Októbergleði í Safnahúsi og í Sagnheimum næstu 3 vikurnar.

16.10.2018

Októbergleði í Safnahúsi og í Sagnheimum næstu 3 vikurnar.

Hið rómaða Eyjahjarta býður upp á dagskrá í áttunda sinn sunnudaginn 7. október nk. kl. 13-15. Að vanda eru gestir sérvaldir gleðigjafar en að þessu sinni sækja Einarsstofu heim þau Linda Kristín Ragnarsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Kristín Ástgeirsdóttir og Ólafur Jóhann Borgþórsson. Búast má við fullu húsi eins og venja hefur verið og því ástæða til að hvetja fólk að mæta tímanlega.

Helgina eftir verða tvær dagskrár í boði. Sú fyrri er á föstudeginum 12. október kl. 17:15-18:15 í Einarsstofu. Þar verða sýndar kvikmyndirnar Vand til Öerne frá NKT 1968 með íslenskum texta og Vatn til Eyja, RÚV 1968. Myndirnar, sem taka samtals um 40 mínútur í flutningi, marka lok á dagskrá til minningar um komu vatnsins til Vestmannaeyja fyrir 50 árum sem er án vafa eitt merkasta framfaraspor í sögu Vestmannaeyja. Á sunnudeginum 14. október kl. 13-14:30 í Sagnheimum munu Ragnar Óskarsson og Þórólfur Guðnason fjalla um árið 1918 í aðdraganda þess að á næsta ári eru 100 ár liðin frá því Vestmannaeyjabær fékk kaupstaðarréttindi.

Þriðja helgin, sem markar lok fundaraða að þessu sinni, er helguð Kötlugosinu 1918 en í þessum mánuði eru rétt 100 ár liðin frá síðasta Kötlugosi. Sunnudaginn 21. okóber kl. 13-14 verður opnuð sýning á Kötlumyndum Kjartans Guðmundssonar auk þess sem ljósmynd eftir Gísla J. Johnsen sem sýnir Kötlugosið frá Vestmannaeyjum verður sýnd í fyrsta sinn opinberlega. Við opnun sýningarinnar verður boðið upp á fyrirlestur og spjall um hina illvígu eldstöð og hvers Vestmannaeyjar mega vænta er Katla vaknar af sínum Þyrnirósarsvefni.

Allar þessar dagskrár verða auglýstar betur er nær dregur.