Afhending á frumgögnum Gísla J. Johnsen

05.07.2016
 Einn merkasti sonur Eyjanna var athafnamaðurinn Gísli J. Johnsen (1881-1965). Hann var brautryðjandi í nýrri dögun Vestmannaeyja er vélbátavæðingin hélt innreið sína. Fyrsta vélfrystihúsið var reist 1908, fyrsta fiskimjölsverksmiðjan 1912, fyrstu olíugeymarnir 1921 og 1926 fyrsti vélbáturinn með loftskeytatækjum. Hér er aðeins drepið á fáeina af þeim mörgu afrekum sem eiga það sameiginlegt að Gísli var aðaldrifkrafturinn og að um var að ræða hið fyrsta ekki bara í Vestmannaeyjum heldur á öllu landinu og jafnvel víðar.
Afkomendur Gísla J. Johnsen komu færandi hendi með frumgögn úr fórum Gísla. Þar á meðal má telja bréf, skjöl, ljósmyndir, auglýsingar frá hans stóru fyrirtækjum o.s.frv.
Nú er það starfsmanna Safnahúss að minnast hins mikla frumkvöðuls með því að gera þessi gögn aðgengileg svo sem kostur er.
 
Um leið og þakkað er hjartanlega fyrir þá rækt sem afkomendur Gísla hafa hér sýnt honum er þess jafnfram heitið að minning þessa manns muni ekki liggja hér óbætt hjá garði.