Skólabyrjun

19.09.2012

Í vikunni komu hressir krakkar úr 1.bekk í heimsókn á safnið til að fá afhent fyrsta bókasafnskortið sitt.

Með kortunum fylgdi svohljóðandi bréf frá forstöðumanninum.
 
 
Kæri nemandi í 1. bekk Hamarsskóla.
Hér færð þú í hendur fyrsta bókasafnsskírteini þitt. Best er að láta pabba og mömmu geyma skírteinið því þú þarft að nota það í hvert skipti sem þú kemur á Bókasafnið til að fá lánað. Ef það gleymist þá hjálpum við þér auðvitað, en þú átt að læra að muna eftir skírteininu þínu þegar þú þarft á því að halda.
Það er stór dagur að fá eigið bókasafnsskírteini í hendur með eigin nafni og þess vegna viljum við leyfa þér að fá eina ókeypis spólu lánaða í fyrsta sinn sem þú notar skírteinið þitt – ef þú tekur bók líka að láni. Eina sem þú þarft að gera er að mæta með fullorðnum og segja okkur að þú sért að nota skírteinið þitt í fyrsta sinn.
Þú ert alltaf velkomin(n) á Bókasafnið og þar finnur þú allar bækur sem þig langar til að lesa eða láta hjálpa þér við að lesa. Það er gaman að skoða allar bækurnar, sumar eru alveg nýjar – aðrar eldri en allt sem þú þekkir.
Í vetur höfum við opið á laugardögum og núna ætlum við að prófa að bjóða þér að koma á Sögustund hjá okkur fyrsta laugardag í hverjum mánuði. Opið er á safninu kl. 11-14 alla laugardaga og eftirtalda laugardaga kl. 13 munum við lesa upp úr skemmtilegri bók fyrir ykkur: 6. október – 3. nóvember – 1. Desember
Ef Sögustundin gengur vel þá munum við eftir áramótin bjóða upp á hana annan hvern laugardag.
Ég hlakka til að sjá þig á Bókasafninu í vetur, því að koma á Bókasafnið og nota það vel er besta leiðin til að læra að lesa og njóta þess að kunna að lesa.
Vertu hjartanlega velkomin(n)
Kári Bjarnason