Allirlesa.is

26.01.2016

Á bóndadeginum, sl. föstudag 22. janúar, var blásið til lestrarspretts undir merkjum Allirlesa.is að nýju. Var átakinu að þessu sinni ýtt úr vör í Einarsstofu í Safnahúsinu í tilefni þess að Vestmannaeyjar unnu keppni sveitarfélaganna hið fyrra sinnið.

Leikurinn stendur fram til konudags, sunnudagsins 21. febrúar kl. 00:00.

Keppt er í þremur flokkum, auk keppni milli sveitarfélaga. Flokkarnir skiptast í vinnustaðaflokk, skólaflokk og opna flokka og er hverjum flokki aftur skipt í þrennt eftir stærð einstakra hópa, í 3-9 einstaklinga, 10-29 einstaklinga og 30-50 einstaklinga. Leyfilegt er að vera í mörgum liðum samtímis.

Allar tegundir bóka eða tímarita eru gjaldgengar. Unnt er að lesa prentað efni eða rafbók eða hlýða á hljóðbók. Dagblöð eru ekki gjaldgeng.

Á Bókasafninu eru um 100.000 bækur og starfsmenn safnsins munu með ánægju hjálpa til við leit að vænlegum bókum til lestrar.

Til hæginda höfum við einnig sett upp nettengda tölvu á safninu þar sem unnt er að skrá lesturinn um leið og skilað er.

Meðan á lestrarátakinu stendur munum við gera okkar besta til að draga fram bækur sem vinsælar eru á safninu og gestir eða við sjálf mælum með. En við leggjum um leið áherslu á fjölbreyttni safnsins okkar: Ævisögur, ljóðabækur, barnabækur, þjóðlegur fróðleikur, heimspeki, átthagaefni í bland við skáldsögur svo aðeins nokkuð sé nefnt er hér að finna í þúsunda- eða jafnvel tugþúsundatali.

Verið velkomin á Bókasafnið að ná í spennandi lestur fyrir Allirlesa.is.