Óskar Guðnason opnar í Einarsstofu fimmtudag kl. 17.

02.03.2016
 Á morgun, fimmtudaginn 3. mars opnar sýning á verkum Óskars Guðnasonar listamanns. Óskar er fæddur á Höfn í Hornafirði 1951 og hefur málað bergnuminn af fegurð síns umhverfis frá því hann man fyrst eftir sér. Hann á ekki langt að sækja listræna hæfileika en afabróðir hans var Svavar Guðnason og ömmubróðir Höskuldur Björnsson. 

 Um listræn áhrif þeirra afanna segir Óskar:

  Sem lítill drengur hafði ég þessi verk fyrir augunum á heimili Svavars afa og ömmu og reyndi að ráða í hvað þessi litríka abstrakt upplifun var að segja en litirnir voru kraftmiklir, fjörugir, yfirþyrmandi, ógnandi, sjóðheitir og ískaldir.  Þeir veittu ímyndunaraflinu óskorað frelsi til að ferðast um í heimi birtu og skugga.  Hlutlægur veruleiki gufaði upp eins og dögg fyrir sólu og sterk hughrif litanna bjuggu til nýja heima. En snjótittlingar og æðakollur þessa heims sem Höskuldur afi var svo þekktur fyrir að mála og gæða lífi, leiddu mig ungan aftur inn í raunveruleikann, til að takast á við álfa og tröll sem bjuggu í klettunum í nágrenninu og vildu fara í indíánaleik í fjöruborðinu, úti í Álaugarey eða inni í hrossabitshaga.

 

Þannig tókst á í lífi listamannsins þessir tveir heimar, hinn innri og ólgandi af ósýnileika og spurn og hinn ytri síhvikull og hvassleitur.

Úr þessum tveimum meginstraumum er listamannsævi Óskars snúinn og nú fá Vestmannaeyingar að njóta þeirra töfra.

Listamaðurinn verður á staðnum við opnun sýningarinnar á fimmtudaginn kl. 17 sem og föstudag og laugardag kl. 13-16 en sýningin sjálf stendur til 18. mars.