Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt. 11. sýning Einarsstofa, á laugardaginn kemur, kl. 13:00.
22.11.2019Bræðurnir Egill og Heiðar í 11. Ljósopinu
Þegar Stefán Jónasson, í 100 ára afmælisnefnd Vestmannaeyjabæjar kom með þá uppástungu að fá ljósmyndara í bænum til að sýna myndir sínar á tjaldi í Einarsstofu óraði engan fyrir umfanginu. Reiknað var með kannski þremur eða fjórum laugardögum og kannski tíu ljósmyndurum.
Reyndin varð önnur og erum við að sigla í elleftu sýninguna á morgun klukkan 13.00 og eru að minnsta kosti tvær eftir. Ljósmyndararnir eru yfir 40 og myndirnar sennilega á bilinu 3000 til 4000. Þetta hefur verið einstaklega ánægjulegt verkefni og aðsókn farið fram úr vonum. Eru gestir að nálgast þúsundið og fara örugglega í á annað þúsundið þegar upp verður staðið.
Þeir bræður, Egill og Heiðar mæta með myndir sínar á laugardaginn og þar er farið um víðan völl, enda mennirnir sigldir og hafa tekið myndir frá unga aldri. Þetta er ellefta sýningin í sýningarröðinni, Vestmannaeyjar í gegnum ljósopið mitt. Verður eins og áður í Einarsstofu og á gamla tímanum, kl. 13 á morgun, laugardag.