Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt. 7. sýning Einarsstofa, á laugardaginn kemur, kl. 13:00.
25.10.2019Jóna Heiða og Friðrik Björgvins sýna á laugardaginn
Nú er komið að sjöundu sýningunni í röðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt og þá geysast þau Jóna Heiða Sigurlásdóttir og Friðrik Björgvinsson fram og sýna okkur lítið brot af þeim myndum sem þau hafa tekið í gegnum árin. Eins og áður byrjar sýningin kl.13. í Einarsstofu og stendur í einn til einn og hálfan tíma.
Pétur Steingrímsson og Guðmundur Gíslason leyfðu gestum að kíkja í ljósmyndasafnið sitt í Einarsstofu á laugardaginn. Tónninn var sá sami, Vestmannaeyjar en sitt hvort stefið að nokkru leyti. Þó áttu þeir eitt sameiginlegt, fólk var áberandi í myndum beggja og var gaman að fá að kíkja í níræðisafmæli tengdapabba Guðmundar þar sem margt merkisfólk var samankomið. Það var ekki síður gaman að ferðast upp um fjöll og firnindi, mest Heimaklett og í úteyjar með Pétri.
Myndir Jónu Heiðu eru hluti af listsköpun hennar en Friðrik er meira í daglega lífinu og sýnir okkur myndir sem hann hefur tekið á sjó og á landi með áherslu á fólkið sem hann hefur mætt í gegnum ævina.
Nú er sýningarröðIn, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt rétt hálfnuð og voru viðbrögð mun betri en reiknað var með í upphafi. Eins og staðan er núna verða þetta 13 laugardagar í röð sem sýnt verður. Aðsókn hefur verið góður og gestir ánægðir enda góð tilbreyting að kíkja við í Einarsstofu í stutta stund á laugardegi.
Eins og fyrr segir byrjar sýningin klukkan 13.00 á laugardaginn í Einarsstofu og stendur í einn til einn og hálfan tíma.