Kindasögur í Einarsstofu á sunnudaginn
29.11.2019
Kindasögur í Einarsstofu á sunnudaginn
„Íslenska sauðkindin er harðger, úrræðagóð og ævintýragjörn, það vita allir sem hana þekkja,“ segir Guðjón Ragnar Jónasson, menntaskólakennari sem ásamt Aðalsteini Eyþórssyni skrifar bókina Kindasögur sem hann kynnir í Einarsstofu á sunnudaginn.
„Í þessari bók eru rifjaðar upp sögur af íslenskum kindum að fornu og nýju, afrekum þeirra, uppátækjum og viðureignum við óblíða náttúru og kappsfulla smala.
Við kynnumst meðal annars Herdísarvíkur-Surtlu, Eyvindarmúla-Flekku, villifé í Tálkna, hrútnum Hösmaga í Drangey og forystusauðnum Eitli. Kindasögur eru sérstök grein íslenskrar sagnaskemmtunar sem á sér langa sögu en lifir enn góðu lífi – rétt eins og sauðkindin sjálf,“ Guðjón Ragnar en höfundar bókarinnar eru áhugamenn um sögur og sauðfé.
Hann hefur sterka tengingu til Eyja og ætlar að upplýsa um hana um leið og hann kynnir bókina. Kynningin verður í Einarsstofu kl. 13.00 en fleira er á dagskrá sem hefst með súpu klukkan 12.00. Það er Sæmundarútgáfan sem gefur bókina út.