Árna símritara minnst í Einarsstofu.

18.10.2012
Á laugardaginn 13.október sl. var þess minnst í Einarsstofu í Safnahúsi Vestmannaeyja að rétt 50 ár voru liðin frá andláti Árna Árnasonar símritara frá Grund. Að dagskránni stóðu starfsmenn Safnahúss ásamt útgáfunefnd að nýrri bók með úrvali verka Árna.

 

Kári Bjarnason forstöðumaður Bókasafns Vestmannaeyja kynnti dagskrána og kom fram í máli hans að aðdragandinn að útgáfu bókar með verkum Árna var áhugi Marinós Sigursteinssonar, Erps Hansen og Sigurgeirs Jónssonar á bjargveiðimannatali Árna. „Þegar við komum fyrst saman fyrir tæpum tveimur árum með það að markmiði að gefa talið út í handhægri bók óraði okkur ekki fyrir því hversu margvíslegar aðrar heimildir voru einnig varðveittar í Skjalasafninu með hendi Árna.“ Niðurstaðan varð því ríflega 400 blaðsíðna rit í stóru broti með úrvali verka hans. „Við höfðum áætlað að gefa bókina út í dag, 13. október, en vinnan við útgáfuna var margfalt meiri en við höfðum nokkurn tíma rennt grun í og því urðum við að fresta útgáfudeginum,“ bætti Kári við. Þó er ekki um langa frestun að ræða, þar sem bókin kemur út 1. desember og verður haldið mikið útgáfuteiti í Akóges þann dag sem nánar verður auglýst síðar.
Nánar var fjallað um þetta í 42 tbl. Eyjafrétta sem kom út 18.október sl.