fæddur 28.mars 1928, lést 21.september 1989
Guðni Agnar Hermansen
25.07.2012Í Einarsstofu eru nú sýnd nokkur verka Guðna A. Hermansen en alls eru 16 verka hans í eigu Listasafns Vestmannaeyja.
Guðni lærði málaraiðn hjá Tryggva Ólafssyni málarameistara í Eyjum 1949-1953 og lauk bæði sveinsprófi og meistararéttindum í þeirri grein. Hann starfaði við málaraiðnina þar til hann sneri sér alfarið að myndlist.
Jafnframt því að vera listmálari var Guðni mikill hæfileikamaður á tónlistarsviðinu og þekktur fyrir jazzáhuga sinn, spilaði á píanó, harmoniku og saxofón.
Guðni var oft kallaður heimamálari Eyjamanna enda sótti hann efnivið í flestar myndir sínar til umhverfis Eyjanna.
Myndir Guðna þóttu sérstakar og fer einstakur stíll þeirra ekki fram hjá neinum. Páll Steingrímsson segir um myndir hans:
„Myndir Guðna eru oftast eins konar draumsýnir og þannig hluti af tilfinningum hans. Þetta eykur þeim gildi og gerir þær sérstæðar.Hann var á tímabili upptekinn af sögum og sögnum úr heimahéraði. Myndir frá þeim tíma eru eitt það besta sem hann skilur eftir sig. Við höfum skyldur við þennan náttúrusnilling og arfinn sem hann eftirlætur okkur.“
Fyrsta formlega myndlistasýning Guðna var í Akóges árið 1964 og síðan sýndi hann þar reglulega um páska til ársins 1988.Guðni hélt einka-sýningar í Norræna húsinu, Kjarvalsstöðum og víðar um land og einnig í Færeyjum. Auk þess tók hann þátt í samsýningum í Vestmannaeyjum, Reykjavík og á Grænlandi.
Eiginkona Guðna var Sigríður Kristinsdóttir. Börn þeirra eru Kristinn Agnar og Jóhanna.
Á suðurvegg Einarsstofu er einstaklega falleg blýants-teikning, mynd af konu. Hana gerði Jóhanna Erlendsdóttir (1888-1970), móðir Guðna A. Hermansen, árið 1905.
Sjá má að Guðni hefur átt stutt að sækja listræna hæfileika sína og gaman hefði verið að sjá Jóhönnu ná að blómstra í list sinni.