Oddgeirsdagurinn

22.11.2012
Föstudaginn 16.nóvember s.l. var Oddgeirsdagurinn haldinn hátíðlegur í Einarsstofu - Safnahúsinu, en Bókasafnið og Tónlistaskólinn stefna á að gera þetta að árlegum viðburði. 16.nóvember er fæðingadagur þessa merka tónskálds.
Kári Bjarnason forstöðumaður Bókasafnsins opnaði Oddgeirsdaginn, Stefán Sigurjónsson sagði frá tónfræðinni á bak við lög Oddgeirs, Jarl Sigurgeirsson ræddi hversu þýðingarmikill Oddgeir hefur verið starfi Lúðrasveitarinnar og Sigurgeir Jónsson, Ragnar Óskarsson og Magnús Jónasson rifjuðu upp kynni sín af Oddgeiri. Lúðrasveit Vestmannaeyja flutti svo nokkur lög Oddgeirs og sömuleiðis hjónin Kitty Kovács og Balázs Stankowsky.
 
Farandsýning Ólafs Engilbertssonar um líf og starf Oddgeirs Kristjánssonar var að þessu tilefni höfð í Einarsstofu en hún samanstendur af spjöldum með myndum og texta um líf og starf Oddgeirs auk þess sem hægt er að hlusta á nokkur lög sem tengjast sýningunni. Stefnt er að því að sýningin fari víðar um landið.