Guðbrandsbiblía afhent

22.08.2014
 Um helgina héldu afkomendur Lárusar Á. Ársælssonar og Ágústu Gísladóttur aldarminningu þeirra á lofti. Lárus var fæddur 9. maí en Ágústa 24. ágúst, bæði fyrir réttum 100 árum eða árið 1914. Um leið var minnst seinni konu Lárusar, Bergþóru Þórðardóttur, en þau gengu í hjónaband 1948. Ágústa andaðist 1941 frá þremur börnum og kom það í hlut Bergþóru að ganga þeim í móðurstað.
Á laugardaginn sl. komu afkomendur þeirra í Safnahúsið og færðu Bókasafni Vestmannaeyja að gjöf ljósprentað eintak af fyrstu útgáfu Biblíunnar á íslensku, Guðbrandsbiblíu. Biblían var prentuð árið 1589 í 500 eintökum og ljósprentuð árið 1956, einnig í 500 eintökum, að þessu sinni tölusettum. Eintak safnsins er nr. 366.
Ljósprentunin er unnin af mikilli fagmennsku og allt gert til að komast sem næst upprunalegu útgáfunni. Eins og sést á myndinni er kápan listasmíði, með spennslum og doppum, og blaðsíðurnar eru margar hverjar einnig hreinustu listaverk. Afkomendur létu gera við bókina áður en hún var afhent og lítur hún því út sem ný.
Það er með mikilli ánægju sem ég tók við þessari fallegu bók. Hún mun verða geymd í fágætisdeild safnsins og vitaskuld ekki lánuð út fremur en aðrar bækur í þeirri deild. Hins vegar er öllum heimilt að koma og lesa sér til sálarheilla úr bókinni á staðnum. Við afhendingu las ég úr Lúkasarguðspjalli þar sem segir af fæðingu frelsarans og það er með ólíkindum hvað tungumálið okkar hefur breyst lítið á hálfu árþúsundi.
Gjöfinni fylgir fallega ritað gjafabréf þar sem segir:
     Í tilefni af aldarafmæli hjónanna Ágústu Gísladóttur, fædd 24. ágúst 1914 og Lárusar Á. Ársælssonar, fæddur 9. maí 1914 og 90 ára afmælis seinni konu Lárusar, Bergþóru Þórðardóttur, fædd 16. mars 1924, afhenda afkomendur þeirra Bókasafni Vestmannaeyja útgáfu þessa af Guðbrandsbiblíu til varðveislu.
Vestmannaeyjum, 24. ágúst 2014.
Sigríður Lárusdóttir
Ársæll Lárusson
Ágústa Lárusdóttir