byggðasafnið var stofnað. Safnið á merka sögu og er það fyrir að þakka frumkvöðlum og eldhugum þar sem Þorsteini Þ. Víglundsson stendur fremstur meðal jafningja. Þorsteinn var yfir hálfa öld vakinn og sofinn við söfnun og varðveislu menningarverðmæta en hann skynjaði jafnframt hve mikilvæg þekkingin á lífríki sjávar er fyrir lítinn landsbyggðarbæ sem á allt undir auðlindum sjávar. Það varð til þess að Þorsteinn og nemendur hans hófu skrásetningu og söfnun á skeldýrum við suðurströnd landsins. Hinn virti náttúrufræðingur Dr. Ingimar Óskarsson (1892-1981) notaði þessa vinnu Þorsteins í hinu ómetanlega fræðirit, Skeldýrafauna Íslands sem kom út í tveimur útgáfum árin 1952 og 1964.
    Um þessar mundir er jafnframt ár liðið frá því að Sagnheimar, byggðasafn Vestmannaeyja, var opnað að nýju eftir gagngerðar breytingar
. Í Sagnheimum er enn að finna sömu sögurnar og sömu munina sem eldhugarnir hafa lagt sig í líma við að varðveita þó miðlunin sé breytt. Í spjalli mínu verður sérstaklega rætt um hið áhugaverða skeljasafn  Þorsteins, sem nú bætist við hinar fjölmörgu fræðandi sýningar safnsins.
 
Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri Þekkingaseturs.