Hannes lóðs og sjómennska fyrri tíma

22.11.2012
Í tilefni þess að um þessar mundir eru 160 ár frá fæðingu Hannesar lóðs verður dagskrá til heiðurs hans og um sjómennsku fyrri tíma í Sagnheimum - Byggðasafni laugardaginn 24.nóvember kl. 16.
 
Dagskráin:
 
Kl. 16:00
Sjávarútvegur og sjósókn á árabátaöld. - Jón Þ. Þór, sagnfræðingur
Kl. 16:25
Áraskipin fyrir og um árið 1900, smíði þeirra og sjóhæfni - Gunnar Marel Eggertsson, skipasmiður.
Kl. 16:50
Óvæntur dagskrárliður.
Kl. 17:00
Hannes Jónsson lóðs (1852-1937), líf og starf. - Haraldur Þorsteinn Gunnarsson og Tómas Jóhannesson.
Kl. 17:30
Kristín Jóhannsdóttir - Lokaorð
 
Kaffi og spjall.
 
Flutt verða stutt viðtöl við Jóhannes Tómasson og Jórunni Gunnarsdóttur, sem minnast Hannesar, afa og langafa.
 
Allir hjartanlega velkomnir!
 
Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurlands og Vestmannaeyjabæ.
 
 
 
Hannes lóðs.
Hannes Jónsson fæddist 21. nóvember 1852 í Nýja-Kastala í Eyjum. Faðir Hannesar drukknaði þegar Hannes var nokkurra mánaða gamall og ólst hann því upp hjá móður sinni og hóf eigin búskap þegar hann var 26 ára gamall, sama ár og hann kvæntist eiginkonu sinni, Margréti Brynjólfsdóttur frá Norðurgarði. Brynjólfur faðir hennar var lengi formaður á áttæringnum „Áróru“. Margrét var góð húsfreyja og eignuðust þau hjónin fjögur börn. Eitt af þeim, Jórunn, lifði langt fram á 20. öldina og var gift Magnúsi Guðmundssyni á Vesturhúsum.
Sjómennska
Hannes hóf sjómennsku kornungur, einungis 11 ára gamall, á bátnum Gideon. Hann tók við formennsku 17 ára gamall og reri samtals í 43 ár á Gideon. Hann var talinn góður sjómaður, aflasæll og heppinn. Þrátt fyrir að hafa oft lent í hrakningum og vondum veðrum þá kom hann alltaf fleyinu ásamt áhöfn heilu og höldnu í höfn.
Lóðs
Hannes var hafnsögumaður við Vestmannaeyjahöfn í heil 50 ár. Það starf lánaðist honum mjög vel. Sem merki um það átti hann fullt traust erlendra skipstjóra sem hingað sigldu, hrósuðu þeir honum fyrir dugnað og hagsýni.
Afrek
Þegar Hannes var unglingur lenti hann í miklum háska úti í Bjarnarey. Var hann þá við lundaveiðar og hrapaði um 15 faðma þar til hann stöðvaðist við að veiðinet festust á steinnibbu í berginu og annar fóturinn festist í þeim. Hann náði að komast upp á eyna án allrar hjálpar. Aldrei varð hann þó samur eftir þetta og var hann ætíð skjálfhentur, sem má rekja til taugaofreynslu við þetta afrek.
Hannes var sæmdur heiðursmerki fálkaorðunnar fyrir sjómennskuferilinn, hafnsögumannsstarfið og annað. Á áttræðisafmæli sínu, árið 1932, var hann gerður að heiðursborgara Vestmannaeyja og var þar með fyrsti heiðursborgari Vestmannaeyja.
(Tekið af Heimaslóð.is
22.nóvember 2012)