Um 40 manns í "Súpa og saga" í Sagnheimum, byggðasafni

13.11.2014
Vel heppnuð samkoma og forvitnilegir fyrirlestrar um tengsl Vestmannaeyja og Spanish Fork í Bandaríkjunum. Spennandi ráðstefna í Spanish Fork í september 2015.
 
 
 
Fyrir réttum 160 árum eða árið 1855 settust 3 Íslendingar að í borginni Spanish Fork í Utah, hjónin Samúel Bjarnason og Margrét Gísladóttir frá Kirkjubæ í Vestmannaeyjum og Helga Jónsdóttir vinkona þeirra úr Landeyjum. Þar með hófust Vesturheimsferðir Íslendinga, er um fimmtungur þjóðarinnar fluttist búferlum til Nýja heimsins. Alls fluttust um 400 manns til Utah og af þeim kom hvorki meira né minna en helmingur, um 200 manns, frá Vestmannaeyjum.
Ætlunin er að minnast þessara tímamóta í september á næsta ári með veglegri dagskrá í samstarfi við BYU háskólann í Utah, Íslendingafélagið í Utah og bæjaryfirvöld í Spanish Fork. Dagskráin verður haldin dagana 9.-13. sept. 2015. Á dagskránni verða m.a. kynntar niðurstöður 5 ára rannsóknar um afdrif frumherjanna 400 sem er samstarfsverkefni Vestmannaeyjabæjar (Þekkingarseturs Vestmannaeyja) og BYU háskólans í Utah. Hluti af dagskránni verður alþjóðleg ráðstefna með þátttöku ýmissa fræðimanna, m.a. frá Háskóla Íslands og háskólum í Bandaríkjunum. Sérstakur Íslendingadagur verður einnig í boði í Spanish Fork þar sem kjörið tækifæri gefst til að hitta afkomendur frumherjanna sem margir hverjir búa enn í Spanish Fork og nágrenni.
Þá munu Bændaferðir í samvinnu við Þjóðræknisfélagið bjóða upp á spennandi ferð til Utah þar sem þátttakendum gefst færi á að taka þátt í dagskránni og sjá í leiðinni suma af þeim merku stöðum sem þar má finna. Ferðatilhögun og verð verða kynnt fljótlega.
 
Bæjarstjórinn í Spanish Fork, Steve Leifson, var aðalfyrirlesari á "Saga og súpa" í Sagnheimum, byggðasafni s.l. þriðjudag. Hann sagði u.þ.b 40 gestum samkomunnar frá bænum og þeim siðum og venjum sem þar tíðkast og tengjast íslenskum innflytjendum á svæðinu. Elliði Vignisson bæjarstjóri Vestmannaeyja sagði frá vinabæjarsamkomulag Spanish Fork og Vestmannaeyja sem þeir bæjarstjórnarnir og frændurnir undirrituðu. Að lokum talaði prófessor Fred E. Woods um þær rannsóknir sem hann og Kári Bjarnason forstöðumaður Safnahúss hafa unnið að. Fred tók einnig tvö lög en Jarl Sigurgeirsson spilaði undir á gítar.