Uppskeruhátíð sumarlesturs á Bókasafninu.

14.09.2018

Uppskeruhátíð sumarlesturs á Bókasafninu.

Hinn 5. júní sl. hófst sumarlestur Bókasafnsins með því að Dórótea úr Galdrakarlinum í Oz og Mary Poppins opnuðu sýn inní töfraheim klassískra bókmennta sem var þema sumarsins. Barnadeildin var lögð undir Galdrakarlinn í Oz, Bangsímon, Lísu í Undralandi, Pétur Pan  og aðrar hetjur eilífrar æsku. Í gær, 13. september, lauk sumarlestrinum formlega með uppskeruhátíð þar sem sjóræningjarnir Kútur og Grimmur tóku á móti um 70 börnum. Búið var að skreyta Bókasafnið að sjóræningjasið og setja lepp fyrir annað auga þeirra starfsmanna sem voru í afgreiðslunni. Boðið var upp á þá þrekraun að ganga plankann og farið í fjársjóðsleit. Alls voru 88 börn skráð í sumarlestur Bókasafnsins að þessu sinni og lásu þau samtals 215 bækur. Fyrir hverja bók sem lesin var skrifuðu börnin miða þar sem þau gáfu bókinni einkunn, rituðu nafn sitt undir og skiluðu á safnið. Úr miðunum voru tvö nöfn dregin út á uppskeruhátíðinni og fengu hinir heppnu, Guðjón Ólafsson og Kristján Þorgeir Karlsson, bókagjöf. Dagskránni lauk með því að börnin fundu fjársjóðskistu eina mikla sem reyndist full af nammi sem deilt var út til þátttakenda. Það voru því hávær og glöð börn sem yfirgáfu Bókasafnið þennan daginn. Sigurgeir Jónasson hinn síungi ljósmyndari var á staðnum og fangaði andrúmsloftið með myndunum sem hér fylgja.