Dagur íslenskrar tungu í Safnahúsinu.
15.11.2016 Í samstarfi Safnahúss og Tónlistarskóla Vestmannaeyja verður á morgun miðvikudaginn 16. nóvember kl. 17:15, á Degi íslenskrar tungu, haldin kynning í Einarsstofu í Safnahúsi á tímariti sem ber heitið Stuðlaberg og er helgað hefðbundinni ljóðlist. Ritstjóri, útgefandi og ábyrgðarmaður er Ragnar Ingi Aðalsteinsson.
Stuðlaberg kom fyrst út árið 2012 og hefur eftir það komið út tvisvar á ári, haust og vor. Í ritinu er fjallað um allt sem lýtur að bragfræði. Þar birtist jafnan mikið af vel gerðum og skemmtilegum vísum auk þess sem fjallað er um höfunda og oft er rakin sagan sem liggur að baki vísunni. Birtar eru greinar um bragfræðileg efni. Þær eru stuttar og reynt að gera efnið ekki flókið enda kemur fram í ritinu að ritstjóri telur bragfræði minna á sterkt kaffi; það er gott í smáum skömmtum en ekki æskilegt að drekka mikið af því í einu.
Ragnar Ingi mun kynna ritið og lesa valda kafla af efni þess undanfarin ár. Kynningin verður á léttu nótunum. Lesið verður upp úr ritinu og auk þess mun Ragnar Ingi, sem er vel heima í vísnagerð og hefur kynnt sér þann geira menningarinnar nokkuð vel, flytja ýmislegt skemmtiefni tengt vísnagerð og kveðskap almennt.
Dagur íslenskrar tungu skipar auk þess sérstakan sess í hugum Vestmannaeyinga þar sem hann er fæðingardagur Oddgeirs Kristjánssonar. Af þeim sökum mun Jarl Sigurgeirsson mæta á dagskrána og flytja og kynna nokkur valin Eyjalög Oddgeirs.
Að lokum gefst öllum skúffuskáldum í Vestmannaeyjum tækifæri til að kynna efni sitt með stuttri en snarpri innkomu.
Allir hjartanlega velkomnir.
Sjá hér nánar um dagskrár dagsins https://www.menntamalaraduneyti.is/menningarmal/dit/